Árleg framvinduskýrsla Heimsmarkmiðanna komin út
Átök, loftslagsbreytingar og ójöfnuður kynjanna eru helstu skýringar á fjölgun fólks sem býr við matarskort eða lendir á vergangi. Sömu þættir tefja framvindu Heimsmarkmiðanna. Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um Heimsmarkmiðin: Sustainable Development Report.
Góðu fréttirnar eru þær að sífellt færri lifa undir viðmiðunarmörkum sárrar fátæktar, vel miðar í áttina að fækkun barna sem deyja yngri en fimm ára og aðgengi fólks að rafmagni hefur batnað verulega.
Við útgáfu skýrslunnar í nýliðinni viku undirstrikaði Francesca Perucci hjá Efnahags- og félagsmálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (DESA) mikilvægi gagnaskráningar og greininga til að fylgjast með framförum.
Í framvinduskýrslunni kemur fram að „fleira fólk lifir betra lífi“ en fyrir áratug. Frá árinu 2000 hefur þeim fjölskyldum sem hafa í tekjur innan við 1,90 bandaríska dali á dag (200 krónur íslenskar) fækkað úr 26,9% niður í 9,2%. Einnig hefur atvinnulausum fækkað verulega. Konum sem deyja af barnsförum hefur fækkað um 37% og dregið hefur úr dauðsföllum barna yngri en fimm ára um 47%. Þá hafa núna tvöfalt fleiri í fátækustu ríkjum heims aðgang að rafmagni en í byrjun aldarinnar.
Fram kemur í skýrslu Sameinuðu þjóðanna að barnabrúðkaupum haldi áfram að fækka í heiminum í samræmi við markmið 5.2. Tekið er dæmi af sunnanverðri Asíu þar sem 40% minni líkur eru á því núna að stelpur giftist á barnsaldri borið saman við árið 2000. Þá segir um 12. markmiðið – Ábyrg neysla og framleiðsla – að rúmlega eitt hundrað þjóðríki hafi núna samþykkt stefnumörkun og aðgerðir til að koma þessum málum í rétt horf.
Þrátt fyrir framfarir á ýmsum sviðum segir í skýrslunni að heimurinn standi frammi fyrir verulegum áskorunum í tengslum við Heimsmarkmiðin. Þar er sérstaklega nefnt að bæta þurfi stöðu þeirra hópa sem standa höllustum fæti. Ójöfnuður kynjanna er annað dæmi sem bent er á í skýrslunni að haldi aftur af konum og svipti þær tækifærum og réttindum. Þá er nefnt að ungmenni séu þrisvar sinnum líklegri en aðrir fullorðnir til að vera án atvinnu.