Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

XI. Umhverfisþing hafið - bein útsending

Frá setningu Umhverfisþings í dag. - mynd

Þétt er setið á XI. Umhverfisþingi sem hófst á Grand Hóteli kl. 13 í dag en metaðsókn er að þinginu. Að þessu sinni fjallar Umhverfisþing um nýja nálgun í náttúruvernd og stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.

Þingið hófst með ávarpi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, sem ræddi náttúruvernd og átak í friðlýsingum en fór einnig vítt yfir sviðið.

„Í heimi örra umhverfis- og samfélagsbreytinga er auðvelt að missa móðinn. Við þurfum jákvæð teikn. Sjálfur bind ég miklar vonir við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, tillögur til að draga úr notkun plasts og það friðlýsingastarf sem nú fer fram,“ sagði Guðmundur Ingi.

Ný sýn og ný nálgun í náttúruvernd er yfirskrift fyrri hluta þingsins. Að loknu ávarpi fulltrúa ungu kynslóðarinnar, Sigurðar Jóhanns Helgasonar og Önnu Ragnarsdóttur Pedersen, fjallar Nigel Dudley, ráðgjafi hjá International Union for Conservation of Nature, um verndarflokka IUCN og mismunandi eðli friðlýsinga. Kynnt verður ný rannsókn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á efnahagsáhrifum friðlýstra svæða en rannsóknin er unnin að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar segir frá áhrifum Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls á samfélagið á Snæfellsnesi og Ragnhildur Helga Jónsdóttir, bóndi og umhverfisfræðingur við Landbúnaðarháskóla Íslands segir frá því hvernig landbúnaður og friðlýsingar geta haldist í hendur. Þá fjallar Lizzie Watts, þjóðgarðsvörður hjá USA National Park Service um samstarf hins opinbera og einkaaðila á vernduðum svæðum

Metaðsókn er að Umhverfisþingi í ár. 

Í seinni hluta Umhverfisþings verður fjallað um þjóðgarð á miðhálendi Íslands út frá ólíkum sjónarhornum. Óli Halldórsson, formaður nefndar um stofnun miðhálendisþjóðgarðs kynnir starf nefndarinnar. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við HÍ, greinir frá rannsóknum sínum á viðhorfum ferðamanna til miðhálendis Íslands og Michaël Bishop, landfræðingur kynnir nýja rannsókn á viðhorfum almennings til þjóðgarðs á miðhálendinu. Loks segir Chris Burkard, útivistarljósmyndari og TED-fyrirlesari með meiru frá upplifun sinni af miðhálendi Íslands og sýnir myndefni frá ferðum sínum þar.

Þinginu lýkur svo á pallborðsumræðum um miðhálendisþjóðgarð.

Hægt er að fylgjast með þinginu í beinni útsendingu á vef Stjórnarráðsins

Dagskrá þingsins


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta