Hoppa yfir valmynd
29. júlí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 14/2014

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 29. júlí 2014 var tekið fyrir mál nr. 14/2014:

 

Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A hefur með kæru, dags. 4. júní 2014, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 5. mars 2014, þar sem kærandi var krafinn um endurgreiðslu hluta útborgaðrar fjárhæðar frá Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið október 2013 til janúar 2014 ásamt 15% álagi.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 1. september 2013, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði vegna barns hans sem fæddist þann Y. ágúst 2013. Tvær tilkynningar bárust frá kæranda um tilhögun fæðingarorlofs og var hann afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við þær, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 17. október 2013. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 20. febrúar 2014, var athygli kæranda vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu fyrir tímabilið október 2013 til janúar 2014 og óskað frekari gagna og skýringa frá kæranda. Skýringar bárust frá vinnuveitanda kæranda þann 26. febrúar 2014. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 5. mars 2014, var kærandi krafinn um endurgreiðslu hluta útborgaðrar fjárhæðar fyrir tímabilið október 2013 til janúar 2014 ásamt 15% álagi, samtals að fjárhæð 34.924 krónur.

Kærandi kærði ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála með kæru, dags. 4. júní 2014. Með bréfi, dags. 18. júní 2014, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 24. júní 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. júlí 2014, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda. Við meðferð kærumálsins hefur Fæðingarorlofssjóður fallið frá kröfu um 15% álag.

 

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að Fæðingarorlofssjóður fari fram á endurgreiðslu vegna ofgreiðslu þrátt fyrir að heimilt sé að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launabreytinga sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris. Fæðingarorlofssjóður hafi ekki óskað eftir tekjuáætlun vegna 50% starfs á móti 50% greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en með slíkri tekjuáætlun hefði mátt koma í veg fyrir ofgreiðslu.

Kærandi vísar til 58. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, en ljóst sé að ákvarðanir um reiknað endurgjald starfaflokka sé alfarið í höndum ríkisskattstjóra. Viðmiðunarreglur um reiknað endurgjald séu settar árlega af ríkisskattstjóra og taki mið af almennum taxtalaunum. Kærandi telji því að færsla úr starfaflokki D9, sem hafi verið greitt samkvæmt viðmiðum ríkisskattstjóra og sé ætlaður til viðmiðunar fyrir upphaf starfsemi í eitt ár, í starfaflokk D2 að ári liðnu sé í reynd launabreyting sem rekja megi til starfa foreldris. Að því virtu sé rétt að taka tillit til þess að hækkun úr 220.000 krónum, í reiknað endurgjald samkvæmt flokki D9 árið 2012 að fjárhæð 319.000 krónur árið 2013 og 338.000 krónur árið 2014, sé launabreyting sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs eru rakin ákvæði laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, (ffl.) og álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7022/2012 o.fl. Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að á viðmiðunartímabili kæranda skv. 5. mgr. 13. gr. ffl. hafi viðmiðunarlaun hans verið 127.178 krónur á mánuði en frá því að viðmiðunartímabili hafi lokið og fram að fæðingu barnsins hafi þau verið komin í 220.000 krónur sem miðað hafi verið við. Þannig hafi verið tekið mið af hækkuðum launum kæranda, honum til hagsbóta við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu skv. 10. mgr. 13 gr. ffl. Í kæru geri kærandi kröfu um að tekið sé tillit til launabreytinga hjá honum vegna tilfærslna á milli starfaflokka ríkisskattstjóra og hækkunar á starfaflokki frá 1. janúar 2014. Ekki sé heimilt að taka tillit til hugsanlegra launabreytinga eftir fæðingardag barns við mat á ofgreiðslu skv. 10. mgr. 13. gr. ffl. og því sé þeirri kröfu hafnað.

Á tímabilinu október til desember 2013 hafi kærandi fengið greiddar 65.789 krónur á mánuði úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem næmi mismuni á 220.000 krónum og fjárhæð greiðslu Fæðingarorlofssjóðs eða 154.211 krónur á mánuði án þess að það kæmi til lækkunar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 10. mgr. 13. gr ffl. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fyrir október til desember 2013 hafi kærandi þegið 159.500 krónur í laun. Samkvæmt skýringum, dags. 26. febrúar 2014, hafi kærandi fengið greitt samkvæmt starfaflokki D9 frá október 2013 en áður samkvæmt starfaflokki D2. Miðað hafi verið við að laun kæranda sem tilheyrðu október til desember 2013 næmu 159.500 krónum á mánuði við útreikning á ofgreiðslu kæranda og því hafi hann fengið 5.289 krónum hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt. Ofgreiðsla fyrir október til desember 2013 sé því 4.986 krónur á mánuði að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Í janúar 2014 hafi kærandi fengið greiddar 67.763 krónur úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem næmi mismuni á 220.000 krónum og fjárhæð greiðslu Fæðingarorlofssjóðs eða 152.238 krónum án þess að það kæmi til lækkunar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 10. mgr. 13. gr. ffl. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fyrir janúar 2014 hafi kærandi þegið 169.000 krónur í laun. Samkvæmt skýringum, dags. 26. febrúar 2014, hafi breytingin verið vegna hækkunar starfaflokks D9 frá 1. janúar 2014. Miðað hafi verið við að laun kæranda í janúar 2014 næmu 169.000 krónum og því hafi hann fengið 16.763 krónum hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt. Ofgreiðsla fyrir janúar 2014 sé því 15.409 krónur að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Í 15. gr. a. ffl., sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004, sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. komi fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því hafi borið samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi fyrst gert kröfu um niðurfellingu 15% álags í kæru til úrskurðarnefndarinnar. Það sé mat Fæðingarorlofssjóðs að rétt sé að fella niður 15% álag á kæranda og því muni sjóðurinn ekki gera kröfu til 15% álags í málinu. Alls sé því gerð krafa um að kærandi endurgreiði Fæðingarorlofssjóði 30.368 krónur.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um endurgreiðslu hluta útborgaðrar fjárhæðar frá Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið október 2013 til janúar 2014 ásamt 15% álagi. Endurkrafa Fæðingarorlofssjóðs byggðist á því að kærandi hafi þegið of há laun frá vinnuveitanda sínum á sama tíma og hann þáði greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði. Við meðferð kærumálsins hefur Fæðingarorlofssjóður fallið frá kröfu um 15% álag.

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna barns hans sem fæddist þann Y. ágúst 2013 og var umsókn hans samþykkt. Viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna kæranda skv. 5. mgr. 13. gr. ffl. er því tímabilið frá janúar 2012 til desember 2012. Í greiðsluáætlun, dags. 17. október 2013, kemur fram að meðaltekjur kæranda á viðmiðunartímabilinu voru alls 127.178 krónur. Af útreikningi sem fylgdi hinni kærðu ákvörðun frá 5. mars 2014 má hins vegar sjá að litið var til launa kæranda eftir að viðmiðunartímabili lauk og fram að fæðingu barns hans og miðað við 220.000 króna meðallaun við útreikning á endurgreiðslukröfu Fæðingarorlofssjóðs. Er það samkvæmt heimild í 10. mgr. 13. gr. ffl. til hækkunar á meðaltals heildarlaunum vegna launahækkana eftir lok viðmiðunartímabils en fyrir fæðingu barns. Er það kæranda til hagsbóta.

Í kæru til úrskurðarnefndar vísar kærandi til þess að heimilt sé að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana og launabreytinga sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris við útreikning endurgreiðslukröfu. Í athugasemdum við 4. gr. laga nr. 90/2004, sem breytti ákvæði 13. gr. ffl., segir að mikilvægt sé að lögin kveði skýrar á um tilgang greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en þeim sé ætlað að bæta fyrir 80% af tekjumissi foreldra er þeir leggi niður störf í fæðingarorlofi. Það sé því lagt til að kveðið verði skýrt á um að allar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem séu umfram 20% af meðaltali heildarlauna foreldris komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóðnum. Þó sé heimilt að taka tillit til tiltekinna breytinga sem geti orðið á tekjum foreldra á þeim tíma sem líður frá því að viðmiðunartímabili lýkur og fram til upphafs fæðingarorlofs foreldris og geti talist vera í samræmi við það sem almennt tíðkast á íslenskum vinnumarkaði. Þá kemur fram í athugasemdunum að með upphafsdegi fæðingarorlofs sé átt við áætlaðan fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr., en við 2. umræðu frumvarpsins á Alþingi voru þær breytingar gerðar á frumvarpinu að miða skyldi við raunverulegan fæðingardag barns en ekki áætlaðan. Barn kæranda er eins og fyrr greinir fætt Y. ágúst 2013 og koma því launahækkanir kæranda eftir það tímamark ekki til skoðunar. Þegar af þeirri ástæðu er ekki heimild til að taka til greina málsástæðu kæranda sem lýtur að launabreytingum eftir fæðingardag barnsins.

Þá byggir kærandi einnig á því að Fæðingarorlofssjóður hafi ekki óskað eftir tekjuáætlun vegna 50% starfs á móti 50% fæðingarorlofi en með slíkri tekjuáætlun hefði mátt koma í veg fyrir ofgreiðslu. Samkvæmt greiðsluáætlun, dags. 17. október 2013, var gert ráð fyrir greiðslum til kæranda í samræmi við 100% fæðingarorlof í september 2013 en 50% fæðingarorlof frá október 2013 til janúar 2014. Þar var sérstaklega tilgreint að greiðslur sjóðsins miðist við hlutfall af reiknuðu endurgjaldi kæranda og öðrum tryggingagjaldskyldum tekjum samkvæmt skrám skattyfirvalda. Þá fylgdi einnig yfirlit yfir þær tekjur sem lágu til grundvallar útreikningi greiðslna til kæranda. Að því virtu verður ekki fallist á framangreinda málsástæðu kæranda.

Samkvæmt 10. mgr. 13. gr. ffl. skulu greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Eingöngu skuli greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, en úrskurðarnefndin hefur miðað við almanaksmánuði í þessu sambandi. Þar sem kærandi þáði greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði á tímabilinu október 2013 til janúar 2014 var honum einungis heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem námu mismuni meðaltals heildarlauna hans eins og þau voru hækkuð og greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði án þess að greiðslur vinnuveitanda til hans kæmu til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Úrskurðarnefndin telur að Fæðingarorlofssjóður hafi réttilega borið endurgreiðslukröfu á hendur kæranda við meðaltals heildarlaun að fjárhæð 220.000 krónur. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði í samræmi við 50% fæðingarorlof frá október 2013 til desember 2013 að fjárhæð 65.789 krónur og 50% fæðingarorlof í janúar 2014 að fjárhæð 67.763 krónur. Kæranda var því heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda að fjárhæð 154.211 krónur frá október 2013 til desember 2013 og 152.238 krónur í janúar 2014 án þess að það hefði áhrif á greiðslur Fæðingarorlofssjóðs. Er þessi túlkun í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7022/2012 o.fl. frá 28. ágúst 2013.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greidd laun frá vinnuveitanda sínum að fjárhæð 159.500 krónur frá október 2013 til desember 2013 og 169.000 krónur í janúar 2014. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að líta verði svo á að greiðslur sem kærandi fékk frá vinnuveitanda sínum fyrir frá október 2013 til janúar 2014 hafi verið ætlaðar fyrir það tímabil, sbr. 10. mgr. 13. gr. ffl. Samkvæmt framangreindu þáði kærandi þannig hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en honum var heimilt lögum samkvæmt fyrir tímabilið október 2013 til janúar 2014. Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda um 30.368 krónur verður því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 5. mars 2014, um að endurkrefja A um 30.368 krónur er staðfest.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta