Hoppa yfir valmynd
1. desember 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 1. desember 2023

Heil og sæl, 

Heilsum ykkur úr skammdeginu á Rauðarárstíg, rétt í þann mund sem þjóðin gírar sig í gang fyrir síðasta mánuðinn í myrkrinu þangað til sólin byrjar að rísa á ný. Við tökumst á við þetta í sameiningu með dagsbirtugöngutúrum í hádeginu, c-vítamínríkum mandarínum, góðu molunum í makkíntosdollunni og litríkum ljósaperum. 

Í dag höldum við líka upp á 105 ára fullveldisafmæli sem er heldur betur tilefni til að rífa sig upp, fara í betri fötin og hlýða (andaktug) á okkar fagra þjóðsöng í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að við minnum okkur á að fullveldi er ekki sjálfgefin staðreynd heldur eitthvað sem við verðum að hlúa að með því að rækta tengsl og friðsamleg samskipti við önnur lönd og þjóðir, sem vill svo til að er daglegt brauð í utanríkisþjónustunni.

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra fór til Brussel einmitt í þeim tilgangi í vikunni en þar fór fram tveggja daga utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins. Utanríkisráðherrarnir funduðu í fyrsta skipti á vettvangi NATO-Úkraínuráðsins með utanríkisráðherra Úkraínu, Dmytro Kuleba. Stofnun ráðsins var samþykkt á leiðtogafundinum í Vilníus fyrr á þessu ári og markar kaflaskil í samskiptum NATO og Úkraínu. 

„Ég fagna þeirri miklu einingu sem fram kom meðal bandalagsríkja enda stöndum við frammi fyrir afar krefjandi áskorunum í Evrópu og víðar á alþjóðavettvangi. Í ljósi þess hefur mikilvægi Atlantshafsbandalagsins sjaldan eða aldrei verið meira. Það er staðfastur vilji bandalagsríkja að styðja Úkraínu með ráðum og dáð. Fundurinn undirstrikar með skýrum hætti að öryggi Úkraínu er órjúfanlegur hluti þess að tryggja öryggi og frið í Evrópu. Ég ítrekaði áframhaldandi aðstoð Íslands til Úkraínu,“ sagði Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra á fundinum.

Óháð úttekt sem unnin var af alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu GOPA og birt í vikunni sýnir fram á að áratugalangt samstarf Íslands við Mangochi-hérað í Malaví hefur skilað áþreifanlegum árangri fyrir íbúa hérðasins. Yfir 54 þúsund heimili Mangochi-héraðs njóta góðs af bættri heilbrigðisþjónustu, sem hefur verið byggð upp á vegum Íslands, en megininntak verkefna Íslands í héraðinu snýr að mæðra- og ungbarnavernd, menntamálum og vatns- og hreinlætismálum.

Nú stendur yfir 16 daga alþjóðlegt átaki gegn kynbundnu ofbeldi og utanríkisþjónustan eins og hún leggur sig tekur þátt í því. Rauðarárstígur reið á vaðið þann 25. nóvember og koll af kolli birta svo sendiskrifstofur á sínum samfélagsmiðlum póst til stuðnings átakinu sem lýkur á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna þann 10. desember næstkomandi.

Þá að sendiskrifstofunum. 

Sendiráðsstarfsfólk í Berlín tók átakið skrefi lengra með þátttöku í hlaupi, sem norrænu sendiráðin í Berlín skipulögðu ásamt utanríkisráðuneyti Þýskalands af tilefninu. Sendiherra María Erla Marelsdóttir ávarpaði þátttakendur í sameiginlegu menningar- og viðburðarhúsi norrænu sendiráðanna í Berlín að afloknu hlaupi, þar sem formlegri dagskrá með pallborðsumræðum og norrænni móttöku tók við.

Sendiherra María Erla Marelsdóttir ávarpaði gesti á upplestri Ragnars Helga Ólafssonar úr bók sinni „Laus blöð“ sem tilnefnd var til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og er nýútkomin á þýsku. Bókin sem að öllu leyti er hönnuð af höfundinum er hluti af sýningunni „Hliðstæðar víddir II“ í Felleshus.

Bókmenntir eru í forgrunni alla aðventuna hjá okkur Íslendingum. María Erla Marelsdóttir sendiherra í Berlín bauð Hallgrím Helgason velkominn á viðburði í tilefni af útgáfu bókar hans 60 kíló af kjaftshöggum á þýsku. Hallgrímur var í kynningarferð um þýskumælandi svæðið og tók ásamt Auði Jónsdóttur þátt í norrænu bókmenntahátíðinni í Hamborg.

Þá sóttu ræðismenn Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna ráðstefnu um fjölmiðla og lýðræði í Frankfurt í vikunni. 

Hlynur Guðjónsson sendiherra Íslands í Kanada átti góðan fund með þingmanni sjálfsstjórnarsvæðisins Júkon, Pat Duncan. Á fundinum ræddu þau meðal annars sjálfbærar fiskveiðar, endurnýjanlega orkugjafa og fleira.

Loftslagsmál og áskoranir tengdar þeim voru til umræðu á viðburði sem starfsfólk sendiráðs Íslands í Ottawa sótti og var haldinn af sendiráði Frakklands og Kanada fyrir sendiskrifstofur norðurskautsins á svæðinu.

Aðalráðstefnu UNESCO í París og framkvæmdastjórnarfundi lauk á dögunum eftir þriggja vikna lotu og voru þar m.a. samþykktar ályktanir um neyðaraðstoð til Gaza og Úkraínu. Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, flutti stefnuræðu fyrir hönd Íslands og tók þátt í ráðherrafundi um menntamál og frið. Þá var Ísland endurkjörið til setu í mannréttindanefnd UNESCO fyrir tímabilið 2023-2025!

Festival les Boréales hátíðin í Normandí í Frakklandi, þar sem Ísland var í hávegum haft lauk í gær. Sendiráð Íslands í París tók þátt í undirbúningi hátíðarinnar en fjöldi íslenskra listamanna kom þar fram og þótti viðburðurinn allur einkar vel heppnaður.

 

Í vikunni voru kynnt til sögunnar Vigdísarverðlaunin á vettvangi Evrópuráðsþingsins í samstarfi við ríkisstjórn Íslands, og kallaði eftir tilnefningum til þeirra í fyrsta sinn um frumkvöðla á sviði jafnréttismála. 

Jólaboð fyrir starfsfólk bandaríska þingsins var haldið í sendiráðsbústað Íslands í Washington D.C. Þetta er í annað skiptið sem jólaboðið fer fram en viðburðurinn var mjög vel sóttur. Boðið var meðal annars upp á íslenskan jólamat, drykki og heimabakaðar kleinur. Bergur Ebbi var með uppistand við góðar undirtektir og var viðburðurinn mjög vel heppnaður.

Í Washington lagði sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, Bergdís Ellertsdóttir, blóm á leiði fyrsta sendiherra Íslands Thor Thors en þann 26. nóvember sl. voru 120 ár liðin frá fæðingu hans.

Bergdís Ellertsdóttir sendiherra hélt hádegisverð fyrir sendiherra EFTA-ríkjanna og starfsmenn hjá United States Trade Representative vegna komandi viðskiptastefnuviðræðna USTR og EFTA í Washington í desember.

Ráðstefnan Arctic Futures Symposium sem sendiráð Íslands í Brussel tekur þátt í að skipuleggja ár hvert hófst í vikunni. Þetta árið fjallar ráðstefnan meðal annars um hvernig best sé að takast á við þær áskoarnir sem fylgja sífelldum breytingum á Norðurslóðum, hvernig tryggja megi svæðisbundið samstarf og öryggi á erfiðum tímum ásamt því að skapa tækifæri fyrir ungt fólk á Norðurslóðum. 

Menning og viðskipti blómstra í Helsinki þessa dagana. Sendiherra Íslands í Finnlandi Harald Aspelund tók þátt í að opna viðburð sem haldinn var með sendiráði Kanada í borginni og Icelandair í Finnlandi fyrir ferðaskrifstofur og ferðabloggara sem vinna öll að því að auka hróður Íslands og Kanada og auglýsa sem ákjósanlega áfangastaði. 

Hallgerður Hallgrímsdóttir opnaði sýninguna, hugleiðingar um ljósmyndun í Hippolyte Studio.

Hin árlega ráðstefna til kynningar á íslenskum fyrirtækjum í tæknibransanum, Slush, var haldin í tíunda skiptið í Helsinki í ár. Sendiráð Íslands í Finnlandi stóð fyrir hliðarviðburði í upphafi ráðstefnunnar þar sem ísinn var brotinn.

Henna Paunu sýningarstjóri EMMA - Espoo Museum of Modern Art kom á sýningu Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur og hitti þar Harald Aspelund sendiherra Íslands í leiðinni.

Árni Þór Sigurðsson sendiherra heimsótti Borgundarhólm í vikunni. Þar átti hann fundi með Jakob Trøst borgarstjóra og fleiri fulltrúum bæjarstjórnarinnar, heimsótti framhalds- og háskólasetur og fundaði með fulltrúum Baltic Energy Island og orkuveitu eyjarinnar.

Ráðstefnan Nordic Life Science Days stendur nú yfir í Bella Center í Kaupmannahöfn. Ráðstefnan sem haldin er í tíunda sinn þetta árið er eins stærsta sinnar tegundar innan lífvísinda og eru þátttakendur um 1800 talsins. Íslandsstofa stendur fyrir sendinefnd íslenskra fyrirtækja á svæðið, en í ár taka fyrirtækin, Retinarisk, Akthelia, Plaio, Arctic Therapeutics, Arcana Bio og 3Z þátt. 

Sendiráð Íslands í Lilongwe Malaví óskaði mannréttindalögfræðingnum og aktívistanum Amal Clooney ti hamingju með að vera á lista BBC yfir 100 áhrifamestu konur árið 2023.

Sendiráðsstarfsfólk í Lilongwe sótti líka viðburð samstarfsaðila á svæðinu, The Gender and Justice Unit, sem haldinn var í tilefni af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.

Sendiráð Íslands í Bretlandi hýsti fund Bresk-Íslenska Viðskiptaráðsins, þar sem farið var yfir verkefni næsta árs. Ráðið eflir og viðheldur viðskiptatengslum milli Bretlands og Íslands, ásamt því að efla tengsl á sviðum menntunar, menningar, viðskipta og stjórnmála. Það er tengslanet fyrirtækja, stofnana og einstaklinga og er vettvangur fyrir samskipti við hið opinbera. 

Vel tókst til með þátttöku Íslands á Norræn-baltnesku viðskiptasamkomunni í Nýju-Delí 22. - 23. nóvember 2023, sem var skipulögð af indverska utanríkisráðuneytinu og Samtökum  atvinnulífsins (CII) með um 500 þátttakendum. Sendiráðið í Nýju-Delí annaðist skipulagningu af Íslands hálfu. 

Sendiherra Íslands í Noregi Högni Kristjánsson átti ánægjulegan fund með menningar- og jafnréttisráðherra Noregs Lubna Jaffery í dag. Ráðherrann lét mjög vel af samstarfi við Ísland og formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á árinu sem er að líða.

Högni átti annan góðan fund með nýjum borgarstjóra í Osló, Anne Lindboe. Á fundinum var meðal annars rætt um vellukkaða menningardagskrá Ísdaga sem haldnir voru í október síðastliðnum í tilefni af 100 ára afmæli Íslendingafélagsins í Osló.

Sendiráð Íslands í Svíþjóð auglýsir tónleika með píanóleikaranum Eydísi Evensen sem haldnir verða í dag í safni Nóbelsverðlaunanna.

Í Gdansk hófst Nordic Focus Festival síðastliðinn föstudag. 

Á hátíðinni gefur að líta heilmargt áhugavert um og frá Íslandi. Meðal annars hina stórmerkilegu sýningu Noise from Iceland - Hidden People. 

Hannes Heimisson sendiherra Íslands í Póllandi tók þátt í viðburði til að minnast þess að 90 ár eru liðin frá hinni miklu hungursneyð sem varð í Úkraínu. 

Lilja Hjaltadóttir fiðlueikari, ásamt fleiri kennurum frá Póllandi, Íslandi, Ítalíu og Danmörku tók þátt í fyrstu alþjóðlegu Suzuki ráðstefnunni sem haldin var í Płocki Center of Culture and Arts með stuðningi sendiráðs Íslands í Póllandi.

Ísland var til umfjöllunar á fyrirlestri í Wydział Archeologii Uniwersytet í Varsjá. 

Hressir nemendur frá Íslandi í norður Atlantshafs bekknum komu í heimsókn á aðalræðisskrifstofu Íslands í Þórshöfn í vikunni. 

Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur. B. Eggertsson og kona hans, Arna Dögg Einarsdóttir ferðuðust til Færeyja um síðustu helgi til að afhenda jólatré frá Reykjavíkurborg. Kveikt var á jólatrénu í miðbænum seinnipartinn á laugardaginn. Þar var margt um manninn og jólasveinninn fékk aðstoð frá börnunum og brunabílnum til að kveikja á trénu.

Þórir Ibsen sendiherra Íslands í Kína flutti ávarp við lok hæfileikakeppni Össurar sem fór fram í Shanghai. 

Við ljúkum yfirferð vikunnar á frétt úr Heimsljósi, fréttaveitu okkar um mannúðar- og þróunarmál en í vikunni birtist þar frétt um UNESCO skólana sem fjölgar nú hratt vítt og breitt um landið.

Fleira var það ekki að sinni. 

Njótum aðventunnar!

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta