Hoppa yfir valmynd
12. september 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mikill afkomubati, aðhald og skýr forgangsröðun í fjárlagafrumvarpi fyrir 2024

Ekkert Evrópuríki sem tölur ná til hafði meiri hagvöxt á fyrri helmingi ársins en Ísland. Hröðum vexti hafa fylgt mikil umsvif á vinnumarkaði, en atvinnuleysi er hverfandi og starfandi fólki hefur fjölgað um ríflega 30 þúsund frá síðustu mánuðum ársins 2020.

Talsverð spenna hefur haldist í hendur við mikinn slátt í hagkerfinu og fylgifiskur þess birtist m.a. í verðbólgu. Hún er ekki séríslenskt vandamál en hefur þó reynst þrálát hér undanfarna mánuði. Áherslur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2024, sem lagt er fram í dag, taka mið af þessum veruleika.

Forgangsröðun í þágu mikilvægra innviða og almannaþjónustu einkennir komandi ár þar sem ríkið heldur áfram að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að draga úr verðbólguþrýstingi í hagkerfinu.

Frumjöfnuður hátt í 100 milljörðum króna betri en áætlað var

Gert er ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs í ár verði hátt í 100 milljörðum króna betri en áætlað var við samþykkt fjárlaga yfirstandandi árs en þannig verða tekjur 50 milljörðum meiri en útgjöld að frádregnum vaxtagjöldum og vaxtatekjum. Frumjöfnuður var þegar orðinn jákvæður í fyrra, í fyrsta sinn frá árinu 2019, og nemur batinn yfir 190 ma.kr. á milli áranna 2021 og 2022. Ekki eru mörg dæmi í hagsögu Íslands þar sem jafn mikill bati hefur átt sér stað milli ára. Gert er ráð fyrir að frumjöfnuðurinn haldi áfram að batna árið 2024 þegar leiðrétt er fyrir liðum sem skekkja samanburðinn við yfirstandandi ár, á borð við einskiptistekjur vegna sölu Landsvirkjunar á Landsneti í lok síðasta árs. Ef haldið er áfram á sömu braut er færi á að heildarjöfnuður verði jákvæður áður en langt um líður.

 

Langtum betri afkoma hefur stutt við þá jákvæðu þróun sem birtist í skuldastöðu ríkissjóðs. Gangi áætlanir eftir mun skuldahlutfall lækka smám saman og verða innan við 31% af VLF í árslok 2024.

 

Stutt við heimili samhliða betri afkomu

Á sama tíma og afkoman batnar til muna hefur verið lögð áhersla á að verja kaupmátt fólks og styrkja húsnæðis- og barnabótakerfin. Sú breyting á tekjuskatti sem tekin var upp í áföngum á árunum 2020–2022 hefur ótvírætt sannað gildi sitt. Kerfið stuðlar að bættum kaupmætti heimilanna, ekki síst þeirra sem eru með lægstar tekjur. Í ársbyrjun er gert ráð fyrir að persónuafsláttur hækki um rúmlega 5 þúsund kr. á mánuði og að skattleysismörk hækki um rúmlega 16 þúsund kr. Einstaklingur með 500 þúsund í mánaðartekjur mun því greiða ríflega 7 þúsund kr. minna í skatt í janúar 2024 heldur en hann gerði í desember 2023.

Áhersla á aðhald

Ríkissjóður hefur staðið gegn vexti eftirspurnar og verðbólgu síðastliðin tvö ár og útlit er fyrir að svo verði enn á næsta ári þegar áhrif efnahagslega aðhaldsins koma fram í auknum mæli.

Til viðbótar við mikinn viðsnúning síðustu misseri eru 17 milljarða ráðstafanir útfærðar í frumvarpinu til að hægja á vexti útgjalda. Þar af er gert ráð fyrir að launakostnaður stofnana lækki um 5 milljarða króna. Vörður verður þó áfram staðinn um framlínustarfsemi, m.a. á sviði heilbrigðismála, löggæslu, dómstóla og menntamála.

Þá lækka önnur rekstrargjöld á borð við ferðakostnað, auk þess sem stefnt er á að hagræða um 4 milljarða með hagkvæmari opinberum innkaupum. Enn fremur er aukið á aðhald innan ráðuneyta og dregið úr nýjum verkefnum – og að með því náist allt að 8 milljarða hagræðing.

Breytt gjaldtaka af ökutækjum og umferð

Samhliða aðhaldi í útgjöldum er ráðist í nokkrar aðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármálanna. Nefna má að fyrsta skrefið verður tekið í breyttri gjaldtöku af ökutækjum og umferð á nýju ári, líkt og boðað hefur verið. Innleitt verður nýtt, einfaldara og sanngjarnara kerfi þar sem greiðslur eru í auknum mæli tengdar notkun svo hægt verði að standa að metnaðarfullri uppbyggingu samhliða nauðsynlegu viðhaldi vegakerfisins.

 

Gistináttaskattur var felldur niður tímabundið á tímum faraldursins. Að óbreyttu er gert ráð fyrir að hann taki aftur gildi um áramót og leggist þá einnig á skemmtiferðaskip. Krónutölugjöld, utan bifreiðagjalda, verða hins vegar ekki látin fylgja verðlagi, ólíkt fyrra ári þar sem þau héldust í við verðlagsforsendur. Þannig munu þau aðeins uppfærast um 3,5% um áramót en með því eru skattarnir um 3 ma.kr. lægri en ef þeir hefðu fylgt verðlagi.

Forgangsraðað fyrir öflugt samfélag

Í samræmi við þá megináherslu frumvarpsins að bæta áfram afkomuna og vinna gegn verðbólguþrýstingi hefur það ekki að geyma stór, ný útgjaldamál. Vöxtur útgjalda ríkissjóðs að nafnvirði er þannig að stærstum hluta drifinn áfram af launa- og verðlagsbreytingum. Þær eru áætlaðar um 68 ma.kr. á næsta ári sem er um tveir þriðju hluta aukningarinnar á útgjaldahliðinni og eru þær hlutfallslega miklar í sögulegu samhengi. Hins vegar er áfram fjárfest í mikilvægum innviðum og vaxtargreinum hagkerfisins auk þess að bæta og styrkja þjónustu við almenning.

 

Stóraukið fé til byggingar Landspítala

Heilbrigðismál eru í forgrunni nú líkt og áður. Áfram er gert ráð fyrir miklum gangi í byggingu nýja Landspítalans. Fjárheimild ársins til byggingarinnar er um 24 ma.kr. og hækkar um nærri 10,5 ma.kr. milli ára. Í raun er þó áætlað að fjárfest verði í nýja Landspítalanum fyrir ríflega 45 ma.kr. samanlagt í ár og því næsta með því að nýta einnig uppsafnaðar heimildir frá fjárlögum fyrri ára. Alls aukast útgjöld til heilbrigðismála um rúmlega 14 ma.kr. að raungildi milli ára. Auk byggingar Landspítalans eru lagðir fjármunir í rekstur nýrra hjúkrunarrýma, auk þess sem framlög til

heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga eru aukin og fjármögnun nýgerðra samninga við sérgreinalækna er tryggð. 

 

Stuðlað að áframhaldandi öflugri íbúðauppbyggingu

Nýbyggðum íbúðum hefur fjölgað umtalsvert á þessu ári og enn er mikill kraftur í byggingu nýs íbúðarhúsnæðis en fjöldi íbúða í byggingu er við sögulegt hámark. Ríkið mun sömuleiðis halda áfram að leggja sitt af mörkum til að kröftug uppbygging haldi áfram með tvöföldun stofnframlaga til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins þannig að í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar árlega árin 2024 og 2025 með stuðningi ríkisins verði þær 1.000 á ári. Sömuleiðis verður horft til frekari lánsfjárheimildar hlutdeildarlána í samræmi við þetta markmið, en gert er ráð fyrir að áætlanir vegna lánveitinga verði endurmetnar við aðra umræðu frumvarpsins.

 

Óvíða meira fjárfest í rannsóknum og þróun

Á næsta ári er gert ráð fyrir að útgjöld vegna endurgreiðslna á rannsókna- og þróunarkostnaði fyrirtækja muni nema um 15 ma.kr. Undanfarin ár hefur ríkissjóður aukið gríðarlega fjárfestingu sína á þessu sviði og er nú óvíða meira fjárfest í rannsóknum og þróun.

Þessi stuðningur hefur þegar borið ríkulegan ávöxt og hefur störfum í hátækni- og hugverkaiðnaði fjölgað umfram önnur störf síðastliðin þrjú ár og útflutningstekjur aukist verulega. Vonir standa til að ábatinn af þessari fjárfestingu aukist ár frá ári með fjölbreyttum og eftirsóttum störfum sem styðji við hagsæld samfélagsins alls.

3.000 fleiri fjölskyldur fá barnabætur í nýju kerfi

Seinna skrefið í nýju barnabótakerfi tekur gildi í ársbyrjun. Breytingarnar sem hafa verið innleiddar undanfarin tvö ár hafa tryggt 3.000 fleiri fjölskyldum barnabætur en raunin hefði verið í óbreyttu kerfi. Nýju fyrirkomulagi fylgir einnig töluvert hagræði fyrir barnafjölskyldur með því að teknar eru upp samtímagreiðslur barnabóta.

Stjórnvöld hafa sömuleiðis lagt áherslu á að verja kaupmátt bóta almannatrygginga undanfarin ár. Því til marks var tekin sérstök ákvörðun um að hækka bætur, umfram hækkun í fjárlögum, um mitt ár 2022 og 2023 til að mæta áhrifum verðbólgu.

Miklu varið til félags-, húsnæðis- og tryggingamála

Fyrrnefndar aðgerðir spila stærstan þátt í því að næstmest aukning útgjalda er í félags-, húsnæðis- og tryggingamálum. Útgjöld til málefna umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks hafa sömuleiðis aukist umtalsvert samhliða fjölgun í þeim hópi að undanförnu. Gert er ráð fyrir að heildarframlög þvert á málefni útlendinga, umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks verði ríflega 15 ma.kr., en hækkunin nemur 7 ma.kr. á raunvirði á milli ára.

Önnur áherslumál:

  • Fjárfestingarframlög til samgönguframkvæmda aukast um 2,4 ma.kr. milli ára
  • 1,3 milljarða aukning í rekstrarframlögum rennur til eflingar háskólastigsins
  • Nemendum fjölgað í starfs- og tækninámi á framhaldsskólastigi
  • Helmingshækkun verður á stuðningi við einkarekna fjölmiðla á milli ára.
  • Framlög til varnarmála eru aukin, m.a. til að standa að sameiginlegum tímabundnum verkefnum í Úkraínu.
  • Undirbúningur vegna heildarendurskoðunar á örorkulífeyriskerfinu heldur áfram á árinu 2024
  • Stutt við innlenda framleiðslu á korni
  • Kaup á björgunarskipum fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörgu verða styrkt.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024:

„Ísland er í sterkri stöðu og öllu máli skiptir að halda fast í árangurinn. Hratt batnandi afkoma og áframhaldandi aðhald í ríkisfjármálum stuðlar að efnahagslegum stöðugleika. Samhliða gæti verðbólgan lækkað hröðum skrefum, en til þess þarf samhent átak. Jákvæð þróun í þeim efnum er stærsta hagsmunamál samfélagsins alls. Það er því sannarlega mikið í húfi.“

Bætt stafræn framsetning

Fjárlagafrumvarpið er í ár birt í heild sinni með stafrænum hætti á vefsíðu Stjórnarráðsins. Markmiðið með vefbirtingunni er að bæta aðgengi að upplýsingum með nýtingu stafrænna lausna og um leið draga úr prentun, umhverfinu til heilla. Jafnframt eru fylgiskjöl og gögn aðgengileg á Stjórnarráðsvefnum ásamt fylgiriti fjárlagafrumvarpsins og greiningarskýrslum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta