Hoppa yfir valmynd
15. júní 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Ísland tekur sæti sem varafulltrúi í stjórnarnefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar

Íslensk stjórnvöld fengu í dag kosningu sem varafulltrúi í stjórnarnefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) til næstu þriggja ára, eða fyrir kjörtímabilið 2021-2024. Þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar íslenskra stjórnvalda taka sæti varafulltrúa í stjórnarnefnd ILO en Ísland hlaut ríflega 88% atkvæða í kosningunni.

Stjórnarnefnd ILO er framkvæmdastjórn stofnunarinnar og leggur hún drög að stefnu ILO og samþykkir tillögu að framkvæmda- og fjárhagsáætlun sem Alþjóðavinnumálaþingið tekur til umfjöllunar og afgreiðslu. Auk þess kýs stjórnarnefndin alþjóðavinnumálaskrifstofunni forstjóra til fimm ára í senn.

Samstarf fulltrúa ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks skapar  Alþjóðavinnumálastofnuninni sérstöðu meðal annarra alþjóðastofnana en samtals eiga 56 fulltrúar sæti í stjórnarnefndinni, þar af 28 ríkisstjórnarfulltrúar, 14 fulltrúar launafólks og 14 fulltúrar atvinnurekenda. Auk þess eiga 66 varafulltrúar sæti í stjórnarnefndinni, 28 ríkisstjórnarfulltrúar, 19 fulltrúar launafólks og 19 fulltrúar atvinnurekenda. 

Ísland tekur sæti varafulltrúa í stjórnarnefndinni 25. júní næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta