COVID-19: Einangrun stytt í 7 daga - reglur um styttri tíma
Í samráði við sóttvarnalækni hefur heilbrigðisráðherra gert breytingu á reglugerð um sóttkví og einangrun og sóttvarnaráðstafanir á landamærum Íslands vegna COVID-19, nr. 1240/2021. Með reglugerðarbreytingunni er einangrun einstaklinga sem hafa greinst með COVID-19 þannig stytt í 7 daga. Telji læknar COVID-19 göngudeildar Landspítala hins vegar nauðsynlegt að framlengja einangrun einstaklings er þeim það heimilt.
„Við sjáum gríðarlegt álag á heilbrigðisstofnunum vegna mikilla smita í samfélaginu, sérstaklega er álagið mikið á Covid-göngudeild Landspítalans. Við sjáum líka víðtæk áhrif smita á samfélagið allt og því tel ég þetta vera rétt skref. Ég hvet fólk til þess að halda áfram að fara varlega, og sýna starfsfólki Covid-göngudeildar áfram þolinmæði og virðingu. Við erum öll í þessu saman.“ Segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Reglugerðarbreytingin tekur nú þegar gildi og getur bæði haft áhrif á lengd einangrunar hjá einstaklingum sem greindust með COVID-19 fyrir gildistöku, sem og eftir gildistöku. Reglugerðin mun birtast síðar í dag á vef Stjórnartíðinda.
Minnisblað sóttvarnalæknis varðandi ný tilmæli um einangrun og sóttkví vegna COVID-19