Fundur norrænu heilbrigðis- og félagsmálaráðherranna á Egilsstöðum
Fréttatilkynning nr. 22/2004
Árlegur fundur heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Norðurlandanna er haldinn dagana 18. til 19. ágúst á Egilsstöðum. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, stjórnar fundi ráðherranna fyrir hönd Íslands.
Þrennt ber hæst á ráðherrafundinum á Egilsstöðum. Í fyrsta lagi umræðan um áfengismál á Norðurlöndunum með tilliti til lýðheilsu, í öðru lagi upplýsingatækni innan heilbrigðis- og félagsþjónustunnar á Norðurlöndunum og í þriðja lagi tillaga frá Norrænu nefndinni um málefni fatlaðrar um hönnun fyrir alla (Design för alla). Tillagan miðar að bæta aðstöðu fatlaðra á Norðurlöndum.
Yfirskrift megin þema ráðherrafundarins er: Samfélagsbreytingar á Austurlandi – heilbrigðis- og félagslegar afleiðingar. Frummælendur eru fræðimennirnir Grétar Þór Eyþórsson og Kjartan Ólafsson við Háskólann á Akureyri. Markmiðið er að velta fyrir sér hvaða áhrif framkvæmdir eins og þær sem ráðist var í á Austurlandi hafa á þróun byggðarlagsins til framtíðar.
Áfengismál á Norðurlöndum
Á fundnum verður rædd skýrsla um stöðu áfengismála á Norðurlöndum með tilliti til lýðheilsu, stefnu í félagsmálum og markaðssjónarmiða. Ástæðan er sú að heilbrigðis- og félagmálaráðherrarnir hafa vaxandi áhyggur af aukinni áfengisneyslu á Norðurlöndum og þá sérstaklega þeim vanda sem henni fylgja fyrir heilbrigðis- og félagsmálakerfi landanna. Innan Evrópusambandsins, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og Alþjóðaviðskipta-málastofnunarinnar (WTO) og víðar takast á heilbrigðissjónarmið og viðskiptasjónarmið. Heilbrigðis- og félagsmálaráðherrarnir vilja í ljósi vaxandi vandamál vegna áfengisneyslu tryggja að heilbrigðissjónarmiðin nái fram að ganga sem víðast. Þess má geta að sl. vor samþykkt alþjóðaheilbrigðisþingið, sem haldið er árlega í Genf, tillögu Íslands um eflingu lýðheilsu, en þar er sérstaklega vakin athygli á nauðsyn aðgerða til þessa að draga úr áfengisvandamálum í heiminum.
Upplýsingatækni innan heilbrigðis- og félagsþjónustunnar
Fyrir ráðherrafundinum liggur skýrsla um stöðu upplýsingatækninnar innan heilbrigðiskerfiskerfisins og félagsþjónustunnar í löndunum. Þar er lögð áhersla á að löndin auki samvinnu sína varðandi uppbyggingu og rekstur heilbrigðisneta og rafrænna samskipta innan landanna. Áhersla er lögð á að rafræn þjónusta sé mikilvæg til að tryggja gæði þjónustunnar og að hún stuðli jafnframt að hagkvæmi í rekstri heilbrigðis- og félagsmálakerfa landanna.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
18. júní 2004