1178/2024. Úrskurður frá 29. febrúar 2024
Hinn 29. febrúar 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1178/2024 í máli ÚNU 24010006.
Kæra, málsatvik og málsmeðferð
Hinn 11. janúar 2024 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá A. Í kærunni er rakið að vegna þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum árið 2023 hafi íþróttafélagið ÍBV auglýst eftir verktökum til vinnu á þjóðhátíðinni. Að henni lokinni hafi kærandi óskað eftir upplýsingum hjá Sýslumanninum í Vestmannaeyjum hversu margar skráningar hefðu borist vegna verktakavinnunnar. Erindi hans hafi verið áframsent til ÍBV. Í framhaldi af því hafi kærandi sent dómsmálaráðuneyti erindi og spurt hvort þetta væru eðlileg vinnubrögð og hvort ÍBV væri fjárgæslumaður hins opinbera sem sæi um að innheimta opinber gjöld. Ráðuneytið hafi ekki svarað erindi hans.
Kæru fylgdi ekki afrit af erindi til dómsmálaráðuneytis og fór úrskurðarnefndin því þess á leit við kæranda að hann léti það nefndinni í té. Kærandi brást ekki við þeirri beiðni kæranda. Úrskurðarnefndin kynnti þá kæruna fyrir ráðuneytinu, dags. 29. janúar 2024. Í erindi nefndarinnar var óskað eftir upplýsingum um hvort erindið hefði borist ráðuneytinu og ef svo væri, hvort það hefði verið afgreitt.
Svar ráðuneytisins barst nefndinni hinn 13. febrúar 2024. Svarinu fylgdu afrit af erindum kæranda til ráðuneytisins vegna málsins, dags. 25. október og 5. desember 2023. Í fyrra erindi kæranda spyr hann ráðuneytið hvort það sé hlutverk ÍBV að skrá verktakafyrirtæki og jafnvel innheimta opinber gjöld af vinnu þeirra. Í síðara erindi kæranda óskar hann eftir úrskurði ráðuneytisins um það hvort ÍBV sé gæsluaðili fjár ríkisins í Vestmannaeyjum, innheimti gjöld og borgi reikninga. Þá óskar hann úrskurðar um hvort framganga Sýslumannsins í Vestmannaeyjum sé boðleg. Í svari ráðuneytisins til úrskurðarnefndarinnar kom fram að erindum kæranda hefði verið svarað hinn 12. janúar 2024, þ.e. daginn eftir að kæra í máli þessu barst nefndinni.
Niðurstaða
Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, veita lögin rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum. Af þessari meginreglu leiðir að þegar aðilum sem falla undir upplýsingalög berst beiðni um upplýsingar þá ber þeim á grundvelli laganna skylda til að kanna hvort fyrir liggi í vörslum þeirra gögn með þeim upplýsingum sem óskað er eftir, sbr. 15. gr. laganna, og í kjölfarið taka rökstudda ákvörðun um hvort veita beri kæranda aðgang að gögnunum á grundvelli laganna í heild eða að hluta.
Af upplýsingalögum verður ekki leidd sambærileg skylda aðila sem heyra undir gildissvið laganna til að svara almennum fyrirspurnum sem hafa ekki tengsl við gögn í vörslum þeirra. Ekki er útilokað að þeim aðilum kunni að vera skylt að bregðast við slíkum fyrirspurnum þótt ekki liggi fyrir gögn með upplýsingunum sem óskað er eftir, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og óskráða leiðbeiningarreglu þess efnis að stjórnvöldum sé skylt að veita þeim sem til þeirra leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þeirra. Hins vegar er það almennt ekki í verkahring úrskurðarnefndar um upplýsingamál að taka afstöðu til slíkra erinda miðað við hvernig hlutverk nefndarinnar er afmarkað í 20. gr. upplýsingalaga.
Úrskurðarnefndin telur að erindi kæranda til dómsmálaráðuneytis lúti ekki að fyrirliggjandi gögnum í vörslum ráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt framangreindu telur úrskurðarnefndin að ekki sé unnt að líta svo á að beiðni kæranda varði gögn í skilningi 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Því verður kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Úrskurðarorð
Kæru A, dags. 11. janúar 2024, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir