Drög að frumvarpi um breytingu á lögum um Schengen-upplýsingakerfið til umsagnar
Drög að breytingu á lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi eru nú til umsagnar hjá ráðuneytinu. Unnt er að senda umsögn um frumvarpsdrögin til og með 8. september næstkomandi og skal umsögn berast á netfangið [email protected].
Frumvarpið er samið til innleiðingar á þremur Schengen-gerðum sem eru nauðsynlegar svo Ísland uppfylli þær alþjóðlegu skuldbindingar sem það hefur undirgengist með þátttöku í Schengen-samstarfinu. Einnig eru lagðar til tvær breytingar til að treysta eftirlitshlutverk Persónuverndar vegna skráninga í Schengen-upplýsingakerfið.
Breytingarnar sem umræddar gerðir hafa í för með sér eru tilkomnar vegna nýrrar kynslóðar Schengen-upplýsingakerfisins. Með þeim verður íslenskum löggæsluyfirvöldum heimil full notkun annarrar kynslóðar Schengen-upplýsingakerfisins og mun kerfið auka öryggi á landamærum, stuðla að lögmætri umferð og almannaöryggi á Íslandi og Schengen-svæðinu öllu. Helstu breytingar nýja kerfisins felast einkum í að fjölgað er flokkum upplýsinga sem hægt er að skrá inn í Schengen-upplýsingakerfið, svo sem fingrafara og mynda, auk skráningar evrópskrar handtökuskipunar í kerfið í þeim tilvikum sem slík handtökuskipun hefur verið gefin út af þar til bæru yfirvaldi Schengen-ríkis. Þá verði innleidd nýjung sem felur í sér heimild til að tengja skráningar í kerfinu og með því komið á venslum milli tveggja eða fleiri skráninga í kerfið.
Einnig eru lagðar til tvær breytingar varðandi eftirlitshlutverk Persónuverndar vegna skráningar í Schengen-upplýsingakerfið. Markmiðið er að treysta eftirlitshlutverk Persónuverndar gagnvart Ríkislögreglustjóra auk þess sem ákvarðanir Ríkislögreglustjóra má nú bera undir úrskurð Persónuverndar.