Hoppa yfir valmynd
30. október 2011 Forsætisráðuneytið

A-377B/2011. Úrskurður frá 14. desember 2011

ÚRSKURÐUR

Hinn 14. desember 2011 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-377B/2011.

Málsatvik

Með bréfi, dags. 11. nóvember 2011, gerði [A] athugasemdir við úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. A-377/2011 frá 16. september.

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. nóvember, var þess óskað að hann skýrði nánar hvað fælist í bréfi hans og þá hvort í því fælist beiðni um endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Svar [A] er dags. 29. nóvember. Þar kemur fram að hann sé ósammála tveimur setningum í tilvísuðum úrskurði. Fyrri setningin er eftirfarandi: „Ráðuneytið hefur hins vegar ekki synjað kæranda um aðgang að þeim upplýsingum sem stuðst hafi verið við frá alþjóðastofnunum um mat á nauðsyn þess að notast við svínaflensubóluefni.“ Vísar kærandi til þess að hann hafi ekki fengið afhent gögn ráðuneytisins um þetta atriði. Síðari setningin úr úrskurði úrskurðarnefndarinnar er eftirfarandi: „Segir í bréfi ráðuneytisins að því sé ekki kunnugt um að sú miðlun upplýsinga sem sóttvarnarlæknir hafi notast við, þ.e. að gefa upp vefslóð þar sem nálgast má umbeðnar upplýsingar, hafi valdið kæranda sérstökum vandkvæðum.“ Í þessu sambandi vísar kærandi til þess að þær upplýsingar sem vísað er til hafi verið honum gagnslausar. Úrskurðarnefndin telur rétt að túlka bréf hans á þá leið að í því felist beiðni um endurupptöku úrskurðar nr. A-377/2011.

Í úrskurði nr. A-377/2011 komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að heilbrigðisráðuneytinu bæri að afhenda [A] afrit af samningi dags. 4. maí 2007 milli GlaxoSmithKline ehf. og GlaxoSmithKline Bilogicals S.A. annars vegar og heilbrigðisráðuneytisins fyrir hönd íslenska ríkisins hins vegar, með þeim útstrikunum sem tilgreindar eru í undirkafla 4 í niðurstöðum úrskurðarðarins. Þá var kæru vegna skorts á svörum vegna beiðni kæranda um aðgang að gögnum frá alþjóðastofnunum er heilbrigðisráðuneytið hefði stuðst við er sýndu fram á nauðsyn þess að notast við svínaflensubóluefni frá GlaxoSmithKline vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. 

Niðurstaða

Í beiðni [A] um endurupptöku er vísað til þess að tvær setningar í úrskurði í máli nr. A-377/2011, frá 16. september, séu rangar.

Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram í 24. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. mgr. þess ákvæðis segir svo: 
 
„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef: 
1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“

Úrskurðarnefndin telur að ekkert sé fram komið um að úrskurður hennar frá 16. september hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða að niðurstaðan hafi byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. 

Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurði hennar frá 16. september séu verulegir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur röksemdir kæranda ekki leiða til þess að rétt sé að endurupptaka málið og vísar í því sambandi til forsenda niðurstaðna tilvísaðs úrskurðar.

Með vísan til þess sem að framan segir er hafnað beiðni um endurupptöku úrskurðarins í máli nr. A-377/2011, frá 16. september.

Úrskurðarorð

Beiðni [A] um endurupptöku úrskurðar í máli nr. A-377/2011, frá 16. september, er hafnað.

 

 

Trausti Fannar Valsson
formaður

 

Friðgeir Björnsson                                                                                         Sigurveig Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta