Búist við mikilli fjölgun starfa á þessu ári
Vinnumálastofnun reiknar með mikilli fjölgun starfa á þessu ári og trúlega á breiðara sviði en verið hefur síðustu ár. Atvinnulausum fjölgaði verulega í janúar vegna sjómannaverkfalls, en jafnframt voru um 960 manns sem fóru af atvinnuleysisskrá. Þetta og margt fleira kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu stofnunarinnar um stöðuna á vinnumarkaði.
Vinnumálastofnun hefur til margra ára birt mánaðarlegar skýrslur um stöðuna á vinnumarkaði hér á landi. Nú hefur útgáfan verið endurbætt og gerðar á henni töluverðar breytingar í því skyni að gera skýrslurnar aðgengilegri og læsilegri en áður fyrir fjölmiðla og aðra sem vilja kynna sér þessar upplýsingar. Verklagi hefur einnig verið breytt þannig að efni skýrslunnar er að einhverju leyti breytilegt frá einum mánuði til annars, eftir því hvað hæst ber hverju sinni.
Fyrsta mánaðarskýrsla Vinnumálastofnunar um stöðuna á vinnumarkaði í breyttri mynd hefur nú verið birt á vef stofnunarinnar. Þar kemur m.a. fram að gera megi ráð fyrir áframhaldandi fjölgun erlends starfsfólks á vinnumarkaðinum á þessu ári, einkum karla í tengslum við aukin umsvif í byggingariðnaði en í ferðaþjónustu verði fjölgunin aftur á móti nokkuð jöfn milli kynja. Stofnunin reiknar með því að mikil fjölgun starfa á þessu ári verði á breiðara sviði en verið hefur undanfarin ár.
Áhrif sjómannaverkfallsins koma glöggt fram í þeim tölum sem birtast í skýrslu Vinnumálastofnunar en verulega fjölgaði í hópi atvinnulausra í janúar vegna þess. Fram kemur að þrátt fyrir þetta hafi um 960 manns farið af atvinnuleysisskrá í mánuðinum. Yfir helmingur þess hóps fór í vinnu, rúmur fjórðungur að auki hætti án þess að fyrir lægju upplýsingar um ástæður afskráningar. Flestir þeirra staðfestu einfaldlega ekki atvinnuleit í lok janúar og má gera ráð fyrir að hátt hlutfall þeirra hafi farið í vinnu segir í skýrslu Vinnumálastofnunar. Fleiri ástæður fyrir afskráningu eru nefndar, s.s. að 31 fór af skrá þar sem bótaréttur var fullnýttur, 25 fóru í nám af einhverju tagi, 19 voru óvinnufærir, 11 fóru í fæðingarorlof og 60 manns nefndu ýmsar aðrar ástæður, s.s. flutning til útlanda og frí/orlof.