Hoppa yfir valmynd
21. desember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Aukinn stuðningur til öryggismála og slysavarna ferðamanna

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra skrifaði í dag undir samning við Slysavarnarfélagið Landsbjörg og Samtök ferðaþjónustunnar um áframhaldandi stuðning  til öryggismála og slysavarna ferðamanna undir merkjum „Safetravel“ verkefnisins.

Undanfarin ár hefur ráðuneyti ferðamála gert samning við Slysavarnafélagið Landsbjörgu og Samtök ferðaþjónustunnar um eflingu öryggismála og slysavarna ferðamanna með því að skapa gott aðgengi fyrir ferðamenn og ferðaþjónustuaðila að upplýsingum um ábyrga ferðahegðun, umgengni um náttúru og aðstæður í landinu.

Að þessu sinni verður 40 m.kr. varið til verkefnisins, sem er ætlað að tryggja því fjárhagslegan grundvöll  og jafnframt skapa svigrúm til að auka umfang verkefna frá því sem verið hefur. 

Mikil fjölgun ferðamanna til Íslands á undanförnum árum hefur skapað margvíslegar áskoranir varðandi öryggi þeirra og slysavarnir og er því um að ræða hækkun á framlagi menningar- og viðskiptaráðuneytisins til verkefnisins. 

„Safetravel verkefnið hefur skipt sköpum í því að stuðla að auknu öryggi ferðamanna og vil ég þakka Landsbjörgu sérstaklega fyrir árangursríkt starf.Ferðaþjónustan hefur einnig lagt mikið af mörkum í því að bæta öryggismálin. Við viljum að allir geti notið ferðalagsins á Íslandi á öruggan hátt,” segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Meðal þess sem samningurinn tekur til er:

  • Þróun og rekstur heimasíðunnar safetravel.is og innsetning viðvarana þegar þörf er á fyrir ferðamenn og ferðaþjónustuaðila.
  • Þróun og rekstur skjáupplýsingakerfis ferðamanna á lykilstöðum um allt land.
  • Útgáfa, dreifing og uppsetning á öðru fræðsluefni til ferðamanna.
  • Þróun og vinna við aksturhluta safetravel forritsins.
  • Þróun á ökuprófum fyrir erlenda ferðamenn inn á vef safetravel.is.
  • Fræðsla til starfsmanna í ferðaþjónustu, m.a. með námskeiðum um árangursríka upplýsingagjöf.
  • Heilsársviðvera í stafrænni upplýsingamiðstöð á vef safetravel.is þar sem m.a. er safnað upplýsingum um aðstæður á ferðamannastöðum víða um landið og þeim miðlað áfram með upplýsingakerfum safetravel.is.
  • Hálendisvakt björgunarsveitanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta