Hoppa yfir valmynd
29. júlí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 11/2014

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 29. júlí 2014 var tekið fyrir mál nr. 11/2014:


Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hefur með kæru, dags. 20. maí 2014, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 4. apríl 2014, þar sem kærandi var krafinn um endurgreiðslu hluta útborgaðrar fjárhæðar frá Fæðingarorlofssjóði fyrir nóvember 2013 og janúar 2014 ásamt 15% álagi.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna barns hans sem fæddist þann Y. október 2013. Tvær tilkynningar bárust frá kæranda um tilhögun fæðingarorlofs og var hann afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við þær, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 3. febrúar 2014. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 20. mars 2014, var athygli kæranda vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu fyrir nóvember 2013 og janúar 2014 og óskað frekari gagna og skýringa frá kæranda. Skýringar bárust frá vinnuveitanda kæranda með bréfi, dags. 2. apríl 2014, og með bréfi, dags. 10. apríl 2014, bárust skýringar frá kæranda ásamt frekari gögnum. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 4. apríl 2014, var kærandi krafinn um endurgreiðslu hluta útborgaðrar fjárhæðar fyrir nóvember 2013 og janúar 2014 ásamt 15% álagi, samtals að fjárhæð 93.385 krónur.

Kærandi kærði ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála með kæru, dags. 20. maí 2014. Með bréfi, dags. 20. maí 2014, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 12. júní 2014. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. júní 2014, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda. Við meðferð kærumálsins hefur Fæðingarorlofssjóður fallið frá kröfu um 15% álag.

 

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar vísar kærandi til skýringa frá vinnuveitanda sínum þar sem fram komi að hann hafi verið í fæðingarorlofi dagana 1. til 17. nóvember 2013 og 1. til 19. janúar 2014 og hafi ekki innt neina vinnu af hendi á því tímabili. Hlutfall vinnustunda í nóvember 2013 hafi verið 60,3% og 61,8% í janúar 2014. Kærandi hafi verið fjarverandi dagana 1. til 18. nóvember 2013 og 1. til 20. janúar 2014 en hafi unnið meira aðra daga og því hafi hlutfallið á launaseðlinum hækkað. Þá vísar kærandi einnig til skýringa frá honum til Fæðingarorlofssjóðs en þar komi fram að í lok nóvember 2013 og janúar 2014 hafi hann unnið mikið af verkefnum sem hafi safnast upp á meðan hann hafi verið í fæðingarorlofi. Ef hann deili unnum tímum niður á virka daga hafi hann unnið að meðaltali 9,5 tíma á dag í nóvember 2013 og 10 tíma í janúar 2014. Hann geti ekki séð að það sé óvenjulegur vinnutími.   

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs eru rakin ákvæði laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, (ffl.) og álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7022/2012 o.fl. Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að á viðmiðunartímabili kæranda skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. hafi viðmiðunarlaun hans verið 435.771 króna á mánuði en frá því að viðmiðunartímabili hafi lokið og fram að fæðingu barnsins hafi þau verið komin í 476.156 krónur sem miðað hafi verið við. Þannig hafi verið tekið mið af hækkuðum launum kæranda, honum til hagsbóta við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu skv. 10. mgr. 13 gr. ffl.

Í nóvember 2013 hafi kærandi fengið greiddar 198.712 krónur úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem næmi mismuni á 476.156 krónum og fjárhæð greiðslu Fæðingarorlofssjóðs eða 277.444 krónur án þess að það kæmi til lækkunar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 10. mgr. 13. gr ffl. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fyrir nóvember 2013 hafi kærandi þegið 375.062 krónur í laun en hluti greiðslunnar sé desemberuppbót sem sé undanskilin við útreikning á ofgreiðslu. Samkvæmt skýringum frá vinnuveitanda kæranda hafi hann verið fjarverandi dagana 1. til 18. nóvember 2013 en unnið meira aðra daga og því hafi launahlutfallið hækkað. Miðað hafi verið við að laun kæranda sem tilheyrðu nóvember 2013 næmu 324.742 krónum við útreikning á ofgreiðslu kæranda og því hafi hann fengið 47.298 krónum hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt. Ofgreiðsla fyrir nóvember 2013 sé því 26.385 krónur að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Í janúar 2014 hafi kærandi fengið greiddar 233.574 krónur úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem næmi mismuni á 476.156 krónum og fjárhæð greiðslu Fæðingarorlofssjóðs eða 242.582 krónur án þess að það kæmi til lækkunar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 10. mgr. 13. gr. ffl. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fyrir janúar 2014 hafi kærandi þegið 338.744 krónur í laun. Samkvæmt skýringum frá vinnuveitanda kæranda hafi hann verið fjarverandi dagana 1. til 20. janúar 2014 en hafi unnið meira aðra daga og því hafi launahlutfallið hækkað. Miðað hafi verið við að laun kæranda í janúar 2014 næmu 338.744 krónum og því hafi hann fengið 96.162 krónum hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt. Ofgreiðsla fyrir janúar 2014 sé því 54.819 krónur að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

 

Í 15. gr. a. ffl., sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004, sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. komi fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því hafi borið samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi óskað eftir því að 15% álagið yrði fellt niður en því hafi verið hafnað með bréfi til kæranda, dags. 23. apríl 2014. Það sé mat Fæðingarorlofssjóðs að það hafi verið rangt að fella ekki niður 15% álag á kæranda og því muni sjóðurinn ekki gera kröfu til 15% álags í málinu. Það sé því gerð krafa um að kærandi endurgreiði Fæðingarorlofssjóði 81.204 krónur.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um endurgreiðslu hluta útborgaðrar fjárhæðar frá Fæðingarorlofssjóði fyrir nóvember 2013 og janúar 2014 ásamt 15% álagi. Endurkrafa Fæðingarorlofssjóðs byggðist á því að kærandi hafi þegið of há laun frá vinnuveitanda sínum á sama tíma og hann þáði greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði. Við meðferð kærumálsins hefur Fæðingarorlofssjóður fallið frá kröfu um 15% álag.

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna barns hans sem fæddist þann Y. október 2013 og var umsókn hans samþykkt. Viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna kæranda skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. er því tímabilið frá apríl 2012 til mars 2013. Í greiðsluáætlun, dags. 3. febrúar 2014, kemur fram að meðaltekjur kæranda á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. voru alls 435.771 króna. Af útreikningi sem fylgdi hinni kærðu ákvörðun frá 4. apríl 2014 má hins vegar sjá að litið var til launa kæranda eftir að viðmiðunartímabili lauk og fram að fæðingu barns hans og miðað við 476.156 króna meðallaun við útreikning á endurgreiðslukröfu Fæðingarorlofssjóðs. Er það samkvæmt heimild í 10. mgr. 13. gr. ffl. til hækkunar á meðaltals heildarlaunum vegna launahækkana eftir lok viðmiðunartímabils en fyrir fæðingu barns. Er það kæranda til hagsbóta.

Samkvæmt 10. mgr. 13. gr. ffl. skulu greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Eingöngu skuli greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Til þess að unnt sé að beita þessari reglu þarf að liggja fyrir hvaða tímabil á að miða við í þessu sambandi, en það er ekki tekið skýrt fram í ffl. Þá er ekkert um þetta fjallað í reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, nr. 1218/2008. Með vísan til markmiðsskýringar, með því að líta til þess tilgangs ffl. að gera foreldri kleift að leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi án þess að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið liggi þar að baki, hefur úrskurðarnefnd miðað við almanaksmánuði í þessu sambandi. Einnig hefur úrskurðarnefndin talið sig þurfa að túlka ákvæðið til samræmis við önnur ákvæði ffl. en önnur ákvæði laganna miða við almanaksmánuði, t.a.m. þegar mánaðarleg greiðsla og starfshlutfall er ákveðið, en nefndin telur þessi atriði nátengd þeim atriðum sem á reynir við túlkun á 10. mgr. 13. gr. og mat á hugsanlegri endurgreiðsluskyldu foreldris.

Að mati nefndarinnar myndi önnur túlkun fara gegn þeim tilgangi ffl. sem reifaður var hér að framan. Lögin heimila þannig ekki að foreldri geti valið að vera í fæðingarorlofi hluta dags eða hluta mánaðar og lagt niður vinnu þann tíma en síðan bætt upp það tekjutap sem af því hlýst með frekari vinnu, til dæmis með yfirvinnu, seinni hluta sama dags eða mánaðar og það leiði þannig til þess að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði komi í raun til viðbótar við greiðslur frá vinnuveitanda að hluta eða öllu leyti. Væri ekki miðað við almanaksmánuði í þessu samhengi gæti foreldri unnið upp það tekjutap sem foreldrið yrði fyrir með því að færa verkefni sín yfir á þann hluta mánaðarins sem það væri ekki í fæðingarorlofi og vinna þannig upp, til dæmis með yfirvinnu, það tekjutap sem það hefði orðið fyrir með því að leggja niður störf, auk þess að fá umrætt tekjutap bætt úr Fæðingarorlofssjóði. Með þeim hætti væri tilgangi greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði ekki náð að mati nefndarinnar, sem sé að gera foreldrum kleift að leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi án þess að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið liggi þar að baki.

Þar sem kærandi þáði greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði í nóvember 2013 og janúar 2014 var honum einungis heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem námu mismuni meðaltals heildarlauna hans eins og þau voru hækkuð og greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði án þess að greiðslur vinnuveitanda til hans kæmu til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Úrskurðarnefndin telur að Fæðingarorlofssjóður hafi réttilega borið endurgreiðslukröfu á hendur kæranda við meðaltals heildarlaun að fjárhæð 476.156 krónur. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði í samræmi við 57% fæðingarorlof í nóvember 2013 að fjárhæð 198.712 krónur og 67% fæðingarorlof í janúar 2014 að fjárhæð 233.574 krónur. Kæranda var því heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda að fjárhæð 277.444 krónur í nóvember 2013 og 242.582 krónur í janúar 2014 án þess að það hefði áhrif á greiðslur fæðingarorlofssjóðs. Er þessi túlkun í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7022/2012 o.fl. frá 28. ágúst 2013.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greidd laun frá vinnuveitanda sínum að fjárhæð 324.742 krónur í nóvember 2013 og 338.744 krónur í janúar 2014. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að líta verði svo á að greiðslur sem kærandi fékk frá vinnuveitanda sínum fyrir nóvember 2013 og janúar 2014 hafi verið ætlaðar fyrir það tímabil, sbr. 10. mgr. 13. gr. ffl. Samkvæmt framangreindu þáði kærandi þannig hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en honum var heimilt lögum samkvæmt fyrir nóvember 2013 og janúar 2014. Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda um 81.204 krónur verður því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 4. apríl 2014, um að endurkrefja A um 81.204 krónur er staðfest.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta