Niðurstaða talningar við þjóðaratkvæðagreiðsluna 9. apríl 2011
Talningu atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 13/2011 lauk kl. 15.30 hinn 10. apríl. Samkvæmt skýrslum yfirkjörstjórna voru 232.422 kjósendur á kjörskrá og greiddu 175.114 manns atkvæði. Niðurstaða talningarinnar var að 69.462 svöruðu því að lögin ættu að halda gildi en 103.207 að þau skyldu falla úr gildi. Ógild atkvæði voru 2.445, þar af 2.039 auðir seðlar en 406 atkvæði var ógilt af öðrum ástæðum.
Á fundi landskjörstjórnar í dag kl. 15.00 höfðu landskjörstjórn borist eftirrit af gerðarbókum yfirkjörstjórna. Á fundinum var ákveðið að landskjörstjórn komi saman kl. 15.00, föstudaginn 15. apríl nk. til þess að lýsa úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Heimilt er að kæra ólögmæti atkvæðagreiðslunnar til landskjörstjórnar og skulu slíkar kærur sendar landskjörstjórn eigi síðar en tveimur dögum áður en fundur landskjörstjórnar verður haldinn. Að þeim fundi loknum tilkynnir landskjörstjórn innanríkisráðuneytinu um niðurstöður sínar. Ráðuneytið auglýsir að því loknu úrslit atkvæðagreiðslunnar í Lögbirtingablaði og Ríkisútvarpi.