COVID 19: Fyrirliggjandi upplýsingar um afhendingu bóluefna
Ísland hefur samið við fimm lyfjaframleiðendur um bóluefni gegn COVID-19. Bóluefni þriggja þeirra eru komin með markaðsleyfi og bólusetning með þeim hafin hér á landi. Samningar Íslands um þessi þrjú bóluefni, þ.e. Pfizer, AstraZeneca og Moderna, kveða á um skammta sem duga til að bólusetja 304.000 einstaklinga. Samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum um afhendingu þessara bóluefna er gert ráð fyrir að í lok mars hafi Íslandi borist bóluefni fyrir samtals um 45.000 einstaklinga.
Bóluefnaframleiðandi Moderna hefur gefið út áætlun um afhendingu bóluefna út þetta ár. Samkvæmt henni fær Ísland skammta fyrir rúmlega 15.000 manns á öðrum ársfjórðungi, 25.000 manns á þriðja ársfjórðungi og 20.000 manns á síðasta ársfjórðungi þessa árs. Ekki liggja fyrir staðfestar afhendingaráætlanir til lengri tíma en loka mars frá Pfizer, AstraZeneca og Moderna.
Raunhæft er að reikna með að afhending bóluefna aukist til muna strax á öðrum ársfjórðungi, þ.e. á tímabilinu apríl–júní. Í fyrsta lagi vinna bóluefnaframleiðendur nú markvisst að því að efla framleiðslugetu sína. Í öðru lagi er þess vænst að fleiri bóluefni fái markaðsleyfi á næstunni og að afhending þeirra geti þá hafist fljótlega. Þetta á við um bóluefni Janssen sem vonir standa til að fái evrópskt markaðsleyfi fyrir lok þessa mánaðar. Samningur Íslands um bóluefni Janssen kveður á um skammta sem duga fyrir 235.000 einstaklinga. Ísland er einnig með samning um bóluefni frá CureVac fyrir 90.000 einstaklinga. Það bóluefni er á lokastigi prófana sem lofa góðu. Þess er vænst að bóluefnið muni fá markaðsleyfi og að hægt verði að byrja afhendingu þess á öðrum ársfjórðungi.