Hoppa yfir valmynd
10. mars 2023 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Lilja fundaði með Claudiu Roth menningarmálaráðherra Þýskalands

Claudia Roth menningarmálaráðherra Þýskalands og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra. 

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, fundaði með Claudiu Roth, menningarmálaráðherra Þýskalands í ferð sinni til Berlínar í vikunni. Ráðherrarnir áttu góðan fund saman og ræddu þær meðal annars um áherslur í menningarmálum, skapandi greinum og á sviði sjálfbærni.   

„Við ræddum um aukið samstarf á milli Íslands og Þýskalands meðal annars í gegnum Skapandi Evrópu (e. Creative Europa). Menningarmálaráðherrann lagði til að ríkin myndu tala saman og koma með tillögur að menningarverkefnum og sækja svo um styrki í Skapandi Evrópu (e. Creative Europa),” segir menningar- og viðskiptaráðherra um fundinn.    

Áhugi á íslenskum bókmenntum og menningararfi

Nú er unnið að því að yfir þýða Íslendingasögurnar yfir á þýsku og var rætt um það á fundinum. Um er að ræða fyrstu samræmdu útgáfu Íslendingasagna á þýsku. Útgáfunni er ætlað að veita þýskum lesendum aðgang að Íslendingasögunum í vönduðum og nútímalegum þýðingum frá fjölda þýðanda undir stjórn Jóhanns Sigurðssonar hjá Saga forlagi.  

Þýski ráðherrann sýndi íslenskum bókmenntum mikinn áhuga.  

„Það var ákveðið að ég mun taka þátt í verkefni með menningarmálaráðherranum á bókmenntahátíðinni í Leipzig. Halldór Guðmundsson rithöfundur er að skrifa íslenska bókmenntasögu fyrir að beiðni þýsks forlags og mun ég hafa tækifæri til að segja betur frá því á hátíðinni. Margt spennandi í vændum í menningarsamstarfi þjóðanna.” 

Ræddu stuðning við menningu frá Úkraínu

Var einnig rætt um áhrif orkukrísunnar í Evrópu á menningarmálin og stuðning  Íslands og Þýskalands við menningu í Úkraínu og menningu frá Úkraínu á Íslandi og Þýskalandi. Farið var yfir jafnrétti í menningarmálum og fjölmiðlamál á vettvangi ESB svo fátt eitt sé nefnt. 

„Claudia Roth hrósaði því hversu vel gekk að halda skólum og leikskólum á Íslandi opnum í heimsfaraldrinum. Íslenskir kennarar unnu þar mikið þrekvirki en í Þýskalandi fóru sum börn ekki í skóla í tvö ár. Stefnt er að því að rannsaka áhrifin af því,“ segir Lilja.  

Þá sagði Claudia Roth frá sérstökum menningarpassa, allt að 200 evra menningarstyrk, sem ákveðið var að veita þýskum ungmennum vegna menningarþurrðar síðustu tveggja ára í heimsfaraldrinum.   

Í heimsókn ráðherra til Berlínar sótti hún einnig ITB ferðasýninguna sem er ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Í ferðinni hitti ráðherra meðal annars Maríu Erlu Marelsdóttur sendiherra Íslands í Þýskalandi, tónskáldið Hildi Guðnadóttir, Clemens Trautmann forstjóra útgáfurisans Deutsche Grammophon, Guðnýju Guðmundsdóttur eiganda Gallery Gudmundsdottir í Berlín og einnig íslensk myndlistafólk í vinnustofudvöl í liststofnuninni Künstlerhaus Bethanien auk fulltrúa Íslandsstofu og fjölda íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja. Þá tók ráðherra þátt í fjölmiðlaviðburði á vegum Íslandsstofu í tengslum við Íslandskynningu á ITB ferðasýningunni.   

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta