Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðherra afhent skýrsla um vinnumarkað hjúkrunarfræðinga

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga afhenti Óttari Proppé heilbrigðisráðherra í gær skýrslu sem félagið hefur tekið saman um stöðu mönnunar í hjúkrun. Félagið lýsir áhyggjum af viðvarandi skorti á hjúkrunarfræðingum og leggur til aðgerðir til að bregðast við vandanum.

Í skýrslunni segir að greining á vinnumarkaði hjúkrunarfræðinga hafi leitt í ljós að tæp 70% menntaðra hjúkrunarfræðinga séu félagsmenn í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og að um 1.000 hjúkrunarfræðingar hér á landi starfi við annað en hjúkrun. Þá sýni könnun sem gerð var á mönnun við hjúkrun á heilbrigðisstofnunum að þar vanti um 290 hjúkrunarfræðinga í um 225 stöðugildi, en meðalstarfshlutfall hjúkrunarfræðinga á heilbrigðisstofnunum er um 70%.

Skortur á hjúkrunarfræðingum er meiri ef horft er til mats framkvæmdastjóra hjúkrunar og hjúkrunarforstjóra á heilbrigðisstofnunum en samkvæmt því vantar hjúkrunarfræðinga í um það bil 400 stöðugildi í samtals um 520 stöður.

Auk Guðbjargar sátu fundinn frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga Gunnar Helgason, sviðsstjóri kjara- og réttindasviðs og Aðalbjörg Finnbogadóttir, sviðsstjóri fagsviðs. Á fundinum þar sem þau kynntu efni skýrslunnar fyrir ráðherra ræddu þau einnig um að nýliðun í hjúkrun sé áhyggjuefni, þar sem á næstu árum muni hún ekki gera meira en að haldast í hendur við þann fjölda hjúkrunarfræðinga sem hefur töku lífeyris á næstu árum. Spá um mönnun í hjúkrun á árunum 2017 – 2021 sýni að skortur á hjúkrunarfræðingum verði viðvarandi áfram. Þá megi ekki horfa fram hjá því að þörfin fyrir heilbrigðisstarfsfólk fari vaxandi eftir því sem þjóðin eldist með hækkandi hlutfalli aldraðra.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra þakkaði á fundinum fyrir góða skýrslu, sagði efni hennar brýnt og áríðandi að finna árangursríkar lausnir til að styrkja grundvöll heilbrigðisstétta þar sem mönnun er vandamál. Hann áréttaði mikilvægi þess að taka á verkefninu í sameiningu og lýsti áhuga sínum til samstarfs, þar sem hann væri reiðubúinn að ræða jafnt við félagið og heilbrigðisstofnanir um leiðir. Guðbjörg nefndi í þessu samhengi þörf fyrir aukið fé til menntunar hjúkrunarfræðinga, bætt launakjör og ýmsa þætti sem lúta að bættu starfsumhverfi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta