11 milljarðar greiddir í tekjufalls- og viðspyrnustyrki
Um ellefu milljarðar króna hafa nú verið greiddir í tekjufalls- og viðspyrnustyrki en þeim er ætlað að aðstoða rekstraraðila, þ.m.t. einyrkja, sem hafa orðið fyrir tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
Meira en 2.000 umsóknir hafa borist um tekjufallsstyrki og rúmlega 1.700 umsóknir um viðspyrnustyrki. Tekjufallsstyrkir eru ætlaðir rekstraraðilum sem urðu fyrir a.m.k. 40% tekjufalli á tímabilinu frá apríl til og með október 2020. Viðspyrnustyrkjum er ætlað að aðstoða rekstraraðila sem verða fyrir a.m.k. 60% tekjufalli við að viðhalda lágmarksstarfsemi meðan áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru gætir og gera samfélagið betur viðbúið því þegar heimurinn opnast að nýju. Viðspyrnustyrkir eru ákveðnir mánuð fyrir mánuð og gilda fyrir tímabilið frá 1. nóvember 2020 til 31. maí 2021.
Þá hafa um 2,3 milljarðar króna verið greiddir í lokunarstyrki.
Síðustu mánuði hafa ríflega 80 milljarðar verið greiddir í fjölbreyttan stuðning í úrræðum ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins að frátöldum heimildum til útgreiðslu séreignarsparnaðar. Á fimmta þúsund rekstraraðilar og nær fjörutíu þúsund einstaklingar hafa nýtt stuðninginn.
Sem dæmi hafa nú hátt í sjö milljarðar króna verið endurgreiddir aukalega af virðisaukaskatti (VSK) vegna margs konar framkvæmda en endurgreiðslurnar nýtast einkum einstaklingum og félögum á borð við sveitarfélög, almannaheillafélög og íþróttafélög.
Flest þeirra fyrirtækja sem hafa nýtt sér úrræði stjórnvalda vegna faraldursins árið eru með tíu launamenn eða færri. Markmið stuðnings við fyrirtæki er að verja störf eins og kostur er auk þess að skapa öfluga viðspyrnu þegar faraldrinum sleppir.