Nefnd um umbætur í lyfjamálum
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur skipað nefnd til að vinna að umbótum í lyfjamálum . Verkefni nefndarinnar er að semja drög að nýrri lyfjastefnu til ársins 2020 á grundvelli Lyfjastefnu til 2012. Er miðað við að því starfi verði lokið fyrir nóvember 2015. Einnig er nefndinni ætlað að semja drög að frumvarpi til lyfjalaga sem verði tilbúið til framlagningar á vorþingi 2016. Sömuleiðis á nefndin að endurskoða stjórnsýslu lyfjamála og gera tillögu að úrbótum. Gert er ráð fyrir að starf nefndarinnar verði í víðtæku samráði við hagsmunaaðila.
Sigurður M. Magnússon, forstjóri Geislavarna ríkisins, er formaður nefndarinnar. Aðrir í nefndinni eru Brynjar Nielsson alþingismaður og Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.
Starfsmaður nefndarinnar er Einar Magnússon, lyfjamálastjóri, en auk hans munu tveir lögfræðingar starfa með nefndinni, annar frá Lyfjastofnun og hinn frá velferðarráðuneytinu.