Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2010 Innviðaráðuneytið

Bláskeggsárbrú komin í upprunalegt horf

Brúin yfir Bláskeggsá í Hvalfirði var tekin í notkun á ný síðastliðinn fimmtudag, sumardaginn fyrsta, eftir að hafa verið færð í upprunalegt horf. Brúin var byggð árið 1907 og á 100 ára afmælinu var hafist handa við endurgerðina sem nú er lokið.

Brú yfir Bláskeggsá í Hvalfirði hefur verið endurgerð.
Brú yfir Bláskeggsá í Hvalfirði hefur verið endurgerð.

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri klipptu á borða af þessu tilefni og flutt voru ávörp. Ráðherra sagði meðal annars í ávarpi sínu: ,,Brúin yfir Bláskeggsá er merkileg fyrir margra hluta sakir en hún var smíðuð árið 1907. Ég ætla aðeins að nefna að hún var fyrsta steinsteypta brúin utan Reykjavíkur og mér finnst ekki síður merkilegt að kostnaðaráætlun fyrir verkið hljóðaði uppá fjögur þúsund krónur. Hann varð hins vegar mun minni eða rétt rúmar þrjú þúsund krónur.”

Ráðherra sagði brúna hafa verið notaða til 1951 og síðan fallið í gleymskunnar dá. ,,En nú er hún hafin til vegs og virðingar á ný og þetta verkefni er liður í því að við varðveitum söguna. Okkur ber skylda til að varðveita það sem unnt er og merkilegt í verkmenntasögu okkar og þar eru samgöngumannvirki ofarlega á blaði. Ég veit að það sjónarmið er ofarlega í huga forráðamanna Vegagerðarinnar og þeir hafa oftlega sýnt og sannað að þeim er umhugað um að varðveita söguna.”

Fram kemur á vefsíðu Vegagerðarinnar að brúin sé líkt og í upphafi eingöngu ætluð gangandi fólki og ríðandi ,,því hún var byggð fyrir tíma bílsins á Íslandi, síðar var hún reyndar breikkuð og styrkt til að þola vélknúin ökutæki. Brúin er fyrir ofan Hvalstöðina og Þyril og hægt að aka að upplýsingaskilti þar sem stuttur spölur er að brúnni."

Endurgerðin var samvinnuverkefni Hvalfjarðarsveitar, Fornleifaverndar ríkisins og Vegagerðarinnar. 

Myndirnar frá athöfninni eru frá Vegagerðinni.

Brú yfir Bláskeggsá í Hvalfirði hefur verið endurgerð.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta