IPA landsáætlun 2013 samþykkt af aðildarríkjum ESB
Aðildarríki ESB hafa samþykkt samhljóða tillögur Íslands að landsáætlun IPA fyrir árið 2013. Um er að ræða þrjú verkefni sem geta komið til framkvæmda að lokinni afgreiðslu í framkvæmdastjórn ESB, sem vænta má í janúar. Heildarstyrkveitingar til Íslands skv. landsáætlun 2013 eru áætlaðar tæpar 11 milljónir evra eða u.þ.b. 1,8 milljarður króna.
Skv. landsáætlun 2013 fær Fjármálaeftirlitið stuðning til að ráðast í umbótaverkefni sem tekur til eftirlits með allri fjármálastarfsemi og beinist annars vegar að því að samræma aðferðir við eftirlit samkvæmt viðurkenndum alþjóðlegum viðmiðum og hins vegar að því að skipulag stofnunarinnar styðji sem best við kjarnastarfsemi hennar. Hagstofan fær stuðning til að hérlend fyrirtækjatölfræði verði í samræmi við kröfur EES samningsins. Með því er stjórnvöldum og fyrirtækjum á Íslandi tryggður aðgangur að opinberum upplýsingum um íslenskt atvinnulíf og fyrirtækjaumhverfi eins og best gerist í Evrópu. Loks fær Tollstjóri stuðning við að byggja upp tölvukerfi sem heldur utan um umflutning (transit) á vörum til og frá Íslandi í samræmi við reglur sem eru gildandi á EES svæðinu, undirbúa upptöku á tölvukerfi tollskrár sem væri sambærilegt við tollskrárkerfi ESB, og samtímis innleiða nýtt þjónustulag í uppbyggingu tölvukerfis Tollstjóra.
Heildarstyrkveitingar til Íslands á tímabilinu 2011-2013 verða því tæplega 35 milljónir evra eða rúmlega 5,7 milljarðar króna.
Nánari upplýsingar um verkefni á landsáætlunum IPA fyrir árin 2011 og 2012 er að finna hér.