Hoppa yfir valmynd
4. desember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 17/2013.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                              

 

Miðvikudaginn 4. desember 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 17/2013:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 27. mars 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 20. mars 2013, á beiðni hennar um sérstakar húsaleigubætur. Synjunin byggðist á því að kærandi hafi ekki átt lögheimili í sveitarfélaginu síðustu þrjú ár samfleytt áður en umsókn barst og ekki þóttu skilyrði til að veita undanþágu frá skilyrði um lögheimili.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi hefur búið á Íslandi í sjö ár. Hún bjó í eitt ár í Hafnarfirði en flutti síðan í Kópavog. Kærandi flutti til Reykjavíkur í febrúar 2013. Kærandi varð atvinnulaus í nóvember 2012 og þáði frá þeim tíma atvinnuleysisbætur. Kærandi er einstæð móðir en barn hennar fæddist þremur mánuðum fyrir tímann. Á meðgöngu uppgötvaðist alvarlegur nýrnasjúkdómur kæranda og var hún mikið veik á meðgöngunni. Kærandi sótti um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 5. febrúar 2013. Kærandi sótti enn fremur um undanþágu frá búsetureglu með umsókn, dags. 25. febrúar 2013. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 1. mars 2013, með þeim rökum að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði b-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík, um að hafa átt lögheimili í Reykjavík samfleytt síðustu þrjú ár áður en umsókn berst. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs en skrifleg áfrýjun liggur ekki fyrir í málinu. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 20. mars 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

 

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um undanþágu frá skilyrði b-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur.

 

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 21. mars 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 27. mars 2013. Með bréfi, dags. 2. apríl 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um sérstakar húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 16. apríl 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 23. apríl 2013, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 3. september 2013, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Kærandi kveðst ekki getað unnið vegna nýrnasjúkdsóms og hás blóðþrýstings. Hún sé einstæð móðir en barn hennar hafi fæðst fyrir tímann og liggi á vökudeild fram í maí 2013. Húsaleiga hennar sé 160.000 kr. Kærandi kveðst hafa búið á Íslandi í sjö ár. Hún hafi verið með skráð lögheimili í Kópavogi en hafi þó búið í Reykjavík.

 

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

 

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar vegna kærunnar kemur fram að um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavíkur gildi reglur sem samþykktar hafi verið í félagsmálaráði þann 18. febrúar 2004 og í borgarráði þann 24. febrúar 2004, með síðari breytingum. Reykjavíkurborg vísar til 4. og 5. gr. reglnanna og bendir á að undanþáguákvæði 5. gr. sé heimildarákvæði og því ekki skylt að veita slíkar undanþágur. Samkvæmt upplýsingum sem legið hafi fyrir velferðarráði þá hafi kærandi leitað til þjónustumiðstöðvar þann 5. febrúar 2013 en kærandi hafi þá verið nýlega flutt til Reykjavíkur. Samkvæmt skráningu í þjóðskrá hafi kærandi verið með skráð lögheimili í Kópavogi frá því í júlí 2007 og fram í febrúar 2013. Það hafi því verið ljóst að skilyrði b-liðar 4. gr. reglna um félagslegt húsnæði og sérstakar húsaleigubætur hafi ekki verið uppfyllt þar sem ekki hafi verið um að ræða samfellda búsetu í Reykjavík í þrjú ár. Í ljósi þess að kærandi hafi fram til febrúar 2013 ekki búið í Reykjavík hafi ekki verið talið unnt að veita undanþágu skv. a-lið 5. gr. reglnanna. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður kæranda þá hafi þær ekki verið með þeim hætti að veita bæri kæranda undanþágu frá skilyrði um lögheimili á grundvelli b-liðar 5. gr. reglnanna en ákvæðið geri kröfu um mikla félagslega erfiðleika. Við mat á því hvort um mikla félagslega erfiðleika sé að ræða verði meðal annars að líta til þess hvort aðstæður sem um ræði hafi varað í langan tíma. Aðstæður kæranda hafi verið nýtilkomnar, þ.e. veikindi hennar og fæðing barns hennar fyrir tímann, en áður hafi kærandi verið í vinnu og ekki þurft að leita eftir félagslegri aðstoð. Óljóst sé því hvernig framtíð kæranda muni þróast en mögulega sé aðeins um tímabundna erfiðleika að ræða. Með hliðsjón af framansögðu hafi það verið mat sveitarfélagsins að ekki bæri að veita kæranda undanþágu frá skilyrði b-liðar 4. gr. reglnanna. Þá verði að telja ljóst að hin kærða ákvörðun hafi ekki brotið gegn ákvæðum reglnanna, laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 né laga um húsaleigubætur nr. 138/1997.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Fyrir nefndinni liggja reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur frá 1. mars 2004, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Reykjavíkurborghafi borið að samþykkja umsókn kæranda, dags. 5. febrúar 2013, um sérstakar húsaleigubætur.

 

Kærandi sótti um sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 5. febrúar 2013. Umsókn kæranda var synjað á grundvelli b-liðar 4. gr. framangreindra reglna þar sem kærandi átti ekki lögheimili í Reykjavík síðustu þrjú árin samfleytt áður en umsókn barst. Reykjavíkurborg taldi ekki skilyrði til að veita undanþágu frá b-lið 4. gr. á grundvelli a-liðar 5. gr. reglnanna þar sem kærandi hafi ekki búið í Reykjavík fyrr en hún fluttist þangað í febrúar 2013. Þá hafi ekki verið skilyrði til að veita undanþágu á grundvelli b-liðar 5. gr. reglnanna þar sem aðstæður kæranda hafi verið nýtilkomnar og mögulega aðeins um tímabundna erfiðleika að ræða. Kærandi kveðst vera einstæð móðir og hún geti ekki unnið vegna nýrnasjúkdóms og hás blóðþrýstings. Þá upplýsir kærandi að hún hafi búið í Reykjavík jafnvel þótt lögheimili hennar hafi verið skráð í Kópavogi.

 

Í 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði metin gild og skal umsækjandi uppfylla öll skilyrðin svo umsókn öðlist gildi. Í b-lið 4. gr. er gert að skilyrði að umsækjandi eigi lögheimili í Reykjavík þegar sótt er um og a.m.k. síðustu þrjú árin samfleytt áður en umsókn berst. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá átti kærandi lögheimili í Kópavogi frá 2. júlí 2007 til 5. febrúar 2013 en þá flutti hún lögheimili sitt til Reykjavíkur. Kærandi sótti um sérstakar húsaleigubætur með umsókn, dags. 5. febrúar 2013. Það liggur því ljóst fyrir að kærandi átti ekki lögheimili í Reykjavík síðustu þrjú ár samfleytt áður en umsókn um sérstakar húsaleigubætur barst Reykjavíkurborg.

 

Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um undanþágur frá skilyrðum 4. gr. um lögheimili og tekjuviðmið. Reykjavíkurborg hefur við meðferð kærumáls þessa bent á að undanþáguákvæði 5. gr. sé heimildarákvæði og því ekki skylt að veita slíkar undanþágur. Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að benda á að jafnvel þó í ákvæðinu sé kveðið á um heimild til að veita undanþágur frá skilyrðum 4. gr. er Reykjavíkurborg bundin af jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. laga nr. 37/1993, en samkvæmt henni skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Þegar stjórnvald hefur byggt ákvörðun á tilteknum sjónarmiðum og lagt áherslu á ákveðin sjónarmið leiðir jafnræðisreglan almennt til þess að þegar sambærilegt mál kemur aftur til úrlausnar ber almennt að leysa úr því á grundvelli sömu sjónarmiða og með sömu áherslu og gert var við úrlausn hinna eldri mála.

 

Á grundvelli a-liðar 5. gr. reglnanna er heimilt að veita undanþágu frá lögheimili hafi umsækjandi búið í Reykjavík stóran hluta ævi sinnar en flutt tímabundið úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að skilyrði a-liðar séu ekki uppfyllt enda flutti kærandi fyrst til Reykjavíkur í febrúar 2013. Ekki verður miðað við annað en skráningu lögheimilis í þjóðskrá.

 

Þá er á grundvelli b-liðar 5. gr. reglnanna heimilt að veita undanþágu frá lögheimili sé umsækjandi samkvæmt faglegu mati ráðgjafa í mjög miklum félagslegum erfiðleikum, sbr. liður 5 c í matsviðmiði sbr. fylgiskjal 1. Kærandi varð atvinnulaus í nóvember 2012 og þáði frá þeim tíma atvinnuleysisbætur. Kærandi er einstæð móðir en barn hennar fæddist þremur mánuðum fyrir tímann. Á meðgöngu uppgötvaðist alvarlegur nýrnasjúkdómur kæranda og var hún mikið veik á meðgöngunni. Við mat á því hvort um mikla félagslega erfiðleika hafi verið að ræða var af hálfu Reykjavíkurborgar litið til þess að aðstæður kæranda voru nýtilkomnar, þ.e. veikindi hennar og fæðing barns hennar fyrir tímann, en áður hafi kærandi verið í vinnu og ekki þurft að leita eftir félagslegri aðstoð. Þá var litið til þess að mögulega væri aðeins um tímabundna erfiðleika að ræða. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fallast verði á það mat Reykjavíkurborgar að kærandi uppfylli ekki hið matskennda viðmið b-liðar 5. gr. reglnanna eins og hér stendur á. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 20. mars 2013, um synjun á umsókn A, um sérstakar húsaleigubætur er staðfest.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta