Hoppa yfir valmynd
12. ágúst 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mannréttindanefnd SÞ vísar frá kæru Björns Kristjánssonar gegn íslenska ríkinu

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna (Human Rights Committee) hefur vísað frá kæru Björns Kristjánssonar gegn íslenska ríkinu. Nefndin starfar samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966 sem Ísland er aðili að.

Fréttatilkynning
Nr. 19/ 2003

Mannréttindanefnd SÞ vísar frá kæru Björns Kristjánssonar gegn íslenska ríkinu


Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna (Human Rights Committee) hefur vísað frá kæru Björns Kristjánssonar gegn íslenska ríkinu. Nefndin starfar samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966 sem Ísland er aðili að. Samkvæmt sérstakri bókun við samninginn sem Ísland hefur fullgilt getur Mannréttindanefndin tekið til meðferðar og rannsakað kærur frá einstaklingum um að aðildarríki hafi brotið gegn réttindum þeirra sem vernduð eru af samningnum.

Með dómi Hæstaréttar frá 6. apríl 2000 var Björn Kristjánsson, skipstjóri á togaranum Vatneyri, dæmdur til refsingar fyrir brot á ákvæðum laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 er hann hélt til til veiða án tilskilinna aflaheimilda. Í sama máli voru einnig dæmdir til refsingar útgerðarfyrirtæki togarans, Hyrnó ehf. og framkvæmdastjóri Hyrnó. Björn kærði þessa niðurstöðu til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Laut kæran að því að sakfellingin bryti gegn rétti hans samkvæmt 26. gr. samningsins sem kveður á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á sömu lagavernd án nokkurrar mismununar. Kærandi hélt því fram að sú skipan sem leiddi af reglum íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins um úthlutun aflaheimilda þar sem einvörðungu litlum hluta landsmanna væri veittur aðgangur að fiskimiðum þjóðarinnar fæli í sér mismunun sem væri andstæð jafnræðisreglu 26. gr. samningsins. Hefði sakfelling hans fyrir að neita að virða þessar reglur því falið í sér brot á réttindum hans samkvæmt. fyrrgreindu ákvæði.

Í ákvörðun sinni frá 16. júlí 2003 tekur Mannréttindanefndin fram að kærandi hafi starfað sem skipstjóri á skipi sem hélt til veiða þegar aflaheimildir þess voru uppurnar. Hann hefði hvorki átt togarann né heldur hefði hann nokkurn tíma sótt um veiðileyfi samkvæmt ákvæðum laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990, sem sé forsenda fyrir úthlutun aflaheimilda. Kærandi hefði haldið til veiða með þann ásetning að fremja refsivert brot á ákvæðum fiskveiðistjórnunarlaganna. Við þessar aðstæður telur nefndin ekki sýnt fram á að sakfellingin hafi falið í sér mismunun. Þar sem kærandi hefði ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir skerðingu réttinda sem samningurinn verndar hafi ekki verið uppfyllt skilyrði þess að kæran væri tæk til efnislegrar meðferðar hjá nefndinni, samkvæmt 1. gr. bókunar við samninginn. Var kærunni því vísað frá nefndinni.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
12. ágúst 2003.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta