Hoppa yfir valmynd
24. mars 2020 Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis, Heilbrigðisráðuneytið

Úrskurður nr. 16/2020

I. Beiðni um undanþágu.

Með tölvupósti, dags. 17. mars 2020, barst heilbrigðisráðuneytinu beiðni frá Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands um undanþágu frá auglýsingu nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar.

Í beiðninni er óskað eftir undanþágu fyrir tiltekna nemendur til að þeir geti unnið að sérstökum verkefnum í húsnæði Háskóla Íslands næsta mánuð. Fram kemur að um sé að ræða verkefni nemendanna sem ekki sé unnt að sinna annars staðar og að þau muni eyðileggjast ef þeim sé ekki sinnt, rannsóknarfé muni fara til spillis og brautskráning nemenda muni frestast fram úr hófi. 

Í beiðninni er óskað eftir undanþágu í fimm liðum: 

1) Í lyfjafræðideild séu 17 nemendur í grunnnámi sem mæti í smáum hópum í afmarkaða rannsóknabyggingu í takmarkaðan tíma til 20. mars og einnig séu 8 nemendur á meistarastigi sem vinni verkefni á rannsóknastofum. Tekið er fram að fyllstu og ýtrustu smitvörnum verði fylgt og hópur inni í hverri rannsóknastofu verði ekki stærri en fjórir í einu. 

2) Í læknadeild séu 10 nemendur á meistarastigi og 3 nemendur í grunnnámi sem séu í sérstökum rannsóknaverkefnum á Lífvísindasetri og Lífseðlisfræðistofnun. Meðal þess sem unnið sé að er frumuræktun sem þurfi að sinna reglulega. Nemendurnir hafi ekki aðgang að tækjum og aðstöðu annars staðar og einnig sé unnið með tilraunadýr sem þurfi að gera mælingar á á ákveðnum tímum. Tekið er fram að fyllstu og ýtrustu smitvörnum verði fylgt og hópur inni í hverri rannsóknastofu verði aldrei stærri en sex manns. 

3) Á námsbraut í lífeindafræði sé einn nemandi á meistarastigi sem þurfi að hafa aðgang að rannsóknastofu til að geta gert bakteríuvirknimælingar á tilteknum efnum. Nemandinn myndi vinna einn. 

4) Í sálfræðideild séu unnin sérstök meðferðar- og rannsóknaverkefni sem munu bíða skaða af ef nemendur mæta ekki á staðinn og ljúka þeim. Það sé einnig slæmt fyrir þá skjólstæðinga sem séu til meðferðar. Um sé að ræða þrjú sálfræðileg meðferðarverkefni: i) Verkefni þar sem þrír nemendur muni veita meðferð til fólks með áfallastreituröskun. Tekið yrði á móti 10–12 manns á viku í einstaklingsviðtöl í 15 fermetra herbergjum, þar sem aldrei séu fleiri inni en tveir í einu og tveggja metra fjarlægð sé haldið. Tekið sé fram að allir muni vera með spritt, hanska og grímur og herbergin séu þrifin vel á milli. ii) Verkefni þar sem tveir nemendur muni veita hópmeðferð til fólks með þunglyndi. Um sé að ræða 5 manns sem sálfræðingur, auk nemanna tveggja muni hitta einu sinni í viku, samtals 8 manns. Fundað sé í stórri stofu þar sem auðvelt sé að halda góðri fjarlægð milli fólks og einnig séu spritt, hanskar og grímur til staðar fyrir alla. iii) Verkefni þar sem þrír nemendur muni veita hópmeðferð til foreldra barna með ADHD. Meðferðin muni fara fram í gegnum fjarfundabúnað en nemendurnir þurfi að vera í byggingu Háskóla Íslands til að hafa örugga tengingu og gæta trúnaðar við þátttakendur. Um sé að ræða 15 fermetra herbergi þar sem aldrei fleiri en tveir nemar séu saman inni í einu og muni þeir mæta þrisvar í viku. Tekið sé fram að gætt verði vel að handþvotti, sprittun og tveggja metra fjarlægð frá öðru fólki.

5) Í tannlæknadeild séu 10 tannlæknanemar og 6 tannsmíðanemar sem á tímabilinu 16.–21. mars munu sinna meðferð á tannlæknaklíník og í tannsmíðum á Tannlæknastofu Tannlæknadeildar Háskóla Íslands og bjóða ódýra meðferð til fólks í samfélaginu sem hefur minna milli handanna en flestir. Um sé að ræða meðferð sem er hafin og þurfi að ljúka. Vinnusvæðið sé 214 fermetrar, svæði tannsmíðanema 120 fermetrar og móttaka 52 fermetrar. Tekið er fram að reglum um ýtrustu smitgát verði fylgt.

II. Umsagnir.

Heilbrigðisráðuneytið óskaði eftir umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins um undanþágubeiðnina. Í umsögninni segir meðal annars eftirfarandi:

„Auglýsing um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar nr. 216/2020, er mjög skýr en fram kemur í 5. gr. hennar að framhalds- og háskólum skal lokað. Fjarkennslu skal sinnt eftir því sem unnt er og samkvæmt nánari ákvörðun menntamálayfirvalda.

Með því að heimila undanþágu frá auglýsingu á skólastarfi vegna farsóttar á þeim grundvelli að vegna lokunar sé ekki unnt að sinna verkefnunum, rannsóknarfé fari til spillis og að brautskráning nemenda frestast fram úr hófi mun setja fordæmi fyrir öll nemenda rannsóknarverkefni og tilraunir á landinu og þá með þeim hætti að markmið auglýsingarinnar nái ekki fram að ganga. Skólahald tekur bæði til bóklegs og verklegs náms og uppi hafa verið ýmsar tillögur um með hvaða hætti skuli að leysa verknámsþátt í þessum einstöku aðstæðum sem heimurinn er í.

Hins vegar þegar kemur að tilraunum og verkefnum sem ónýtast ef ekki verður viðhaldið lífi og ekki hægt að taka upp tilraunina eða verkefnið með góðu móti eftir að takmarki á skólahaldi vegna farsóttar lýkur þá er það mat ráðuneytisins um sé að ræða mjög sérstakar aðstæður sem heimila ætti undanþágu fyrir. Sökum þess leggur mennta- og menningarmálaráðuneytið til að beiðni Læknadeildar, að þeim hluta er snýr að frumuræktun og tilraunadýrum, og Tannlæknadeildar, að þeim hluta er snýr að Tannlæknastofu Tannlæknadeildar Háskóla Íslands, verði heimilað með þeim skilyrðum sem finna má í umsókninni. 

Með vísan til jafnræðis, þess fordæmis sem ákvörðunin mögulega felur í sér og að aðrar lausnir eru hugsanlegar leggur mennta- og menningarmálaráðuneytið til að aðrar beiðnir heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands um undanþágu verði hafnað. Ráðuneytið vill um leið hvetja skóla til að leita annarra leiða til að tryggja námsmat á lokaverkefnum nemenda þar sem það er unnt, sem og sinna endurskipulagi kennslu er skólar opna að nýju til að ná lágmarkstímum til útskriftar úr klínísku námi. Ráðuneytið gerir umsögn þessa á þeim forsendum sem snýr að menntamálum í landinu en ef umsögn sóttvarnarlæknis er önnur mun ráðuneytið ekki leggjast gegn niðurstöðu hans.“

III. Niðurstaða.

Í 5. gr. auglýsingar nr. 216/2020 segir að framhalds- og háskólum skuli lokað og fjarkennslu skuli sinnt eftir því sem unnt er og samkvæmt nánari ákvörðun menntamálayfirvalda. Samkvæmt 6. gr. getur heilbrigðisráðherra veitt undanþágu frá takmörkun skólastarfs ef ekki er talin hætta á að slíkt fari gegn markmiðum opinberra sóttvarnaráðstafana. 

Við mat á því hvort heimila eigi undanþágu samkvæmt ákvæðinu þarf því meðal annars að líta til þess hvort undanþágan sem slík stefndi í hættu ráðstöfunum til að varna útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins en jafnframt hvort undanþágan yrði fordæmi sem ekki væri unnt að fylgja eftir vegna þess að samþykkt allra sambærilegra tilvika myndi grafa undan framangreindum ráðstöfunum. Þá telur ráðuneytið, í ljósi auglýsingar nr. 217/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, að undanþága yrði almennt ekki veitt nema með þeim skilyrðum sem gilda um takmörkun á samkomum, sbr. nú auglýsingu nr. 243/2020. 

Að mati ráðuneytisins kemur einkum til greina að veita undanþágur þegar um mjög sérstakar aðstæður er að ræða og að takmörkun á skólahaldi kæmi sérstaklega þungt niður á viðkomandi nemendum, kennurum eða aðstandendum, svo sem í tilvikum þeirra sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Enn fremur þegar aðstæður á viðkomandi stað gera það mun erfiðara en annars staðar að fylgja fyrirmælum ákvörðunarinnar og/eða um sé að ræða mjög lítil frávik frá auglýsingu nr. 216/2020.

Heilbrigðisráðuneytið hefur farið yfir umsóknina og umsagnir umsagnaraðila. Ráðuneytið tekur undir þær röksemdir í umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins að sérstakar aðstæður geti verið uppi þegar tilraun eða verkefni muni ónýtast ef ekki verður haldið við lífi og ekki hægt að taka tilraunina eða verkefnið upp með góðu móti eftir að takmörkunum á skólahaldi vegna sóttvarna hefur verið aflétt. Ráðuneytið telur því, líkt og mennta- og menningarmálaráðuneytið, að rök standi til þess að heimila undanþágu vegna 2. og 5. liðar undanþágubeiðninnar, sem snúa annars vegar að rannsóknum við frumuræktun og tilraunadýr sem þarf að sinna reglulega og hins vegar að meðferð einstaklinga á Tannlæknastofu Tannlæknadeildar Háskóla Íslands, sem annars myndu hljóta skaða af ef þeir þyrftu að bíða eftir meðferð. Samþykkt við 5. lið undanþágubeiðninnar er með fyrirvara um að um sé að ræða heilbrigðisþjónustu sem ekki getur beðið, sbr. auglýsingu nr. 243/2020 og fyrirmæli landlæknis um frestun valkvæðra skurðaðgerða og annarra ífarandi aðgerða sem birt voru með auglýsingu nr. 245/2020.

Það er því mat ráðuneytisins að það samræmist ekki markmiðum þeirra opinberu sóttvarnaráðstafana sem gripið hefur verið til að veita umbeðna undanþágu samkvæmt 1., 3. og 4. lið. Undanþágubeiðninni er því hafnað er varðar þessa liði. Ráðuneytið fellst á undanþágubeiðni varðandi 2. og 5. lið líkt og að framan greinir og með þeim sóttvarnaráðstöfunum sem lýst er í beiðninni varðandi þá liði.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands um undanþágu frá auglýsingu nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, samkvæmt 2. og 5. lið er samþykkt.

Beiðni samkvæmt 1., 3. og 4. lið er hafnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta