Hoppa yfir valmynd
21. desember 2011 Forsætisráðuneytið

A-391/2011. Úrskurður frá 14. desember 2011

ÚRSKURÐUR

Hinn 14. desember 2011 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu A-391/2011.

Kæruefni

Með bréfi, dags. 31. ágúst 2010, kærði [A] blaðamaður þá ákvörðun mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 25. ágúst, að synja honum um aðgang að „öllum upplýsingum um málefni [B] og [C], kennara við Iðnskólann í Hafnarfirði, og erfiðleikum í samskiptum milli þeirra og skólameistara Iðnskólans í Hafnarfirði. Er óskað eftir öllum gögnum ráðuneytisins vegna málsins, þar með talið upplýsingum um samskipti við kennarana tvo og við skólastjórann. Einnig fundargerðir, minnispunkta og annað sem málinu tilheyrir“, sbr. beiðni kæranda þar um frá 4. ágúst 2010.

Í synjun mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 25. ágúst 2010, kemur m.a. fram:

„Þau gögn í vörslu ráðuneytisins er beiðni yðar lýtur að hafa að geyma upplýsingar um einkamálefni og samskipti framangreindra einstaklinga. Það er mat ráðuneytisins að afhending þeirra til fréttamiðils á grundvelli upplýsingalaga og sú opinbera umfjöllun sem færi fram í kjölfarið sé til þess fallin að torvelda ásættanlega niðurstöðu í því sáttarferli sem ráðuneytið stendur fyrir í skólununum. Með vísan til 5. gr. upplýsingalaga telur ráðuneytið ekki skylt að verða við beiðni yðar.“

Málsatvik

Með tölvubréfi til kærða, dags. 28. júlí 2010, óskaði kærandi eftir afhendingu eftirfarandi upplýsinga:

„Óskað er eftir öllum gögnum er varða deilur milli kennara við Iðnskólann í Hafnarfirði og skólameistara skólans, sem staðið hafa árum saman. Deilan fór m.a. fyrir félagsdóm, þar sem úrskurðað var kennurum við skólann í hag. Óskað er eftir gögnum frá ársbyrjun 2007. Er óskað eftir því að umbeðin gögn verði ekki takmörkuð við launadeiluna eina og sér, heldur um deiluna í heild sinni í sem víðustu samhengi.

Meðal þess sem óskað er eftir er:
1. Bréf eða erindi skólameistarans til ráðuneytisins, og bréf frá ráðuneytinu til skólameistarans. Einnig fundargerðir eða minnispunktar frá fundum með skólastjóranum.
2. Bréf eða erindi eins eða fleiri kennara við skólann til ráðuneytisins, og bréf frá ráðuneytinu til eins eða fleiri kennara við skólann. Einnig fundargerðir eða minnispunktar frá fundum [með] einum eða fleiri kennurum við skólann.
3. Bréf eða erindi eins eða fleiri nemenda, eða foreldra nemenda við skólann til ráðuneytisins, og bréf frá ráðuneytinu til nemenda, eða foreldra nemenda við skólann. Einnig fundargerðir eða minnispunktar frá fundum með einum eða fleiri nemanda eða foreldrum nemenda við skólann.
4. Til viðbótar við þau bréf í lið 1 sem ráðuneytið telur varða umrætt deilumál er óskað eftir öllum öðrum bréflegum (með pappír og tölvupósti) samskiptum ráðuneytisins og skólastjórans frá upphafi árs 2007, hvaða mál sem þau kunna að varða.“

Kæranda voru í kjölfarið afhent gögn ráðuneytisins er lutu að dómi Félagsdóms nr. 4/2009 frá 12. maí 2009 en með þeim dómi var viðurkennt að félagsmenn Félags framhaldsskólakennara, sem störfuðu við Iðnskólann í Hafnarfirði á tímabilinu frá upphafi skólaárs 2004 til loka vorannar 2008, hafi uppfyllt kennsluskyldu sína samkvæmt kjarasamningi að fullu þegar þeir, samkvæmt ákvörðun vinnuveitandans, unnu tilskilinn fjölda kennslustunda með því fyrirkomulagi að slegið var saman hverju sinni tveim 40 mínútna kennslustundum í eina sem stóð í 75 mínútur án frímínútna og að óheimilt hafi verið að skerða launagreiðslur til þeirra vegna þessa fyrirkomulags í skólastarfinu.

Þá kemur fram í kæru, dags. 31. ágúst 2010, að kærandi hafi haft samband við mennta- og menningarmálaráðuneytið í kjölfar afhendingar gagnanna þar sem honum var leiðbeint um að afmarka beiðni sínar betur með því að tilgreina sérstaklega að hann færi fram á upplýsingar um samskiptaörðuleika tiltekinna aðila. Það mál sem hér er til meðferðar er kæra á synjun á þeirri beiðni og er beiðninni lýst hér að framan.

Málsmeðferð

Eins og fram hefur komið barst kæra máls þessa úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi, dags. 31. ágúst 2010.

Kæran var send mennta- og menningarmálaráðuneytinu með bréfi, dags. þann sama dag. Var mennta- og menningarmálaráðuneytinu veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna til 10. september og til að afhenda úrskurðarnefndinni þau gögn sem kæran lýtur að. Athugasemdir mennta- og menningarmálaráðuneytisins ásamt gögnum bárust úrskurðarnefndinni þann dag. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:

„Eins og fram kemur í synjun ráðuneytisins um afhendingu umræddra ganga til kæranda, dags. 25.  ágúst sl., byggist hún á því að umbeðin gögn hafa að geyma upplýsingar um einkamálefni og eindrægni í samskiptum á milli umræddra starfsmanna og skólameistara við Iðnskólann í Hafnarfirði sem takmarka upplýsingarétti á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Þá var frá því greint að ráðuneytið stæði fyrir sáttarferli milli viðkomandi aðila og að afhending gagnanna til fjölmiðils á grundvelli upplýsingalaga og sú opinbera umfjöllun sem færi í kjölfarið væri til þess fallin að torvelda ásættanlega niðurstöðu í því máli. Í umræddu lagaákvæði kemur m.a. fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Eins og sjá má af umræddum gögnum koma þar fram ummæli sem flokka má sem ærumeiðandi í garð skólameistara. Að þessu athuguðu telur ráðuneytið að efni umbeðinna ganga sýni glögglega að um viðkvæmar persónuupplýsingar sé að ræða sem sanngjarnt og eðlilegt sé að leynt fari.

Meðal gagna í málinu eru minnispunktar og fundargerðir starfsmanna ráðuneytisins ætlaðra til eigin nota. Að mati ráðuneytisins eru þau gögn undanþegin upplýsingi almennings skv. 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga, enda hafa skjölin ekki að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá.“

Með athugasemdum sínum, dags. 10. september, afhenti mennta- og menningarmálaráðuneytið úrskurðarnefndinni eftirfarandi gögn:

1. Tölvubréf, dags, 7. apríl 2010, frá [B] til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
2. Minnispunktar [D], dags. 23. apríl 2010.
3. Tölvubréf, dags. 28. apríl 2010, frá [E] til [D].
4. Tölvubréf, dags. 18. mars 2010, frá [F] til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
5. Fundargerð, dags. 1. júní 2010, frá fundi [D], [E], [B] og [C].

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. september 2010, voru kæranda kynntar athugasemdir mennta- og menningarmálaráðuneytisins og veittur frestur til að koma að frekari athugasemdum til 21. þess mánaðar. Athugasemdir kæranda bárust 17. þess mánaðar. Eftirfarandi kemur m.a. fram í athugasemdum kæranda:

„Eins og fram kom í umræddri kæru telur undirritaður rök ráðuneytisins þess efnis að um einkamálefni sé að ræða fráleit. Ber að líta til þess að þarna er um að ræða bréfleg samskipti starfsmanna við skóla sem rekinn er af ríkinu við ráðuneyti menntamála. Verður ekki séð að málefni ríkisstofnunarinnar Iðnskólans í Hafnarfirði og samstarfsörðugleikar innan þeirrar stofnunnar, sem er það sem samskiptin snérust um, falli undir persónuleg málefni starfsmannanna, jafnvel þó þau fjalli um nafngreindar persónur.
 
Þá má benda á að í 5. gr. upplýsingalaga kemur fram að falla megi frá leynd samþykki sá sem í hlut á afhendingu gagnanna. Mér er ekki kunnugt um að ráðuneytið hafi haft samband við umrædda kennara til að fá þeirra afstöðu til málsins. Eftir að hafa rætt við báða kennarana get ég fullyrt að þær muni ekki hafa neitt á móti því að umræddar upplýsingar verði afhentar.
 
Einnig má benda á ákvæði 7. gr. upplýsingalaga vegna þeirra raka ráðuneytisins að ærumeiðandi ummæli komi fram í gögnunum. Verði það niðurstaða nefndarinnar að umrædd gögn teljist gögn um „einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari“, vegna þeirra ummæla, er farið fram á að aðgangur að gögnunum verði veittur, en þau ummæli sem teljist ærumeiðandi verði máð út. Þá má benda á að aðeins er talað um ærumeiðandi ummæli í garð skólameistara. Verður ekki séð að það geti verið rök fyrir því að afhenda ekki til dæmis tölvubréf skólameistarans frá 18. mars 2010.
 
Í umsögn ráðuneytisins er vísað til þess að afhending umræddra gagna geti „torveldað ásættanlega niðurstöðu“ í sáttaferli sem ráðuneytið standi nú fyrir. Ráðuneytið telur engu að síður ónauðsynlegt að skýra frekar hvað felist í því sáttaferli, og hvernig afhending gagnanna muni torvelda ásættanlega niðurstöðu. Í samtali undirritaðs við [D], ráðuneytisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytisins, kom fram að deilendur hafi hitt vinnustaðasálfræðing, en frekari fundir með honum munu ekki fyrirhugaðir. Það eina sem ráðuneytisstjórinn gat nefnt sem hluta af sáttaferli sem væri í gangi var að mögulegt er að gerð verði könnun á starfsánægju kennara við skólans. Getur undirritaður ekki fallist á að afhending umræddra gagna hafi nokkur áhrif á meint sáttaferli, sem virðist að mestu felast í því að beðið sé eftir því að skólameistarinn láti af störfum um næstkomandi áramót. Fallist úrskurðarnefndin á þau rök ráðuneytisins að ekki sé rétt að afhenda gögnin vegna þessa sáttaferlis er því óskað eftir því að nefndin kalli eftir frekari rökstuðningi á því hvernig þetta ferli standi, og hvernig afhending gagnanna geti skaðað það ferli.
 
Undirritaður gerir einnig athugasemdir við þann gagnalista sem lagður er fram af ráðuneytinu. Hefði til dæmis mátt búast við að sjá á lista yfir gögn málsins bréf [B] til menntamálaráðherra, dagsett 30. júní 2009 (þar sem þess var krafist að stjórnsýsluúttekt yrði gerð á skólanum), og fundargerð af fundi [B] með ráðherra, ráðuneytisstjóra og fleirum þann sama dag. Listinn yfir gögn málsins, sem send voru úrskurðarnefndinni, virðist þannig afar þröngt skilgreindur, og alls ekki í samræmi við það sem óskað var eftir í upphaflegri ósk um afhendingu gagna (dags. 28. júlí 2010) og endurskoðaðri ósk (dags. 4. ágúst 2010).
 
Þannig var umrætt bréf [B] ekki hluti af þeim gögnum sem ráðuneytið sendi í upphafi, þegar óskað var eftir gögnum um deilu vegna máls sem fór fyrir félagsdóm. Undirritaður spurði sérstaklega um þetta bréf í samtali við starfsmann ráðuneytisins, sem ráðlagði undirrituðum að senda aðra beiðni með nafni kennaranna tveggja. Þrátt fyrir að það hafi verið gert var þetta bréf ekki meðal gagna málsins sem send voru nefndinni. Það vekur efasemdir um að ráðuneytið hafi sent öll gögn sem sannarlega tengjast deilunni.“

Í ljósi athugasemda kæranda fór úrskurðarnefnd um upplýsingamál fram á það við mennta- og menningarmálaráðuneytið með tölvubréfi, dags. 14. apríl, að það tæki afstöðu til þess hvort það hefði afhent öll gögn málsins eins og kærandi vísaði til. Með bréfi, dags. 11. maí, afhenti mennta- og menningarmálaráðuneytið úrskurðarnefndinni að því er virðist öll gögn sex mála sem skráð eru í málaskrárkerfi ráðuneytisins. Umrædd mál hafa málsnúmerin MMR10120301, MMR10120317, MMR10040197, MMR09120294, MMR09120117 og MMR10080357.  Samtals er um að ræða 66 færslur í nefndum málum, nánar tiltekið 66 skjöl sem mörgum hverjum fylgja einnig fylgiskjöl sem vistuð eru með viðkomandi færslum. Þá fylgdu einnig forsíður viðkomandi mála úr málaskrá en á þær eru færðar ákveðnar grunnupplýsingar um málin og meðferð þeirra.

Af framangreindu má sjá að mennta- og menningarmálaráðuneytið afhenti úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 11. maí 2011, mikinn fjölda gagna. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ekki tekið beina afstöðu til afhendingar þessara gagna til kæranda eða leitast við að skýra nánar bein tengsl þeirra við beiðni kæranda um aðgang að gögnum en ætla verður að ráðuneytið telji sömu sjónarmið um synjun afhendingar þeirra eiga við og fram koma í fyrra bréfi ráðuneytisins, dags. 10. september 2010.

Niðurstöður

1.
Eins og fram hefur komið fer kærandi fram á aðgang að gögnum er lúta að meintum samskiptaörðugleikum innan Iðnskólans í Hafnarfirði. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur afhent úrskurðarnefndinni gögn vegna málsins með tveimur bréfum dags. 10. september 2010 og dags. 11. maí 2011.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Kæruheimildin er bundin því skilyrði að ágreiningur sé uppi um annað tveggja; skyldu stjórnvalds til að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits af öðrum gögnum.

Hluti þeirra gagna sem afhent voru með síðara bréfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins urðu til eftir að kæranda var synjað um afhendingu gagna, sbr. bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins dags. 25. ágúst 2010. Eðli máls samkvæmt lúta þau gögn ekki að kæru þessari og er því ekki tekið til skoðunar hvort kærandi eigi rétt á aðgangi að þeim. Til skýringar skal tekið fram að hér er um að ræða eftirtalin gögn:

Gögn með málsnúmeri MMR10120301 skráð 15. desember 2010.
Heiti máls: Kvörtun vegna brottvikningar úr starfi við Iðnskólann í Hafnarfirði – [B]:
1. Forsíða máls með tilmælum.
2. Tölvubréf, dags. 5. apríl 2011, frá [B] til mennta- og menningarmálaráðuneytisins ásamt fylgiskjali. Sem fylgiskjal er bréf, dags. 5. apríl 2011, frá [B] til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
3. Bréf, dags. 17. janúar 2011, frá mennta- og menningarmálaráðuneyti til [B],
4. Tölvubréfssamskipti milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins og [B]. Þrjú tölvubréf, dags. 4. janúar 2011, 5. janúar 2011 og 5. janúar 2011. Sem fylgiskjal er bréf, dags. 4. janúar 2011 frá [B] til [G].
5. Tölvubréf, dags. 28. desember 2010, frá [H] til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Sem fylgiskjal er bréf, dags. 21. desember 2010 frá [F] til [B].
6. Tölvubréf, dags. 23. desember 2010, frá [B] til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Sem fylgiskjal er bréf, dags. 21. desember 2010, frá [F] til [B].

Gögn með málsnúmeri MMR10120317 skráð 27. desember 2010. Heiti máls: Ályktun deildarstjóra og kennara við Iðnskólann í Hafnarfirði v. niðurlagningar útstillingarbrautar skólans – [I] o.fl.:
1. Forsíða máls með athugasemdum og tilmælum.
2. Bréf, dags. 12. janúar 2011, frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til [I] og [J].
3. Tölvubréfasamskipti milli [J] og [K]. Tvö tölvubréf, bæði dags. 23. desember 2010.
4. Tölvubréf, dags. 28. desember 2010, frá [L] til mennta- og menningarmálaráðuneytisins ásamt öðrum aðilum. Sem fylgiskjal er ályktun Kennarafélags Iðnskólans í Hafnarfirði, dags. 28. desember 2010.
5. Tölvubréf, dags. 27. desember 2010, frá [M] til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
6. Bréf, dags. 22. desember 2010, frá deildarstjóra og kennurum á Listnámsbraut Iðnskólans í Hafnarfirði til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Gögn með málsnúmeri MMR10080357 skráð 15. desember 2010. Heiti máls: Sendar starfsánægjukannanir haust 2006 og haust 2010 v. ráðningar í embætti skólameistara Iðnskólans í Hafnarfirði:
1. Forsíða.
2. Tölvubréf, dags. 13. desember 2010, frá [B] til [N]. Sem fylgiskjöl eru tveir glærupakkar.

2.
Önnur gögn sem ráðuneytið hefur afhent úrskurðarnefnd um upplýsingamál urðu til áður en að kærandi lagði fram beiðni sína um aðgang að gögnum. Tekið skal fram að þau gögn sem afhent voru með bréfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 10. september 2010, eru vistuð í málaskrá ráðuneytisins undir málsnúmerinu MMR 10040197. Hluti af gögnum þess máls bárust úrskurðarnefndinni á ný með bréfi ráðuneytisins 11. maí 2011. Í þessu ljósi liggur fyrir úrskurðarnefndinni að taka afstöðu til réttar kæranda til aðgangs að eftirtöldum gögnum:

Gögn með málsnúmeri MMR10040197 skráð 21. apríl 2010. Heiti máls: Launamál starfsmanna við Iðnskólann í Hafnarfirði – [B]:
1. Forsíða með tilmælum máls.
2. Tölvubréf, dags, 7. apríl 2010, frá [B] til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
3. Minnispunktar [D], dags. 23. apríl 2010, skráð á mál nr. MMR10040197.
4. Tölvubréf, dags. 28. apríl 2010, frá [E] til [D].
5. Tölvubréf, dags. 18. mars 2010, frá [F] til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
6. Fundargerð, dags. 1. júní 2010, frá fundi [D], [E], [B] og [C].

Gögn með málsnúmeri MMR09120294 skráð 28. desember 2010. Heiti máls: Málefni Iðnskólans í Hafnarfirði:
1. Forsíða.
2. Tölvubréf, dags. 29. október 2009, frá [O] til [P] og [Q].
3. Tölvubréf, dags. 27. ágúst 2009, frá [K] til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
4. Tölvubréf, dags. 27. ágúst 2009, frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til [F].
5. Tölvubréf, dags. 26. ágúst 2009, frá [B] til mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Tvö skjöl fylgdu tölvubréfinu. Annars vegar minnisblað dags. 20. ágúst 2009 og hins vegar minnispunktar frá fundi FF og mennta- og menningarmálaráðuneytisins um málefni IH, dags. 1. júlí 2009.

Gögn með málsnúmeri MMR09120117:
1. Skjal með yfirskriftinni: Erindi fundar: Stjórnsýsla í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Dags. 8. desember 2009. Undirritað af [B] og [C].
2. Ársreikningur A-hluta aðila í þús. kr.: 02 516 Iðnskólinn í Hafnarfirði.
3. Skjal með yfirskriftinni: Launadeila í IH og afleiðingar á skólastarf.
4. Skjal með yfirskriftinni: Pappírar vegna launamála í IH staðan í feb. 2008.
5. Bréf, dags. 2. apríl 2008, frá [B] til mennta- og menningarmálaráðuneytisins ásamt öðrum aðilum.
6. Bréf, dags. 26. mars 2008, frá [B] til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og öðrum aðilum.
7. Bréf, dags. 26. mars 2008, frá Félagi framhaldsskólakennara til [F].
8. Bréf, dags. 31. mars 2008, frá [B]. Nöfn viðtakenda koma ekki fram.
9. Bréf, dags. í desember 2007, frá [B] til [R] og [H].
10. Tölvubréfssamskipti milli [R] og [B]. Fjórir tölvupóstar. Þrír dags. 14. desember 2007 og einn dags. 10. desember 2007.
11. Minnisblað [B] frá fundi yfirstjórnar skólans með trúnaðarmönnum og stjórn kennarafélagsins 13. febrúar 2008.
12. Reglugerð um skólanefndir við framhaldsskóla. nr. 132 frá 11. febrúar 1997.
13. Drög að fundargerð: Aðalfundur Kennarafélags Iðnskólans í Hafnarfirði haldinn 26. maí 2004, í Iðnskólanum í Hafnarfirði í stofu 313, kl. 13.00.
14. Skjal með yfirskriftinni: Pappírar vegna launamála í IH staðan í feb. 2008 (sama skjal og skjal nr. 4).
15. Fundargerð: 7. fundur skólanefndar Iðnskólans í Hafnarfirði 2003, haldinn að Flatahrauni 12 miðvikudaginn 5. nóvember kl. 12:15.
16. Tölvubréfasamskipti milli [B] og [K]. Tvö tölvubréf dags. 19. maí 2008 og 22. maí 2008.
17. Minnispunktar [B] frá fundi 3. mars 2008.
18. Skjal með yfirskriftinni: Hugleiðingar varðandi launaútreikning í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Merkt [B].
19. Skal með yfirskriftinni: Persónuleg samskipti: Yfirlit.
20. Fundargerð: Fundur stjórnenda, 12. maí 2009 kl. 11.15.
21. Fundargerð: Fundur stjórnenda, 27. apríl 2009 kl. 11.15.
22. Tölvubréfasamskipti milli [B] og [F]. Fjögur tölvubréf. Dags. 5 mars 2009, 27. apríl 2009 og 7. maí 2009. Eitt bréfið er ódagsett.
23. Bréf, dags. 20. maí 2009, frá [B] til skólameistara og skólanefndarmanna.
24. Skjal með starfslýsingu umsjónarkennara útstillingarbrautar.
25. Tölvubréfasamskipti milli [B] og [F]. Þrjú tölvubréf. Dags. 21. október 2009, 20. október 2009 og 19. október 2009.
26. Tölvubréfasamskipti milli [B] og [F]. Fimm tölvubréf. Dags. 26. október 2009, tvö bréf dags. 21. október 2009, 20. október 2009 og 19. október 2009.
27. Tölvubréfasamskipti milli [F], [S] og [T]. Dags. 27. ágúst 2008, tvö bréf dags. 26. ágúst 2008, þrjú bréf dags. 25. ágúst 2008.
28. Bréf dagsett 16. október 2007 og undirritað af [B].
29. Skjal með yfirskriftinni: Erindi fundar: Stjórnsýsla í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Dags. 8. desember 2009. (sama skjal og skjal nr. 1 en óundirritað)
30. Tölvubréfasamskipti milli [B] og [F]. Fimm tölvubréf. Dags.19. nóvember 2009, 17. nóvember 2009, 13. nóvember 2009, 12. nóvember og 10. nóvember 2009.
31. Auglýsing frá Iðnskólanum í Hafnarfirði á starfatorgi.is.
32. Tölvubréf, dags. 21. maí 2009, frá [F] til starfsmanna Iðnskólans í Hafnarfirði.
33. Tölvubréfasamskipti milli [F] og [C]. Fjögur tölvubréf. Dags. 10. ágúst 2009, tvö dags. 7. ágúst 2009 og eitt dags. 5. ágúst 2009.
34. Bréf, ódagsett, frá [C] til [U], lögfræðings Kennarasambands Íslands.
35. Bréf, ódagsett, frá [U] til [C].
36. Tölvubréf, dags. 7. desember 2009, frá [K] til [C].
37. Tölvubréf, dags. 3. október 2009, frá [C] til [F].
38. Skjal með yfirskriftinni: Stutt greinagerð varðandi samskipti undirritaðs og [F] Skólameistara Iðnskólans í Hafnarfirði.
39. Skjal með yfirskriftinni: Til upplýsingar um framkomu og stjórnunarhætti skólameistara Iðnskólans í Hafnarfirði og við hverju kennarar geta búist ef þeir leita til hans.
40. Skjal með yfirskriftinni: Upphlaup í IH 31.8.2009: Yfirlit.
41. Tölvubréf, dags. 14. maí 2009, frá [V] til [B].
42. Tölvubréf, dags. 13. maí 2009, frá [H] til [B].
43. Tölvubréf, dags. 1. september 2009, frá [V] til allra starfsmanna.
44. Tölvubréf, dags. 31. ágúst 2009, frá administrator til allra starfsmanna.
45. Tölvubréf, ódags., frá [X].
46. Tölvubréf, dags. 1. september 2009, frá [Y] til allra starfsmanna.
47. Tölvubréf, dags. 1. október 2009, frá [Z] til [B].
48. Bréf, dags. 29. maí 2009, frá Kennarafélagi IH til mennta- og menningarmálaráðherra.
49. Bréf, dags. 29. maí 2009, frá stjórnarmönnum KFIH til mennta- og menningarmálaráðherra.

3.
Kærandi byggir kröfu um aðgang að framangreindum skjölum á 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga. Í henni segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr.“ Í 5. gr. laganna segir síðan: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“ Þá kemur fram í 7. gr. laganna að ef ákvæði 4.-6. gr. eigi við um hluta skjals skuli veita almenningi aðgang að öðru efni skjalsins.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir þau gögn sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur afhent nefndinni.
 
Mál í málaskrá mennta- og menningarmálaráðuneytisins númer MMR10040197 sem skráð var 21. apríl 2010 inniheldur fimm skjöl auk forsíðu með tilmælum. Heiti skjalanna og númer hafa verið listuð upp í kafla 2 hér að framan. Í lögum er fjöldi settra lagaákvæða um þagnarskyldu sem bannar starfsfólki, er vinnur að heilsugæslu og annarri skyldri starfsemi, að veita upplýsingar um heilsuhagi tiltekinna einstaklinga, að viðlagðri refsingu. Slíkar upplýsingar teljast einnig til viðkvæmra persónuupplýsinga í skilningi c-liðar 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Á grundvelli sömu sjónarmiða og leiða til þess að sjúkraskrá sé undanþegin aðgangi almennings, eru skýrslur sálfræðinga og félagsráðgjafa um skjólstæðinga sína einnig undanþegnar aðgangi almennings á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga. Þó að hér sé ekki um að ræða eiginlega sálfræðimeðferð þá verður að ætla að sömu sjónarmið eigi við um skjal nr. 4 sem er tölvubréf, dags. 28. apríl 2010, frá [E], M.A. í vinnusálfræði, sem starfar hjá Þekkingarmiðlun ehf.  sem sérhæfir sig í að miðla þekkingu og styrkja þannig einstaklinga og vinnustaði, til [D] ráðuneytisstjóra og skjal nr. 6 sem er fundargerð, dags. 1. júní 2010, frá fundi [D], [E], [B] og [C]. Þær upplýsingar sem fram koma í skjali nr. 3 sem eru minnispunktar [D], dags. 23. apríl 2010, innihalda upplýsingar sem eru sambærilegar þeim sem fram koma í nefndum tölvupósti og fundargerð. Ber því mennta- og menningarmálaráðuneytinu ekki að afhenda kæranda þau gögn með vísan til 5. gr. upplýsingalaga. Önnur gögn sem falla undir málsnúmer MMR10040197 innihalda aftur á móti ekki upplýsingar sem rétt er að synja almenningi um aðgang að með vísan til 5. gr. upplýsingalaga og ber því að afhenda kæranda þau gögn.

Mál í málskrá mennta- og menningarmálaráðuneytisins númer MMR09120294 sem skráð var 28. desember 2010 inniheldur fjögur skjöl auk forsíðu. Heiti skjalanna og númer hafa verið listuð upp í kafla 2 hér að framan. Ekkert þessara skjala inniheldur upplýsingar sem heimilt er að synja almenningi um aðgang að með vísan til 5. gr. upplýsingalaga. Skjal nr. 2 sem er tölvubréf, dags. 29. október 2009, frá [O] til [P] og [Q] er aftur á móti vinnuskjal í skilningi 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 þar sem skjalið er ritað af þáverandi ráðuneytisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytisins til tveggja starfsmanna þess, þ.e. skjalið er ritað af stjórnvaldi til afnota þess. Ekki er í skjalinu að finna upplýsingar sem geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá og var því mennta- og menningarmálaráðuneytinu heimilt að synja kæranda um aðgangs þessa skjals. Önnur skjöl undir málsnúmeri MMR09120294 ber mennta- og menningarmálaráðuneytinu að afhenda kæranda.

Mál í málskrá mennta- og menningarmálaráðuneytisins númer MMR09120117 inniheldur fjörutíu og níu skjöl. Heiti skjalanna og númer hafa verið listuð upp í kafla 2 hér að framan. Um er að ræða skjöl er varða Iðnskólanum í Hafnarfirði með einum eða öðrum hætti. Þau varða stjórnsýslu skólans, mannauðsmál skólans, samskipti kennara við skólastjórnendur, samskipti kennara innbyrðis og við aðila utan skólans s.s. Félag framhaldsskólakennara og Kennarasamband Íslands. Mennta- og menningarmálaráðuneytið vísaði til þess í fyrra bréfi sínu, dags. 10. september 2010, að ráðuneytið stæði fyrir sáttaferli milli hlutaðeigandi aðila þ.e. skólameistara annars vegar og kennara hins vegar. Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur aflað sér skipaði Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, [G] skólameistara við Iðnskólann í Hafnarfirði til fimm ára frá og með 1. janúar 2011 og hefur hann því tekið við starfi skólameistara. Því eru ekki lengur fyrir hendi hagsmunir sem lúta að sáttum innan Iðnskólans í Hafnarfirði milli starfsfólks og fyrrum skólameistara. Þá hefur ráðuneytið vísað til þess að í umbeðnum gögnum komi fram upplýsingar um einkamálefni og eindregni í samskiptum milli tiltekinna starfsmanna og skólameistara og því sanngjarnt og eðlilegt að þau fari leynt með vísan til 5. gr. upplýsingalaga. Þau gögn sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur einkum geta fallið hér undir eru fimm (þar af eru tvö skjöl efnislega eins): Skjöl nr. 1 og 29 með yfirskriftinni: Erindi fundar: Stjórnsýsla í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Dags. 8. desember 2009. Undirritað af [B] og [C], skjal nr. 37 sem er tölvubréf, dags. 3. október 2009, frá [C] til [F], skjal nr. 38 með yfirskriftinni: Stutt greinagerð varðandi samskipti undirritaðs og [F] Skólameistara Iðnskólans í Hafnarfirði og skjal nr. 39 með yfirskriftinni: Til upplýsingar um framkomu og stjórnunarhætti skólameistara Iðnskólans í Hafnarfirði og við hverju kennarar geti búist ef þeir leita til hans. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér þau fjörutíu og níu gögn sem um ræðir. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur einungis að þau fimm gögn sem nefnd er hér að framan innihaldi upplýsingar um einkamálefni sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Í þeim gögnum koma fram upplýsingar er varða þá einstaklinga sem skjölin rita og ritað er um og samskipti þessara einstaklinga. Úrskurðarnefndin telur að mennta- og menningarmálaráðuneytinu hafi verið heimilt að synja kæranda um aðgang að þessum fimm skjölum með vísan til 5. gr. upplýsingalaga. Að virtum gögnum máls þessa og umfjöllunar fjölmiðla um ósætti innan Iðnskólans í Hafnarfirði þykir rétt að árétta að ákvæði 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga byggist á því að hægt sé að óska upplýsinga án tillits til þess hvernig ætlunin er að nota þær upplýsingar sem gögn geyma. Stjórnvöldum er óheimilt að synja um aðgang að gögnum vegna þess að ætla megi að upplýsingarnar verði birtar, s.s. í fjölmiðlum (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 3017). Annað mál er að birting upplýsinga, sem aðgangur er heimill að samkvæmt upplýsingalögum, kann stundum að varða við lög en um það gilda almennar reglur, s.s. reglur almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum, einkum XXV. kafli um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Með vísan til alls þessa ber mennta- og menningarmálaráðuneytinu að afhenda kæranda önnur gögn en þau fimm sem vísað er til hér að framan sem falla undir málsnúmer MMR09120117.


Úrskurðarorð

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu ber að afhenda kæranda, [A], gögn úr málskrá ráðuneytisins sem falla undir málsnúmerin MMR10040197, MMR09120294 MMR09120117 ásamt forsíðum málanna, sbr. kafla 2 í niðurstöðum, að undanskildum eftirfarandi gögnum: 1) Minnispunktar [D], dags. 23. apríl 2010, skráð á mál nr. MMR10040197, 2) tölvubréf, dags. 28. apríl 2010, frá [E] til [D], skráð á mál nr. MMR10040197, 3) fundargerð, dags. 1. júní 2010, frá fundi [D], [E], [B] og [C], skráð á mál nr. MMR10040197, 4) tölvubréf, dags. 29. október 2009, frá [O] til [P] og [Q], skráð á mál nr. MMR09120294,5) tvö skjöl með yfirskriftinni: Erindi fundar: Stjórnsýsla í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Dags. 8. desember 2009. Undirritað af [B] og [C], skráð á mál nr. MMR09120117, 6) tölvubréf, dags. 3. október 2009, frá [C] til [F], skráð á mál nr. MMR09120117, 7) skjal með yfirskriftinni: Stutt greinagerð varðandi samskipti undirritaðs og [F] Skólameistara Iðnskólans í Hafnarfirði, skráð á mál nr. MMR09120117 og 8) skjal með yfirskriftinni: Til upplýsingar um framkomu og stjórnunarhætti skólameistara Iðnskólans í Hafnarfirði og við hverju kennarar geta búist ef þeir leita til hans, skráð á mál nr. MMR09120117.

 

Trausti Fannar Valsson
formaður

 Sigurveig Jónsdóttir                                                                                        Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta