Hlutverk Ríkisútvarpsins og tillögur að breytingum
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur falið þremur fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna að rýna lög um Ríkisútvarpið ohf. og gera tillögur að breytingum sem líklegar eru til að sætta ólík sjónarmið um starfsemi og hlutverk Ríkisútvarpsins. Mál þessi hafa verið mikið til umfjöllunar í samfélaginu og á Alþingi, meðal annars í tengslum við frumvarp ráðherra um stuðning við einkarekna fjölmiðla og þau sjónarmið að umsvif Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði valdi samkeppnisskekkju sem eigi sinn þátt í bágri rekstrarstöðu einkarekinna miðla hér á landi.
Fulltrúarnir munu einnig skoða m.a. eftirfarandi:
- Rýna núverandi skilgreiningu á hlutverki RÚV og meta hvort þörf sé á endurskilgreiningu í ljósi breyttra samfélagsaðstæðna, tækniþróunar og vilja stjórnvalda til að varðveita og þróa íslenskt mál.
- Leggja mat á hvernig Ríkisútvarpið geti sem best náð markmiði laga um stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi.
- Meta hvernig Ríkisútvarpið sinni best öryggishlutverki sínu, með upplýsingamiðlun um útvarp, öðrum boðleiðum og/eða samstarfi við aðra fjölmiðla.
- Rýna gildandi kröfur og reglur um dreifikerfi Ríkisútvarpsins og hvort þörf sé á frekari uppbyggingu kerfisins eða grundvallarbreytingum á skipulagi dreifikerfismála.
- Meta hvernig fjármögnun RÚV sé best komið, hvort núverandi fyrirkomulagi skuli haldið óbreyttu til framtíðar eða hvort breytinga sé þörf.
Fulltrúar flokkanna eru:
Kolbeinn Óttarsson Proppé, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs - formaður hópsins
Silja Dögg Gunnarsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins
Páll Magnússon, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Þau mun nýta þær athuganir og skýrslur sem gerðar hafa verið á síðustu árum um stöðu RÚV og fjölmiðla og kanna hvaða sambærileg vinna hefur farið fram vegna annarra almannaþjónustumiðla í Evrópu.
Ráðgert er að þau ljúki störfum eigi síðar en 31. mars 2021.