Hoppa yfir valmynd
31. október 2011 Forsætisráðuneytið

A-382/2011. Úrskurður frá 11. október 2011

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 11. október 2011 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-382/2011.

Kæruefni

Með bréfi, dags. 28. júní 2011, kærði [...] hdl. afgreiðslu Ríkislögmanns frá 10. og 30. september 2010 á beiðni hans um gögn í tengslum við lokun Fjármálaeftirlitsins fyrir viðskipti í Glitni banka hf. 6. október 2008.
 
Málsatvik og málsmeðferð

Eins og fram hefur komið barst kæra máls þessa úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi, dags. 28. júní sl. Í bréfinu er málsatvikum lýst með ítarlegum hætti. Fram kemur að til kæranda hafi leitað sjötíu einstaklingar og fyrirtæki sem festu kaup á hlutabréfum í Glitni banka hf., kt. 550500-3530, samtals fyrir kr. 107.953.467 á tímabilinu 30. september til 6. október árið 2008, en þann dag lokaði Fjármálaeftirlitið fyrir viðskipti með bréf í bankanum, öðru sinni. Kæranda var falið að gæta hagsmuna þeirra.

Kærandi sendi fjármálaráðherra bréf, dags. 20. janúar 2010, þar sem hann var beðinn um að taka afstöðu til skaðabótaskyldu íslenska ríkisins vegna aðgerða Fjármálaeftirlitsins. Ríkislögmanni var falið að svara bréfi kæranda og var það niðurstaða hans, dags. 10. september 2010, að ríkið bæri ekki skaðabótaábyrgð gagnvart umbjóðendum kæranda. Áður hafði bréf kæranda verið sent efnahags- og viðskiptaráðuneytinu þar sem starfshópur í ráðuneytinu hafði það hlutverk að halda utan um kröfur og hugsanlegar málsóknir á hendur ríkinu vegna framangreinds.

Í kjölfar höfnunar ríkislögmanns á skaðabótaskyldu sendi kærandi ríkislögmanni tölvubréf, dags. 29. september 2010, þar sem hann óskaði eftir þeim gögnum sem lágu til grundvallar niðurstöðu ríkislögmanns og eftir skýrslu starfshóps efnahags- og viðskiptaráðuneytisins. Ríkislögmaður svaraði kæranda 30. s.m. og kemur eftirfarandi fram í svarinu:

„Mig minnir að ég hafi sagt þér áður að ég mundi ekki láta frá mér frekari gögn en bréfið sem ég sendi þér þann 10. september sl. Sú ákvörðun stendur enn. Þessu til viðbótar get ég þó sagt þér að starfshópurinn sem þú nefnir í póstinum sendi mér hvorki gögn né skýrslu/umsögn. Frá öðrum aðila fékk ég þó lýsingu á atburðarrás síðustu dagana fyrir hrunið ásamt ýmsum öðrum gögnum sem ég taldi ekki skipta máli vegna afstöðunnar til bótaskyldu. Afstaðan til bótaskyldu er alfarið mín afstaða sett fram fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Hún er byggð á atburðarrásinni, eins og ég taldi hana réttasta, og íslenskum skaðabótarétti eins og ég túlka hann“

Þann sama dag ítrekaði kærandi beiðni sína um afhendingu gagna með vísan til 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og óskaði einnig eftir því að hinn ónafngreindi aðili yrði nafngreindur. Kæranda bárust ekki svör við þeirri beiðni.
Kærandi vísar til þess að reglur stjórnsýsluréttar hafi verið brotnar við meðferð málsins og vísar í því sambandi sérstaklega til 9., 11., og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá vísar kærandi til þess að afsakanlegt sé að kæra komi fram að liðnum 30 daga kærufresti, sbr. 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga, þar sem ríkislögmaður leiðbeindi kæranda hvorki um kærufrest né kærurétt.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila, en úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af þeim við úrlausn málsins.

Í ljósi atvika málsins var ekki leitað afstöðu Ríkislögmanns til kærunnar.

 

Niðurstaða

Eins og að framan greinir snýr kæra málsins að synjun Ríkislögmanns á beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Sú beiðni er um ræðir sendi kærandi Ríkislögmanni þann 29. september 2010. Henni var synjað með tölvubréfi Ríkislögmanns degi síðar, 30. september.

Í 1. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 kemur fram að lögin taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og fellur Ríkislögmaður sem er sjálfstætt stjórnvald, undir gildissvið laganna.  Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur ekki til efnislegrar skoðunar hvort stjórnvald hafi við meðferð máls fylgt réttarreglum stjórnsýsluréttar umfram það sem nauðsynlegt er til að taka afstöðu til þess kærumáls sem er fyrir nefndinni hverju sinni. Í þessu sambandi er þó rétt að minna á málshraðareglu 11. gr. upplýsingalaga þar sem fram kemur að stjórnvald skuli taka ákvörðun um hvort það verður við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða má og hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skal skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. sömu laga skal mál borið skriflega undir nefndina innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnum var tilkynnt um ákvörðun.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga segir að vísa skuli kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. ákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. Um er að ræða matskennda heimild handa stjórnvöldum til að taka til greina kæru sem berst að liðnum kærufresti. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er síðar varð að stjórnsýslulögum segir:

„Æðra stjórnvaldi ber, að eigin frumkvæði, að kanna hvort kæra hafi borist innan kærufrests. Réttaráhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti eru þau að henni skal vísað frá.

Í 1. mgr. eru greindar tvær undantekningar frá þessari reglu. Í fyrsta lagi er undantekning gerð þegar afsakanlegt er að kæra hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. Sem dæmi um slík tilvik má nefna það að lægra stjórnvald hafi vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. eða veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Í öðru lagi má taka mál til meðferðar, enda þótt kæra hafi borist að liðnum kærufresti, mæli veigamiklar ástæður með því, sbr. 2. tölul.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Eins og fram hefur komið skal stjórnvald skv. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þegar það tilkynnir stjórnvaldsákvörðun með skriflegum hætti, m.a. leiðbeina aðila máls um rétt hans til að leggja fram kæru og um kærufrest. Í þessu máli var kæranda ekki leiðbeint um kærurétt og kærufrest. Ljóst er að Ríkislögmaður fullnægði ekki lögboðinni skyldu um leiðbeiningar til handa aðila máls. Kæran berst úrskurðarnefnd um upplýsingamál liðlega níu mánuðum frá afgreiðslu Ríkislögmanns. Úrskurðarnefndin lítur svo á að þrátt fyrir að kæranda hafi ekki verið leiðbeint um kærurétt og kærufrest þá geti það ekki talist afsakanlegt, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, að kæran hafi borist nefndinni átta mánuðum eftir að kærufrestur rann út. Verður kærunni því vísað frá af þeim sökum að of langt er um liðið frá því að kærufrestur rann út.

Þá telur úrskurðarnefndin ekki vera fyrir hendi veigamiklar ástæður sem mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, enda kemur niðurstaða þessi ekki í veg fyrir að kærandi geti óskað eftir þessum upplýsingum aftur við Ríkislögmann og kært þá synjun til úrskurðarnefndar um upplýsingarétt innan lögbundins 30 daga kærufrests.

 


Úrskurðarorð

Vísað er frá kæru [...] hdl. á hendur Ríkislögmanni þar sem kæran er of seint fram komin.

 

Trausti Fannar Valsson
formaður

 

                            Sigurveig Jónsdóttir                                        Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta