Hoppa yfir valmynd
11. desember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 18/2013.

 

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                              

 

Miðvikudaginn 11. desember 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 18/2013:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 2. maí 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 17. apríl 2013, á beiðni hans um sérstakar húsaleigubætur. Synjunin byggðist á því að aðstæður kæranda hafi einungis verið metnar til níu stiga en í b-lið 7. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík sé gerð krafa um 11 stig eða meira.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi er einstæður faðir og flutti til Íslands frá B árið 2005. Kona hans lést í B eftir að hafa glímt við veikindi. Sonur kæranda er með lifrarbólgu B en óvíst er hvort sjúkdómurinn muni hafa áhrif á hann. Kærandi var í hernum og upplifði mikið mannfall í stríði. Hann hefur lítið stuðningsnet en á nokkra ættingja á Íslandi. Kærandi hefur verið atvinnulaus síðan 2011 en er með bótarétt og er virkur í atvinnuleit. Hann varð fyrir vinnuslysi árið 2007 og 2011 og er með áverka á hné eftir það.

 

Aðdragandi afgreiðslu umsóknar kæranda um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg er nokkuð óljós. Í máli þessu liggur fyrir umsókn kæranda, dags. 9. nóvember 2011. Í öðrum gögnum málsins kemur þó fram að kærandi hafi óskað eftir félagslegu leiguhúsnæði og sérstökum húsaleigubótum munnlega þann 10. desember 2012, umsóknin hafi verið tekin fyrir á búsetuteymisfundi þann 22. janúar 2013 og metin til átta stiga. Þar sem gerð hafi verið krafa um 11 stig hafi umsókninni verið synjað. Þá liggur fyrir áfrýjun kæranda til velferðarráðs vegna stigagjafar, dags. 11. mars 2013. Telja verður að í erindinu hafi falist beiðni kæranda um endurskoðun á stigafjölda vegna umsóknar hans. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 4. apríl 2013, með þeim rökum að kærandi hafi einungis verið metinn til níu stiga. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs en áfrýjunin liggur ekki fyrir í gögnum málsins. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 17. apríl 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

 

Velferðarráð staðfesti mat starfsmanna þjónustumiðstöðvar á stigagjöf vegna umsóknar um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur, sbr. matsblað með reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur.

 

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 18. apríl 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 2. maí 2013. Með bréfi, dags. 3. maí 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um sérstakar húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 17. maí 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 22. maí 2013, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 3. september 2013, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Kærandi hefur ekki komið neinum sjónarmiðum á framfæri í málinu.

 

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

 

Í athugasemdum vegna kærunnar kemur fram að um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík gildi reglur sem samþykktar hafi verið í félagsmálaráði 18. febrúar 2004 og í borgarráði 24. febrúar 2004 með síðari breytingum. Í 3. gr. reglnanna komi fram að þær séu ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika. Í 4. gr. reglnanna komi fram skilyrði fyrir því að umsókn öðlist gildi. Fullnægi umsækjandi skilyrðum 4. gr. raðist umsóknir í forgangsröð eftir ákveðnum matsviðmiðunum, sbr. fylgiskjal 1 með reglunum, þar sem meðal annars sé höfð hliðsjón af núverandi húsnæðisstöðu, heilsufari, félagslegum aðstæðum og tekjum, sbr. 6. gr. reglnanna. Í 7. gr. komi fram að þegar fyrir liggi að umsækjandi fullnægi skilyrðum 4. gr. reglnanna, skilyrðum laga um húsaleigubætur nr. 138/1997 og fái 11 stig þegar um sé að ræða einstakling með eitt barn, sé heimilt að bjóða viðkomandi sérstakar húsaleigubætur.

 

Samkvæmt mati starfsmanna þjónustumiðstöðvar hafi kærandi fengið samtals níu stig við útreikning á matsblaðinu. Sumir þættir hafi ekki verið háðir mati, eins og stig vegna tekna en aðrir þættir hafi verið það, svo sem húsnæðisstaða og félagslegur vandi umsækjanda. Kærandi hafi verið metinn til tveggja stiga vegna húsnæðisstöðu og kærandi hafi fengið eitt stig vegna tekna. Þá hafi hann fengið tvö stig þar sem eitt barn hafi átt lögheimili hjá honum. Kærandi hafi ekki fengið stig vegna sérstakra aðstæðna barna. Kærandi hafi verið metinn með mesta mögulega félagslega vanda sem samsvari fjórum stigum. Önnur atriði eigi ekki við, svo sem staða umsækjanda, staða maka og félagsleg endurhæfing.

 

Varðandi stig vegna tekna bendir Reykjavíkurborg á að ekki sé heimilt að veita undanþágu frá tekjuviðmiðum. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá hafi tekjur kæranda fyrir árið 2012 verið 2.276.073 kr. og hafi kærandi því verið metinn til eins stigs þar sem tekjur hans hafi verið á bilinu 2.106.131 til 2.632.662 kr. á ári. Varðandi stig vegna sérstakra aðstæðna barna bendir Reykjavíkurborg á að sonur kæranda sé með lifrarbólgu B en óvíst sé hvort sjúkdómurinn muni hafa áhrif á drenginn. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda hafi veikindi drengsins ekki áhrif á líf hans í dag og ítrekað hafi verið við kæranda að hann upplýsi þjónustumiðstöð um breytingar á því. Varðandi stig vegna húsnæðisstöðu bendir Reykjavíkurborg á að kærandi hafi verið með þinglýstan ótímabundinn húsaleigusamning, hann hafi greitt 113.525 kr. á mánuði og fengið 33.700 kr. í húsaleigubætur á mánuði. Hann hafi verið með 179.513 kr. í atvinnuleysisbætur á mánuði. Þrátt fyrir að kærandi hafi verið með ótímabundinn húsaleigusamning hafi húsnæðisstaða hans verið metin verulega erfið þar sem húsaleiga kæranda hafi verið rúmlega 44% af heildartekjum hans þegar tillit hafi verið tekið til húsaleigubóta. Til þess að vera metinn til þriggja stiga í húsnæðisstöðu þurfi að vera um það að ræða að vart sé möguleiki að bíða eftir húsnæði en þau viðmið hafi mótast í framkvæmd að til slíkra aðstæðna teljist meðal annars húsnæðisleysi, dvalið sé á gistiheimili eða búið sé í húsnæði á vegum félagasamtaka sem þurfi að rýma strax. Það hafi verið mat sveitarfélagsins að aðstæður kæranda hafi ekki verið með þeim hætti að honum bæri að veita þrjú stig í húsnæðisstöðu.

 

Með hliðsjón af framansögðu hafi velferðarráð staðfest niðurstöðu starfsmanna þjónustumiðstöðvar um stigagjöf. Það hafi verið mat velferðarráðs að ekki hafi verið ástæða til að breyta fyrirliggjandi stigagjöf með vísan til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Reykjavíkurborg telur að hin kærða ákvörðun hafi ekki brotið gegn framangreindum reglum né lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Fyrir nefndinni liggja reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík frá 1. mars 2004, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur.

 

Kærandi sótti um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg. Kærandi var metinn til samtals níu stiga, tveggja vegna húsnæðisstöðu, eins vegna tekna, tveggja vegna barna og fjögurra vegna félagslegs vanda. Umsókn kæranda var synjað á þeim grundvelli að aðstæður kæranda hafi einungis verið metnar til níu stiga en í b-lið 7. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík sé gerð krafa um 11 stig eða meira.

 

Í 7. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslu sérstakra húsaleigubóta. Í ákvæðinu segir að þegar fyrir liggi að umsækjandi fullnægi skilyrðum 4. gr. reglnanna og að leiguhúsnæðið falli að þeirri skilgreiningu er fram komi í 3. gr. reglnanna megi bjóða viðkomandi sérstakar húsaleigubætur. Þá skuli umsækjandi auk þess uppfylla skilyrði laga nr. 138/1997 um greiðslu húsaleigubóta og tiltekin skilyrði er varði aðstæður umsækjanda. Í b-lið 7. gr. er kveðið á um að aðstæður einstaklings með eitt barn skuli vera metnar til 11 stiga eða meira. Í fylgiskjali 1 með framangreindum reglum er að finna matsviðmið um forgangsröðun umsókna eftir félagslegu leiguhúsnæði Félagsbústaða h.f. og sérstökum húsaleigubótum. Aðstæður umsækjenda eru metnar til stiga á bilinu 0-5. Aðstæður sem metnar eru, er staða umsækjanda, staða maka, tekjur á ársgrundvelli, börn og félagslegar aðstæður, þ.e. húsnæðisstaða, sérstakar aðstæður barna, félagslegur vandi umsækjanda/fjölskyldu og félagsleg endurhæfing.

 

Úrskurðarnefndin tekur undir með Reykjavíkurborg að staða umsækjanda, sbr. 1. gr. matsviðmiðs, eigi ekki við í máli kæranda enda er hann hvorki ellilífeyrisþegi né hefur komið fram að hann sé 75% öryrki eða með skerta starfsgetu vegna sjúkdóms eða örorku undir 75%. Þá hefur komið fram að kærandi eigi ekki maka og á staða maka því ekki í við í málinu, sbr. 2. gr. matsviðmiðs. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá voru tekjur kæranda árið 2012 samtals 2.276.073 kr. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að tekjur kæranda hafi réttilega verið metnar til eins stigs, sbr. 3. gr. matsviðmiðs. Þá hefur komið fram að kærandi á eitt barn sem á lögheimili hjá honum og var hann því réttilega metinn til tveggja stiga vegna barna, sbr. 4. gr. matsviðmiðs.

 

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg var kærandi með þinglýstan ótímabundinn húsaleigusamning, greiddi 113.525 kr. í leigu á mánuði og fékk 33.700 kr. í húsaleigubætur á mánuði. Tekjur hans voru atvinnuleysisbætur sem námu 179.513 kr. á mánuði. Þar sem húsaleiga, að teknu tilliti til húsaleigubóta, var rúmlega 44% af heildartekjum kæranda var húsnæðisstaða hans metin til tveggja stiga hjá Reykjavíkurborg. Svo húsnæðisstaða kæranda hefði verið metin til þriggja stiga hefðu aðstæður hans þurft að vera með þeim hætti að vart væri mögulegt að bíða eftir húsnæði, sbr. a-liður 5. gr. matsviðmiðs. Í framkvæmd Reykjavíkurborgar hafa þau viðmið mótast að til slíkra aðstæðna teljist meðal annars húsnæðisleysi, dvalið sé á gistiheimili eða búið sé í húsnæði á vegum félagasamtaka sem þurfi að rýma strax. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við framangreint mat Reykjavíkurborgar og telur að húsnæðisstaða kæranda hafi réttilega verið metin til tveggja stiga, sbr. a-lið 5. gr. matsviðmiðs, enda hefur ekkert komið fram um að aðstæður kæranda séu slíkar að vart sé mögulegt að bíða eftir húsnæði.

 

Sonur kæranda er með lifrarbólgu B en samkvæmt gögnum málsins veit kærandi ekki hvort sjúkdómurinn komi til með að hafa einhver áhrif á drenginn. Ekkert hefur komið fram um að sjúkdómurinn hafi slík áhrif á barn kæranda að telja verði að hann eigi við heilsufarserfiðleika að stríða, sbr. b-lið 5. gr. matsviðmiðs. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að sérstækar aðstæður barna hafi réttilega verið metnar til núll stiga. Kærandi var talinn eiga við mjög mikinn félagslegan vanda og var því metinn til fjögurra stiga, sbr. c-lið 5. gr. matsviðmiðs. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við það mat Reykjavíkurborgar. Þá liggur ekkert fyrir um að kærandi taki þátt í markvissri endurhæfingu, svo sem vegna vímuefna, geðsjúkdóma, fjármála, atvinnu o.fl. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að aðstæður kæranda vegna félagslegrar endurhæfingar hafi réttilega verið metnar til núll stiga.

 

Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefndin að aðstæður kæranda hafi réttilega verið metnar. Kærandi fullnægir því ekki skilyrði b-liðar 7. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík um að aðstæður einstaklings með eitt barn skuli vera metnar til 11 stiga eða meira svo heimilt sé að bjóða viðkomandi sérstakar húsaleigubætur. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags.  17. apríl 2013, um synjun á umsókn A, um sérstakar húsaleigubætur er staðfest.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta