Aukið hagræði fyrir farþega til Bandaríkjanna
Bandarísk yfirvöld munu að ósk Íslands kanna kosti þess, að koma á fót tollskoðun og forvottun farþega á leið til Bandaríkjanna við brottför þeirra frá Keflavíkurflugvelli. Slíkt fyrirkomulag er við lýði á nokkrum flugvöllum, t.d. í Dublin á Írlandi, og þykir vera til mikils hagræðis fyrir farþega sem fá skjótari afgreiðslu við lendingu á áfangastað í Bandaríkjunum. Þá myndi afgreiðsla flugvéla ganga hraðar og betur fyrir sig. Fyrirkomulagið myndi styrkja samkeppnisstöðu Keflavíkurflugvallar, auk þess sem það fæli í sér staðfestingu á góðri niðurstöðu úr ítarlegu gæðamati.
Flugmálayfirvöld víða um heim hafa sóst eftir því að koma á fyrirkomulagi af þessum toga, en færri fengið en viljað. Bandarísk stjórnvöld hafa nú tilkynnt að Keflavíkurflugvöllur sé meðal 11 flugvalla víðs vegar um heiminn sem fengu bestu umsögnina að undangenginni ítarlegri úttekt og gengið verði til viðræðna við Íslendinga um útfærslu þessa hér á landi.
„Þetta eru afar góðar fréttir og festir Keflavíkurflugvöll í sessi sem öflugan tengiflugvöll. Þær eru einnig til marks um frábært starf þeirra sem reka og veita þjónustu á vellinum og eru mikil hvatning til áframhaldandi góðra verka," segir Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.
Undirbúningur málsins hér á landi hefur verið í höndum utanríkisráðuneytisins, innanríkisráðuneytisins og Isavia ohf, en vestan hafs hafa bandaríska utanríkisráðuneytið, Samgönguöryggisstofnun Bandaríkjanna, heimavarnaráðuneyti Bandaríkjanna og tolla- og landamæraeftirlit Bandaríkjanna haldið á málinu.