Hoppa yfir valmynd
19. september 2018 Utanríkisráðuneytið

Markmið 12: Ábyrg neysla og framleiðsla

12. Ábyrð neysla og framleiðsla - mynd

Tryggja sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur

Sjálfbær neysla og framleiðsla hefur það að markmiði að stuðla að skilvirkri nýtingu bæði auðlinda og orku, veita aðgang að grunnþjónustu og grænum störfum auk þess að bæta lífsgæði allra. Innleiðing markmiðsins hjálpar til við að ná fram heildarþróun sem dregur úr efnahagslegum, umhverfislegum og félagslegum kostnaði í framtíðinni, styrkir efnahagslega samkeppnishæfni og dregur úr fátækt. Eins og flest önnur iðnvædd ríki stendur Ísland frammi fyrir töluverðum áskorunum til að ná markmiðum um sjálfbæra neyslu og framleiðslu. Nýting náttúruauðlinda, t.d. til orkuvinnslu, fiskveiða, ferðaþjónustu, landbúnaðar og ýmiss konar iðnaðar, eru meginstoðir í íslenska hagkerfinu. Því er mikið hagsmunamál að tryggja sjálfbæra og skilvirka nýtingu auðlindanna og tryggja að hún fari ekki yfir þolmörk umhverfisins. Ýmsar aðferðir hafa verið þróaðar til að greina sjálfbærni, m.a. hefur Global Footprint Network sett fram aðferðir til að reikna út vistspor ríkja heims.60 Samkvæmt niðurstöðum þeirra er ljóst að Ísland er í hópi þeirra ríkja sem hafa verk að vinna við að draga úr vistspori sínu.

Sjálfbær neysla og framleiðsla og skilvirk nýting auðlinda

Íslensk stjórnvöld hafa ekki sett fram sérstaka áætlun um sjálfbæra neyslu og framleiðslu en síaukin áhersla er lögð á að bæta nýtingu og umgengni við auðlindir landsins. Fiskveiðistjórnarkerfi Íslands er dæmi um afar skilvirka nýtingu auðlinda en fiskveiðar hafa í aldanna rás verið hornsteinn í íslensku efnahagslífi og fyrir fæðuöflun landsmanna. Fiskveiðistjórnarkerfið byggist á víðtækum rannsóknum á fiskstofnum og vistkerfi hafsins. Margir nytjastofnar á Íslandsmiðum hafa fengið vottun samkvæmt stöðlum sem eru í samræmi við alþjóðlegar samþykktir um sjálfbærni í fiskveiðum.

Matarsóun hefur verið í brennidepli á síðari árum. Stefna íslenskra stjórnvalda „Saman gegn sóun“ felur í sér almenna stefnu um úrgangsforvarnir fyrir tímabilið 2015–2026. Eitt af markmiðum stefnunnar er að draga eftir mætti úr matarsóun, m.a. í því skyni að bæta nýtingu auðlinda og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Niðurstöður fyrstu rannsóknar sem gerð hefur verið á sóun matvæla á Íslandi voru birtar 2016 og má samkvæmt þeim gera ráð fyrir að matarsóun á heimilum á Íslandi sé sambærileg við matarsóun í öðrum Evrópulöndum.61 Í framhaldi af þeim verkefnum um matarsóun sem ýtt hefur verið úr vör verða markmið og mælikvarðar útfærð nánar með það að markmiði að draga úr matarsóun á hvern íbúa um tiltekið magn (kg á íbúa) innan tiltekins tíma.

Tölulegar upplýsingar um magn, uppruna og meðhöndlun einstakra úrgangstegunda er að finna á vef Hagstofu Íslands. Ísland hefur náð þeim markmiðum sem sett eru í úrgangslöggjöf ESB nema hvað varðar gler, timbur og lífrænan úrgang. Af heildarmagni úrgangs árið 2015 fóru tæp 78% í endurvinnslu eða aðra endurnýtingu og tæplega 88% af efnaúrgangi fóru til endurvinnslu en rúmlega 12% voru brennd eða urðuð. Rúmlega 99% af blönduðum heimilisúrgangi voru urðuð eða brennd án orkunýtingar.62 Unnið er að því að fá áreiðanlegar tölur um notkun einnota burðarpoka úr plasti.

Gerðar eru kröfur um að tiltekin mengandi fyrirtæki skili grænu bókhaldi. Ekki er krafist upplýsinga um sjálfbærni í skýrslum viðkomandi fyrirtækja en stefnt að því að setja innbyggða hvatningu í þá veru í reglugerðir og starfsleyfi. Umhverfisstofnun heldur utan um losunarbókhald um tiltekin loftmengunarefni og hefur heimild til að krefja stjórnvöld, stofnanir og atvinnurekstur um nauðsynleg gögn og upplýsingar sem hún þarfnast vegna losunarbókhaldsins.

Umhverfisvænni stjórnun efna og efnablandna

Við gildistöku efnalaga á árinu 2013 varð efnalöggjöf á Íslandi sambærileg við efnalöggjöf ESB. Ísland er aðili að Stokkhólmssamningnum um þrávirk lífræn efni og Basel-samningnum um eftirlit með flutningi spilliefna milli landa. Þá er Ísland aðili að Efnavopnasamningnum, Vínarsamningnum um vernd ósonlagsins og Montrealbókuninni um efni sem valda rýrnun ósonlagsins og þeim hluta LRTAP (Long-Range Transboundary Air Pollution) samningsins sem fjallar um þrávirk lífræn efni. Ákvæði framangreindra samninga eru innleidd með aðild Íslands að EES-samningnum. Vorið 2017 gaf umhverfis- og auðlindaráðuneytið út uppfærða framkvæmdaáætlun Íslands um þrávirk lífræn efni en aðgerðaáætlun um notkun varnarefna 2016-2031 var gefin út á árinu 2016. Þá hefur fullgilding BAN-viðauka við Basel-samninginn tekið gildi og búið er að afhenda fullgildingarpappíra vegna Minamatasamningsins um kvikasilfur og tekur hann því væntanlega gildi á Íslandi í ágúst næstkomandi. Tölulegar upplýsingar um magn eiturefnaúrgangs á Íslandi er að finna á vef Hagstofunnar en áreiðanlegar tölulegar upplýsingar um magn, uppruna og meðhöndlun spilliefna á Íslandi eru til allt frá árinu 1997. Ísland fylgir skýrslugerð ESB-löggjafar hvað þetta varðar.

Innlend stefna um opinber innkaup

Stjórnvöld hafa unnið samkvæmt markaðri stefnu um vistvæn opinber innkaup frá árinu 2009. Stefnan var uppfærð 2013 með gildistíma til ársloka 2016. Unnið er að tillögum um framhald og framtíðarstefnu um opinber innkaup. Í lögum um opinber innkaup nr. 120/2016 eru ákvæði um að í útboðum megi setja skilyrði um umhverfismál og gera kröfur um umhverfismerki. Á Íslandi hefur ekki verið mótuð stefna um sjálfbær opinber innkaup en í framangreindum lögum eru veittar auknar heimildir til að taka tillit til umhverfisverndar, félagslegra markmiða og nýsköpunar við opinber innkaup.

Upplýsingar til almennings um sjálfbæra þróun og lífshætti í sátt við náttúruna

Ákvæði um fræðslu um sjálfbæra þróun og umhverfismál er að finna í sameiginlegum kafla í aðalnámskrám leik-, grunnog framhaldsskóla. Slík ákvæði eru einnig í kennsluskrám fyrir kennaranema í Háskóla Íslands og í Háskólanum á Akureyri. Verkefnið Skólar á grænni grein er samstarfsverkefni stjórnvalda og náttúruverndarsamtakanna Landverndar. Á þeim vettvangi hefur Landvernd tekið þátt í verkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem fólst í því að gefa út námsefni um úrgangsforvarnir undir yfirskriftinni Af stað með úrgangsforvarnir.

Þróun tækni til sjálfbærni í ferðaþjónustu

Þróunin í ferðaþjónustu á Íslandi hefur verið mjög hröð á síðustu tíu árum og er greinin nú orðin ein af meginstoðum gjaldeyristekna þjóðarinnar. Þorri ferðamanna frá útlöndum kemur til að njóta náttúru landsins og það sama gildir um Íslendinga sem ferðast um eigið land. Um þessar mundir er unnið að því að stórbæta allar hagrænar mælingar í tengslum við ferðaþjónustu og ráðgert er að skilgreina mælikvarða sem nýtast til að meta sjálfbærni ferðaþjónustunnar.

Ísland á alþjóðlegum vettvangi

Ísland tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi um efna- og úrgangssamninga Sameinuðu þjóðanna eins og greint er frá að framan. Örugg efna- og úrgangsstjórnun eru grunnur að heilsuvernd og að tryggja sjálfbæra framleiðslu og þannig sjálfbæra neyslu. Á alþjóðavettvangi hefur Ísland hefur tekið þátt í að mæla fyrir umbótum á sviði skaðlegra ríkisstyrkja til jarðefniseldsneyta, meðal annars með þátt töku í sameiginlegri ráðherrayfirlýsingu þess efnis á 11. ráðherrafundi WTO í Buenos Aires. Yfirlýsingin lagði áherslu á umhverfismál, þróun og einkum efnahagslegan ávinning af umbótum á ríkisstyrkjum til jarðefniseldsneytis. Ísland tekur einnig virkan þátt í norrænu samstarfi á sviði ábyrgrar neyslu og framleiðslu en Ísland hefur m.a. haft forgöngu um norrænt verkefni og mótun stefnu um lífhagkerfið. Þá tekur Ísland þátt í norrænu samstarfi þar sem unnið er að sameiginlegum verkefnum sem m.a. felast í því að þróa, samræma og meta stjórntæki sem stuðla að sjálfbærri neyslu og framleiðslu. Ísland tekur einnig þátt í efnasamstarfi ESB á vegum Efnastofnunar Evrópu (ECHA) auk þess sem allir skólar Háskóla SÞ hér á landi miða að því að gera framleiðsluhætti sjálfbærari, t.a.m. með því að stuðla að sjálfbærri landnýtingu og fiskveiðistjórn.

 

60 Global Footprint Network, footprintnetwork.org.

61 Umhverfisstofnun, nóvember 2016, Food Waste in Iceland - Methodological report.

62 Hagstofa Íslands, hagstofa.is.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

12. Ábyrð neysla og framleiðsla

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta