Hoppa yfir valmynd
11. október 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 425/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. október 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 425/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18090010

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 4. september 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. ágúst 2018, um að synja henni um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar.

Af greinargerð kæranda má ráða að hún krefjist þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi hér á landi fyrir námsmenn 1. september 2017 með gildistíma til 15. júlí 2018. Kærandi sótti um dvalarleyfi á nýjum grundvelli, þ.e. vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, þann 17. maí 2018 . Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. ágúst 2018, var kæranda synjað um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Fyrirsvarsmaður kæranda móttók ákvörðunina fyrir hennar hönd þann 30. ágúst 2018. Kærandi kærði ákvörðunina þann 4. september 2018. Kærunefnd hefur borist viðbótargögn frá kæranda, dags. 18. og 22. september 2018 og greinargerð, dags. 25. september 2018.

Með tölvupósti dags. 9. september 2018, óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun. Þann 10. september 2018 féllst kærunefndin á að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess samkvæmt 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga geti stofnunin heimilað útlendingi, sem dvalist hafi hér á landi á grundvelli annars konar dvalarleyfis en um geti í 64., 66., 67. eða 68. gr. og sæki um dvalarleyfi á nýjum grundvelli, áframhaldandi dvöl þar til endanleg ákvörðun um umsókn liggi fyrir enda sæki útlendingur um nýtt leyfi eigi síðar en fjórum vikum áður en fyrra dvalarleyfi falli úr gildi og hafi verið í löglegri dvöl a.m.k. síðustu níu mánuði. Í 6. mgr. 57. gr. komi fram að sæki útlendingur um dvalarleyfi á nýjum grundvelli hér á landi án þess að uppfylla skilyrði 5. mgr. skuli hafna umsókn af þeirri ástæðu. Þar sem kærandi væri einungis búin að vera í löglegri dvöl í rúma átta mánuði hér á landi þegar hún lagði fram umsókn um dvalarleyfi á nýjum grundvelli væri ljóst að hún uppfyllti ekki skilyrði 5. mgr. 57. gr. laganna og því yrði stofnunin að hafna umsókn hennar um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar á grundvelli 6. mgr. 57. gr.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að umsókn hennar hafi verið hafnað á grundvelli þess að skilyrði 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga hafi ekki verið talið uppfyllt. Í hennar tilfelli hafi lögleg dvöl hér á landi staðið í tæpa níu mánuði. Það sé einkennilegt þar sem kollegi hennar hafi komið til landsins á sama tíma og kærandi og sótt um sama dvalarleyfi og sé til umfjöllunar en í tilviki kollega hennar hafi umsóknin hins vegar samþykkt. Þetta verði að teljast til mismununar eða þá að vinnubrögðum Útlendingastofnunar séu ábótavant. Tvö alveg eins mál eigi ekki að geta farið á sitthvorn veginn en um sé að ræða sama dvalartíma, sömu menntun, sömu atvinnu og sömu aðstæður.

Fer kærandi fram á að kærunefnd líti til þess að löglegri níu mánaða dvöl kæranda sé lokið og þannig jafnframt þeim dvalartíma sem tilgreindur sé í 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Fallist kærunefnd ekki á framangreint óskar kærandi eftir því að nefndin endurskoði ákvörðun Útlendingastofnunar á grundvelli mismununar eða slælegra vinnubragða. Af framangreindu leiði að það sé bersýnilega ósanngjarnt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli þess að hún uppfylli ekki ákvæði 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga getur Útlendingastofnun heimilað útlendingi sem dvalist hefur hér á landi á grundvelli annars konar dvalarleyfis en um getur í 64., 66., 67. eða 68. gr. og sækir um dvalarleyfi á nýjum grundvelli áframhaldandi dvöl þar til endanleg ákvörðun um umsókn liggur fyrir enda sæki útlendingur um nýtt leyfi eigi síðar en fjórum vikum áður en fyrra dvalarleyfi fellur úr gildi og hefur verið í löglegri dvöl a.m.k. síðustu níu mánuði. Í 6. mgr. 57. gr. segir að sæki útlendingur um dvalarleyfi á nýjum grundvelli hér á landi án þess að uppfylla skilyrði 5. mgr. skuli hafna umsókn af þeirri ástæðu. Í undantekningartilvikum geti Útlendingastofnun þó heimilað umsækjanda, sem ekki uppfyllir fyrrgreind skilyrði, að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því.

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi hér á landi fyrir námsmenn 1. september 2017 með gildistíma til 15. júlí 2018. Þegar kærandi sótti um endurnýjun á dvalarleyfi þann 17. maí 2018 var hún búin að vera í löglegri dvöl á landinu í um átta og hálfan mánuð. Kærunefnd bendir á að með því að sækja um endurnýjun á dvalarleyfi í byrjun júní 2018 hefði kærandi uppfyllt skilyrði 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga um lágmarksdvöl í landinu og að umsóknin sé eigi síðar en fjórum vikum áður en fyrra dvalarleyfi fellur úr gildi. Útlendingastofnun tók ákvörðun í máli kæranda þann 16. ágúst 2018 eða tæpum þremur mánuðum eftir að umsókn hennar barst stofnuninni. Að mati kærunefndar bar Útlendingastofnun í samræmi við leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga að upplýsa kæranda um að umsókn hennar uppfyllti ekki skilyrði 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga um lágmarksdvöl í landinu en að þau skilyrði yrðu hins vegar uppfyllt í byrjun júní 2018, eða rúmlega 2 vikum síðar. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að ríkar sanngirnisástæður séu fyrir kæranda að fá að dveljast á landinu þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hennar, sbr. 6. mgr. 57. gr. laganna. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                       Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta