IceWind í nýsköpunarhraðal Atlantshafsbandalagsins
Yfir 1.300 fyrirtæki frá öllum aðildarríkjum bandalagsins sóttu um þátttöku en aðeins 44 komust áfram í fyrsta fasa samkeppninnar. Þá er IceWind eitt af þrettán fyrirtækjum sem starfa í tengslum við bætt orkuviðnám sem komust í fyrsta fasann, en auglýst var eftir nýsköpunarfyrirtækjum sem vinna meðal annars að bættu viðnámi orkuinnviða bandalagsríkja og öruggum upplýsingaskiptum. Fyrirtæki sem komast í fyrsta fasa samkeppninnar fá bæði 100 þúsund evra styrk og aðgang að þjálfunarbúðum og prófunaraðstöðum fyrir frumkvöðla.
Ákveðið var að setja á fót DIANA, nýsköpunarhraðal Atlantshafsbandalagsins, á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Brussel 2021. Í yfirlýsingu fundarins kemur fram að komist hafi verið að samkomulagi um að hlúa að tæknilegri samvinnu bandalagsríkja, stuðla að samvirkni og hvetja til þróunar og aðlögunar tæknilausna til að mæta varnarþörfum bandalagsins. Í því skyni hafi verið ákveðið að setja á fót nýsköpunarhraðal með áherslu á varnartengd verkefni og tækni með tvíþætt notagildi.