Hoppa yfir valmynd
30. september 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra tekur þátt í spennusetningu Hólasandslínu

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ásamt Sigrúnu Jakobsdóttur stjórnarformanni og Guðmundi Inga Ásmundssyni forstjóra Landsnets. - myndLjósmynd/ Landsnet

Hólasandslína 3 er mikilvægt mannvirki í flutningsnetinu sem mun auka raforkuöryggi, sagði Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í ávarpi sínu er hann tók þátt í spennusetningu Landsnets á línunni á Akureyri í dag.

Ráðherra sagði ástæðu til að óska Landsneti, íbúum Norðausturlands og raunar þjóðinni allri til hamingju með nýju línuna. Um sé að ræða framkvæmd sem beri aukna flutningsgetu og þar með talið bætt raforkuöryggi. „Línan tryggir stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi og er mikilvægur hlekkur í styrkingu tengsla milli landshluta,“ sagði Guðlaugur Þór. Þá styðji nýja línan við metnaðarfull markmið stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.

Hluti af nýrri kynslóð byggðalínunnar

Hólasandslína 3 er er hluti af nýrri kynslóð byggðalínunnar. Hún liggur um fjögur sveitarfélög, Akureyrarkaupstað, Eyjafjarðarsveit, Þingeyrarsveit og Skútustaðahrepp. Línuleiðin fylgir núverandi byggðalínu að mestu og liggja um 10 km línunnar um jarðstreng og 62 km loftlínu, en að auki voru byggð ný stafræn 220 kV tengivirki á Hólasandi og á Rangárvöllum við Akureyri. Línunni er ætlað að bæta orkunýtingu, auka flutningsgetu og tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi. Framkvæmdin er einnig mikilvæg fyrir flutningskerfi landsins í heild þar sem um er að ræða mikilvægan hlekk í styrkingu tengsla milli sterkari hluta kerfisins á suðvesturhorninu og veikari hluta þess á Austurlandi. 

Bætt orkunýting felst í að mæta sveiflum með sveigjanleika

„Við þurfum að leggja okkur fram um að nýta dýrmæta orku sem best. Bætt orkunýting felst í því að mæta sveiflum með sveigjanleika og sterkum tengingum um landið allt og á milli landshluta,“ sagði Guðlaugur Þór. Betri tengingar lykilsvæða varði einnig getu flutningskerfisins til að sinna hlutverki sínu ef til stórfelldra náttúruhamfara kemur. Flutningskerfið verði að ráða að fullu við hlutverk sitt við núverandi aðstæður, ásamt því að verða í stakk búið til að mæta viðbót vegna orkuskipta.

„Á meðan að nágrannaþjóðir okkar standa frammi fyrir einni alvarlegustu orkukrísu í áraraðir getur Ísland þakkað sínum innlendu orkugjöfum, raforkunni og varmanum og kerfunum sem veita þeim til heimila og fyrirtækja í landinu. Að búa við slíkt orkusjálfstæði er þjóðaröryggismál sem erfitt að meta til fjár og mögulega ómetanlegt,“ sagði Guðlaugur Þór.

Ísland standi þó frammi fyrir áskorunum með þeim markmiðum sem landið hafi sett sér  „Við erum að vinna að orkuskiptum en ekki gleyma því að með því okkar innlendu orkugjöfum, verðum við óháð jarðefnaeldsneyti en einnig á sama tíma alfarið óháð öðrum.“


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta