Fréttaannáll fjármála- og efnahagsráðuneytisins 2021
Fjölmörg mál komu til kasta fjármála- og efnahagsráðuneytisins á nýliðnu ári og líkt og árið á undan voru verkefni sem tengdust heimsfaraldri kórónuveiru fyrirferðarmikil. Ráðuneytið gegndi sem fyrr leiðandi hlutverki við mótun aðgerða til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum Covid-19 fyrir einstaklinga og rekstraraðila.
Helstu sértæku efnahagsúrræði stjórnvalda vegna faraldursins runnu sitt skeið á árinu sem var að líða. Á meðal aðgerða má nefna hlutabótaleið, viðspyrnustyrki, greiðslu hluta launakostnaður á uppsagnarfresti og stuðningslán en samhliða kröftugum efnahagsbata á árinu hafði aðsókn í úrræðin minnkað
Meðal annarra stórra mála sem voru á borði ráðuneytisins var sala á hlutum ríkisins í Íslandsbanka, en ákvörðun ráðherra um sölu hlutanna var tekin í janúar í samræmi við tillögu Bankasýslu ríkisins. 7. júní hófst útboð á rúmlega 636 milljón hlutum af hlutafé ríkissjóðs í Íslandsbanka, eða um 35%. Útboðið heppnaðist vel, mikil eftirspurn var eftir hlutunum og urðu hluthafar um 24.000 sem var mesti fjöldi hluthafa í skráðu félagi á Íslandi þegar viðskipti með bréfin hófust þann 22. júní.
Utan þess sem sneri að heimsfaraldrinum var unnið að reglubundnum verkefnum á borð við fjárlög og fjárlagatengd mál, og ýmsum áherslumálum. Má þar nefna framhald eflingar stafrænna innviða, verkefni á sviðið opinberrar nýsköpunar og viðhald og endurbætur opinberra fasteigna í samræmi við fjárfestingarátak stjórnvalda.
Ný ríkisstjórn tók við í lok nóvember. Bjarni Benediktsson gegndi áfram embætti fjármála- og efnahagsráðherra og voru verkefni ráðuneytisins óbreytt frá fyrra kjörtímabili.