S&P staðfestir A/A-1 lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs
Alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Global Ratings hefur staðfest A/A-1 lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands með stöðugum horfum. S&P reiknar með lítilsháttar samdrætti á yfirstandandi ári vegna samdráttar í komum ferðamanna til landsins, en að hagvöxtur taki við sér á ný frá og með 2020. Viðnámsþróttur hagkerfisins bæði á sviði ríkisfjármála sem og í ytri stöðu þjóðarbúsins er traustur.
Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs endurspeglar háa landsframleiðslu á mann, stöðuga stofnanaumgjörð og skilvirka stefnumótun. Einkunnin tekur einnig mið af sterkri stöðu ríkisfjármála eftir verulega niðurgreiðslu skulda á undanförnum árum og takmörkuðum sveigjanleika peningastefnunnar, sem þó er tekið fram að hafi aukist eftir losun fjármagnshafta.
Stöðugar horfur endurspegla þá skoðun matsfyrirtækisins að svigrúm í ríkisfjármálum og erlendri stöðu þjóðarbúsins vegi á móti áhættu vegna sveiflna í þjóðarbúskapnum og hugsanlega meiri samdrætti í ferðaþjónustu en búist er við.
Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs gæti hækkað ef staða ríkisfjármála og ytri staða þjóðarbúsins styrkist markvert umfram væntingar matsfyrirtækisins.
Aftur á móti gæti einkunnin lækkað ef merki koma fram um aukinn greiðslujafnaðarþrýsting eða að fjármálastöðugleika sé ógnað á næstu tveimur árum. Dæmi um slíkt gæti verið ef samdráttur í ferðaþjónustu hefur víðtækari efnahagsáhrif en reiknað er með, með tilheyrandi þrýstingi á greiðslujöfnuð og fjármálakerfið, þ.m.t. á útlánastarfsemi lífeyrissjóða.