Nýr dómsmálaráðherra tekur við
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, sem einnig hefur tekið við sem nýr dómsmálaráðherra heimsótti ráðuneytið í dag. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra kynnti nýjan ráðherra fyrir starfsmönnum og kvaðst hann hlakka til samstarfsins.
Ríkisstjórnin ákvað í gær í framhaldi af ósk innanríkisráðherra að færa tímabundið málefni dómstóla, lögreglu og ákæruvalds undan ábyrgðarsviði innanríkisráðherra með því að setja á fót nýtt embætti dómsmálaráðherra. Var forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta breytt samkvæmt því.
Sigmundur Davíð sagði verða koma í ljós hvernig hann muni skipta tíma sínum milli verkefna í forsætisráðuneyti og innanríkisráðuneyti en starfsfólk ráðuneytisins sem sinnir málefnum er falla undir dómsmálaráðherra munu áfram hafa aðsetur í ráðuneytinu.