Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2014 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Úttekt á vísinda- og nýsköpunarkerfinu á Íslandi

Drög að skýrslu um nýja úttekt kynnt á fundi Vísinda- og tækniráðs í dag

Á fundi Vísinda- og tækniráðs í dag, 28. ágúst 2014, kynntu Arnold Verbeek, ráðgjafi frá IDEA consult í Belgíu og Francien Heijs fulltrúi í fastanefnd Hollands hjá ESB drög að skýrslu um úttekt á vísinda- og nýsköpunarkerfinu á Íslandi. Skýrsluhöfundar benda á að úttektin nái til fyrri hluta árs og að í lokaútgáfu hennar, sem birt verður í október, verður tekið mið af stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2014-2016, sem gefin var út í maí sl.

Meginskilaboð skýrslunnar eru þau að það sé brýn þörf fyrir umbætur á kerfinu hér á landi enda sé það mikilvægur grunnur hagvexti og velferð í landinu til framtíðar. Að mati Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra er skýrslan gott innlegg í umræður um enn frekari úrbætur á vísinda- og nýsköpunarkerfinu en á hinn bóginn þá taki hún ekki til þeirra aðgerða, sem kynntar eru í framangreindri stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs.

Úttektin á íslenska vísinda- og nýsköpunarkerfinu er á vegum ráðgjafanefndar Evrópusambandsins um rannsóknir og nýsköpun (European Research Area and Innovation Committee (ERAC). Um er að ræða svokallað jafningjamat (peer-review) þar sem lögð er áhersla á að virkja hagsmunaaðila, bæði til að auka gæði matsins og einnig til að nýta megi ferlið til að skapa vettvang til umræðna um kerfið. Líta má svo á að ávinningurinn af matinu skapist ekki síður í umræðunum, sem eiga sér stað meðan á því stendur, en í skýrslunni sjálfri.

Úttektarferlið hófst með því að mennta- og menningarmálaráðuneytið hélt röð funda með hagsmunaaðilum og lauk fundaröðinni með opnum fundi í byrjun yfirstandandi árs. Umræður og niðurstöður þessara fundu mynduðu grunn að sjálfsmatsskýrslu, sem lögð var fram í mars sl. Í byrjun apríl komu hingað þrír „jafningjar“ (e. peers), ásamt sjálfstæðum ráðgjafa og fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB til að kynna sér kerfið. Ræddi hópurinn við fjölda fólks úr fyrirtækjum, rannsóknarstofnun og háskólum um stöðu rannsókna og nýsköpunar. Drög að lokaskýrslu ráðgjafanna barst mennta- og menningarmálaráðuneytinu fyrir skömmu og í henni er mat þeirra á kerfinu og ásamt 42 tillögum um endurbætur. Skýrsludrögin verða einnig kynnt og rædd á Rannsóknarþingi, sem verður haldið á morgun, föstudaginn 29. ágúst kl. 8:30-11:00 á Hótel Hilton Reykjavík Nordica.

Uppfært 3. nóvember 2014: Lokaskýrsla: Peer review - Icelandic Research and Innovation System


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta