Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2023 Forsætisráðuneytið

Skýrsla forsætisráðherra um árangur í móttöku og aðlögun erlendra ríkisborgara

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur lagt fram á Alþingi skýrslu um árangur í móttöku og aðlögun erlendra ríkisborgara. Skýrslan er unnin að beiðni Bryndísar Haraldsdóttur og fleiri alþingismanna.

Í skýrslubeiðni þingmannanna var óskað eftir heildstæðu yfirliti um hvernig börnum gengur í námi, hvernig þeim gengur í grunnskólum og hvernig þau skila sér í framhaldsskóla og háskóla eftir uppruna. Einnig var óskað eftir yfirliti um atvinnuþátttöku erlendra ríkisborgara, hvar þeir standa í launatíund og hver efnahagsleg og samfélagsleg áhrif þeirra eru. Þá var enn fremur óskað eftir umfjöllun um hlutverk og væntan árangur af nýju starfi samhæfingarstjóra í móttöku flóttafólks í forsætisráðuneytinu.

Í skýrslunni er m.a. farið yfir þróun lýðfræðilegra þátta og fjölda innflytjenda á Íslandi undanfarin ár. Þá er dregið fram mikilvægi þess að innflytjendur nái tökum á færni í íslensku til að geta verið öflugri þátttakendur í samfélaginu. Tæplega 80% allra innflytjenda á landinu búa á höfuðborgarsvæðinu og 80% þeirra koma frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins, þar af eru Pólverjar þriðjungur allra innflytjenda. Mikil eftirspurn eftir fólki á vinnumarkaði hefur verið megindrifkraftur aðflutnings fólks hingað til lands undanfarna tvo áratugi. 

Miklu máli skiptir að innflytjendur geti á einfaldan og skilvirkan hátt aflað sér upplýsinga um réttindi sín hér á landi. Í ágúst 2023 voru starfandi innflytjendur um 52.420 eða um 23% af heildarfjölda starfandi einstaklinga á landinu. Umfang og framlag innflytjenda er því umtalsvert í atvinnulífinu og hefur fjöldi innflytjenda einnig haft töluverð áhrif á húsnæðismarkaðinn sem og samfélagið allt. 

Ég vonast til þess að skýrslan geti orðið góður grundvöllur umræðu um stöðu innflytjenda á Íslandi. Við sjáum glögglega í skýrslunni að framlag innflytjenda til samfélagsins er jákvætt í efnahagslegu samhengi og auðvitað auðga innflytjendur sömuleiðis menningu landsins, og hafa alltaf gert“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

„Það kemur hins vegar líka glögglega í ljós að við verðum að gera meira til að meta fyrri menntun innflytjenda, örva áhuga og möguleika þeirra til að taka þátt í stjórnmálum, auka aðgengi að íslenskunámi og bæta kennslu í íslensku sem öðru máli. Í skýrslunni kemur líka fram að það þarf að huga vel að börnum innflytjenda og menntun þeirra til að minnka brotthvarf innflytjenda sem og annarra barna og ungmenna. Allt þetta skiptir máli til að draga úr líkum á því til lengri og skemmri tíma að innflytjendur festist í viðjum fátæktar“, segir Katrín.

Skýrsla forsætisráðherra um árangur í móttöku og aðlögun erlendra ríkisborgara

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta