Hoppa yfir valmynd
27. september 2023 Innviðaráðuneytið

Norrænir ráðherrar samþykkja yfirlýsingu um sjálfbærni í mannvirkjamálum

Sigbjørn Gjelsvik, Sigurður Ingi Jóhannsson, Mati Frederiksen, Karen Ellemann, Timo Jaatinen og Mikkel Sune Smith á norrænum ráðherrafundi um húsnæðis- og mannvirkjamál - mynd

Norrænir ráðherrar húsnæðis- og mannvirkjamála komu saman á fundi í Reykjavík í vikunni. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, var gestgjafi og stýrði fundinum sem haldinn er árlega undir merkjum Norrænu ráðherranefndarinnar. Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár en nefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna.

Á ráðherrafundinum var tímamótayfirlýsing um sjálfbærni í mannvirkjamálum samþykkt einróma. Í yfirlýsingunni segir að berjast þurfi gegn loftslagsbreytingum með skýrum aðgerðum á sviði mannvirkjamála og markmiðið sé að Norðurlöndin verði leiðandi í vistvænni mannvirkjagerð í heiminum. Unnið hefur verið að mótun yfirlýsingarinnar frá árinu 2021 þegar Norræna ráðherranefndin hleypti af stokkunum samvinnuverkefninu Nordic Sustainable Construction. 

Sigurður Ingi sagði frá mikilvægum skrefum sem stigin hafi verið á Íslandi. Hann sagði frá samstarfsverkefninu Byggjum grænni framtíð, þar sem stjórnvöld og hagaðilar byggingariðnaðarins hafa sett fram vegvísi um vistvæna mannvirkjagerð með aðgerðaáætlunum. 

Áskoranir á sviði húsnæðismála

Á fundinum var fjallað vítt og breitt um húsnæðis- og mannvirkjamál og áherslur í hverju landi. Skýrt kom fram að Norðurlöndin öll glíma við áskoranir á sviði húsnæðismála, ekki síst vegna framboðs á húsnæði. Víða er því unnið að því að einfalda og gera stjórnsýsluna skilvirkari til að liðka fyrir uppbyggingu á húsnæðismarkaði.

Áhersla á að auka samanburðarhæfni á loftslagsáhrifum bygginga á Norðurlöndunum

Norræna verkefnið, Nordic Sustainable Construction, rennur inn í nýtt norrænt samstarfsverkefni sem miðar að því að auka samanburðarhæfni og samhæfni tæknilegra útreikninga á lífsferilsmati og viðmiðunarmörkum fyrir loftslagsáhrif bygginga á Norðurlöndunum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta