Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2017 Forsætisráðuneytið

Fjöldi greininga staðfestir kynbundinn launamun

Bakgrunnsgögn
Bakgrunnsgögn

Fjöldi launakannana og rannsókna liðinna ára og áratuga staðfesta að karlar og konur njóta ekki sömu launa fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf. Launamunur sem ekki verður skýrður með öðru en kynferði er staðreynd hér á landi, þótt deilt sé um hve munurinn er mikill.

Fjölmargar kannanir og rannsóknir hafa verið gerðar á kynbundnum launamun hér á landi á undanförnum árum og áratugum sem allar eiga sammerkt að mæla slíkan mun konum í óhag, þótt hann sé mismikill eftir könnunum. Er þá átt við þann launamun sem eftir stendur óútskýrður þegar tekið hefur verið tillit til allra málefnalegra ástæðna sem skýrt geta mun á launum, s.s. starfshlutfalls, fjölda vinnustunda, vinnutíma, menntunar, mannaforráða o.s.frv.

Oft hefur verið deilt um hvort niðurstöður mælinga á kynbundnum launamun ýki muninn eða geri of lítið úr honum. Því hefur stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins verið umhugað um að samræma gerð launakannana og hvaða aðferðafræði skuli beitt við að mæla kynbundinn launamun.

Í árslok 2012 var skipaður aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti sem fékk meðal annars það verkefni að vinna að samræmingu rannsókna á kynbundnum launamun. Á grunni þeirrar vinnu þar sem ákveðið var að leggja til grundvallar eftirtaldar skýribreytur; kyn, atvinnugreinaflokkun, starfaflokkun, vinnutíma, menntun og starfsreynsla/aldur,  var í samstarfi við Hagstofu Íslands ráðist í gerð viðamestu rannsóknar á kynbundnum launamun sem framkvæmd hefur verið hér á landi (Launamunur karla og kvenna, maí 2015). Rannsóknin náði til vinnumarkaðarins í heild, þ.e. opinbera markaðarins og þess almenna, yfir sex ára tímabil, árin 2008 – 2013, og með um 70.000 launamenn í gagnagrunninum ár hvert. Niðurstöðurnar sýndu að kynbundinn launamunur er fyrir hendi en hefur minnkað á umræddu tímabili, úr 7,8% árið 2008 í 5,7% árið 2013. Kynbundinn launamunur mældist meiri á almennum vinnumarkaði en þeim opinbera.

Heildarlaun karla rúmlega 21% hærri en kvenna

Launarannsókn Hagstofu Íslands (árið 2015) sýnir að þegar borin eru saman regluleg laun karla og kvenna, þ.e. laun fyrir dagvinnu, hafa karlar að jafnaði 17,4% hærri laun að meðaltali en konur. Í þessum samanburði er ekki leiðrétt fyrir launamun sem skýra má með málefnalegum breytum, s.s. menntun og mannaforráðum o.fl. Þegar horft er til heildarlauna mælist munurinn enn meiri, eða 21,5% körlum í vil.

Athygli vekur að óleiðréttur launamunur eykst með aldri. Einnig kemur fram að fleiri konur en karlar eru með háskólapróf en karlar hafa mannaforráð í meira mæli. Í aldurshópnum 18–27 ára á almennum markaði voru karlar með 5% hærri laun en konur, en munurinn var aftur á móti orðinn 23% í aldurshópnum 58–67 ára. Konur á opinbera markaðnum í aldurshópnum 18–27 ára voru með 3% hærri laun en karlar í sömu stöðu, en launamunurinn var hins vegar 22% körlum í vil í elsta aldurshópnum.

Jafnt íslenskar og aðrar norrænar rannsóknir leiða í ljós að kynskiptur vinnumarkaður er ein helsta skýringin á launamun karla og kvenna, þar sem hefðbundin kvennastörf eru lægra launuð en hefðbundin karlastörf og þar sem karlar eru líklegri til að fara ofar í valdastiga atvinnulífisins en konur. Á þetta er m.a. bent í skýrslunni; Staða kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði. Staðreyndir og staða þekkingar, maí 2015 . Þar er einnig vísað til rannsókna sem sýna að kynjamisrétti eigi sér oft stað við ráðningar í störf þar sem m.a. hefur komið fram að ef sendar eru út eins umsóknir um starf, önnur merkt karli en hin konu, þá sé umsækjandinn með karlmannsnafnið almennt talinn hæfari. Karlmönnum sé af þessum sökum boðin hærri laun. Auk þessa hefur verið sýnt fram á að konur séu líklegri en karlar til að taka fyrsta launatilboði sem býðst, meðan karlar geri frekar gagntilboð um hærri laun. Launamunurinn geti því myndast í sjálfu ráðningarferlinu þar sem karlar eru líklegir til að búa við ákveðið forskot við upphaf starfsferils.

Margvíslegar ástæður fyrir launamun kynjanna

Rætur kynbundins launamunar og ástæður fyrir launamun karla og kvenna almennt liggja víða. Í fyrrnefndri skýrslu um stöðu karla og kvenna á íslenskum vinnumarkaði kemur fram að CEDAW; nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám misréttis gagnvart konum, hefur gert athugasemdir við þá stöðu á íslenskum vinnumarkaði að fleiri konur en karlar  vinni í hlutastörfum og hafi staðalímyndir og hefðbundnar hugmyndir um kynhlutverk og fjölskylduábyrgð kvenna þar mikil áhrif á og séu til þess fallnar að veikja stöðu kvenna á íslenskum vinnumarkaði. Niðurstöður norrænnar skýrslu sem unnin var af NIKK (norræna upplýsingasetrinu um kyn) benda einnig til þess að ábyrgð á fjölskyldu og börnum sé aðalástæða þess að konur á íslenskum vinnumarkaði vinna hlutastörf.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta