Hoppa yfir valmynd
26. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 36/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. október 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 36/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur þann 25. nóvember 2009, en hann missti vinnu sína samkvæmt vinnuveitendavottorði þann 30. nóvember 2009. Umsóknin var samþykkt með 100% bótarétti á fundi hjá Vinnumálastofnun þann 22. desember 2009 og voru honum greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur, sbr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una útreikningi Vinnumálastofnunar og kærði hann til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 25. febrúar 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi starfaði hjá X ehf. frá 1. maí 2007 til 30. nóvember 2009 er honum var sagt upp störfum vegna samdráttar. Hann óskar eftir endurskoðun á útreikningi atvinnuleysisbóta og bendir á að samkvæmt útreikningi fái hann grunnatvinnuleysisbætur og tekjutryggingu. Hann bendir jafnframt á að í útreikningi á bótareikningi hafi ekki verið tekið tillit til orlofstímabils sem hafi verið frá 4. ágúst til 25. ágúst 2009.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 23. júní 2010, kemur fram að skv. 1. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar öðlist atvinnuleitandi sem skráður er atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði eftir að grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. hafi verið greiddar í tíu daga. Við útreikning á tekjutengdum atvinnuleysisbótum sé byggt á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur umsækjanda úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldskrá skattayfirvalda.

Fram kemur hjá Vinnumálastofnun að kærandi bendi á að ekki hafi verið tekið tillit til orlofstímabils sem hafi verið frá 4. ágúst til 25. ágúst 2009. Í samræmi við 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli Vinnumálastofnun, við útreikning á tekjutengdum atvinnuleysisbótum, miða við sex mánaða tímabil sem hefjist tveimur mánuðum áður en umsækjandi varð atvinnulaus. Telji stofnunin að ekki séu rök eða heimildir fyrir því að líta til annars viðmiðunartímabils en lögfest sé í skýru ákvæði 32. gr. laganna við útreikning á tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé viðmiðunartímabil við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda því frá apríl til og með september 2009. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um laun kæranda á sex mánaða viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. 32. gr. laganna, hafi heildarlaun kæranda verið 1.466.492 kr. frá apríl til og með september 2009. Þegar tekið hafi verið mið af 70% af meðaltali heildarlauna á viðmiðunartímabilinu eigi kærandi rétt til greiðslu á grundvelli 32. gr. laganna sem samsvari 995,00 kr. á dag í þrjá mánuði eftir að grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. laganna hafi verið greiddar í tíu daga, sbr. 1. og 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. júní 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 8. júlí 2010. Kærandi hefur ekki nýtt sér það.

 

2.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla laganna öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. hafi verið greiddar í samtals tíu virka daga nema annað leiði af lögunum. Í 1. málsl. 2. mgr. 32. gr. laganna segir að tekjutengdar atvinnuleysisbætur launamanna skv. 1. mgr. skuli nema 70% af meðaltali heildarlauna og skuli miða við sex mánaða tímabil sem hefjist tveimur mánuðum áður en umsækjandi varð atvinnulaus. Í 4. mgr. 32. gr. segir að útreikningur á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur umsækjanda úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda.

Af skýru orðalagi 32. gr. laganna er ljóst hvaða tímabil og upplýsingar ákvarða tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Engin heimild er veitt til að taka tillit til launagreiðslna sem samkvæmt upplýsingum frá skattyfirvöldum voru greiddar utan áðurnefnds viðmiðunartímabils. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um útreikning vegna tekjutengdra atvinnuleysisbóta kæranda er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A varðandi viðmiðunartímabil við útreikning á meðaltali heildarlauna vegna tekjutengdra atvinnuleysisbóta kæranda er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta