Hoppa yfir valmynd
11. desember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 55/2013.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

Miðvikudaginn 11. desember 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 55/2013:


Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

 Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með ódagsettri kæru, mótt. 30. október 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 17. apríl 2013, á beiðni hennar um fjárhagsaðstoð að fjárhæð 87.000 kr. vegna fermingar.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð vegna fermingar sonar hennar. Umsóknin var afgreidd sem umsókn um sérstaka aðstoð vegna stuðningsvinnu vegna barna að fjárhæð 87.000 kr. með umsókn, dags. 5. mars 2013. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 25. mars 2013, með þeim rökum að umsóknin samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar en þjónustumiðstöðvar hafi ekki heimild til að samþykkja að greiða fermingarstyrki. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs með bréfi, dags. 26. mars 2012. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 17. apríl 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um styrk að upphæð kr. 87.000.- þar sem eigi verður talið að aðstæður umsækjanda falli að skilyrðum þeim sem sett eru í b-lið 27. gr. reglna um fjárhagsasðtoð varðandi styrk vegna sérstakrar aðstoðar vegna stuðningsvinnu og/eða annarra sérstakra aðstæðna.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 17. apríl 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með ódagsettu bréfi, mótt. 30. október 2013. Með bréfi, dags. 1. nóvember 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 13. nóvember 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 19. nóvember 2013, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar og hún upplýst um að leiða mætti líkum að því að kæra hennar hafi borist að liðnum kærufresti. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi óskar eftir endurskoðunar á réttindamálum sonar hennar vegna almennrar framfærslu hans. Kærandi vísar til 2., 26. og 27. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveði á um að öll börn eigi að fá að njóta jafnræðis án tillits til aðstæðna foreldra. Kærandi kveðst vera 75% öryrki og glími við alvarlegan sjúkdóm. Faðir sonar hennar hafi látist árið 2009. Hún og sonur hennar hafi hvorki fjárhagslegt né félagslegt stuðningsnet og þurfi að lifa af 240.000 kr. á mánuði. Af því fari 90.000 kr. í húsnæði og rekstur heimilisins því ekki auðveldur. Þegar báðir foreldrar barns eru á lífi og heilbrigð sé það þeirra skylda að framfleyta barninu til 18 ára aldurs. Það sé því ljóst að sonur kæranda njóti ekki jafnræðis á við önnur börn. Væri faðir sonar hennar á lífi hefði sýslumaður getað úrskurðað hann til að greiða 87.000 kr. vegna fermingar ásamt helmings vegna tannréttinga drengsins sem nálgist 1.000.000 kr., stoðtækja fyrir fætur ásamt kostnaði við íþróttir. Kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð fyrir hlut föður hans, þ.e. helming af ofangreindum aukaútgjöldum en umsókn hennar hafi verið synjað. Kæranda þyki það réttlætismál að sonur hennar fái sömu aðstoð og ef faðir hans væri á lífi. Kærandi fer þess á leit að velferðarkerfið taki á sig hlut föðurins svo barn hennar njóti jafnræðis miðað við önnur börn. Sonur hennar hafi ekki valið það sjálfur að vera föðurlaus og eiga alvarlega veika móður.

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar vegna kærunnar er vísað til 1. mgr. 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 þar sem fram komi að málsaðili geti skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og skuli það gert innan þriggja mánaða frá því viðkomandi hafi borist vitneskja um ákvörðun. Þann 17. apríl 2013 hafi velferðarráð Reykjavíkurborgar afgreitt erindi kæranda og henni tilkynnt um niðurstöðu fundarins með bréfi, dags. 17. apríl 2013. Kærufrestur 1. mgr. 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sé því liðinn.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda, dags. 5. mars 2013, um fjárhagsaðstoð.

Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, skal kæra til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála lögð fram innan þriggja mánaða frá því aðila máls barst vitneskja um ákvörðun. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 17. apríl 2013, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndarinnar með ódagsettu bréfi, mótt. 30. október 2013. Liggur þannig fyrir að kæran barst úrskurðarnefndinni að liðnum hinum þriggja mánaða kærufresti.

Með 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga var lögfest sú meginregla að hafi kæra borist að liðnum kærufresti beri að vísa henni frá. Þó er að finna tvær undantekningar frá því í 1. og 2. tölul. ákvæðisins er hljóða svo:

Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

 1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

 2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Þegar kæran barst úrskurðarnefndinni voru rúmir þrír mánuðir liðnir frá lokadegi kærufrests. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi svo stutt verið liðið frá lokadegi kærufrests að réttlætanlegt sé að taka kæruna til meðferðar á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Þá er það mat nefndarinnar að Reykjavíkurborg hafi við birtingu hinnar kærðu ákvörðunar veitt réttar leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar. Við mat á því hvort skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga eru uppfyllt ber að horfa til hagsmuna aðila máls sem og almannahagsmuna, t.a.m. hvort um mál sé að ræða sem geti haft mikilvægt fordæmisgildi. Sé hin kærða ákvörðun í andstöðu við framkvæmd hins æðra stjórnvalds í samsvarandi málum getur slíkt talist veigamikil ástæða í skilningi ákvæðisins. Úrskurðarnefndin fær ekki séð að um sé að ræða mál sem haft geti mikilvægt fordæmisgildi enda hefur ekkert komið fram sem sýnir fram á það. Þá hefur ekkert komið fram um að hin kærða ákvörðun sé í andstöðu við framkvæmd Reykjavíkurborgar. Að framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki séu skilyrði til þess að taka kæruna til efnislegrar meðferðar á grundvelli 1. eða 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Kærunni verður því vísað frá.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, mótt. 30. október 2013, á ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 29. apríl 2013, um synjun á beiðni hennar um fjárhagsaðstoð að fjárhæð 87.000 kr. vegna fermingar, er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður


Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta