Hoppa yfir valmynd
4. september 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 4. september

Heil og sæl.

Föstudagspósturinn lítur aftur dagsins ljós eftir tveggja mánaða sumarfrí og er starfsfólk utanríkisþjónustunnar nú flest snúið til baka og mætt tvíeflt til leiks. Sumt hvert í nýju giggi á nýjum stað, svo vitnað sé í vinsælt dægurlag Ingólfs Þórarinssonar sem gefið var út í sumar.

Og við hefjum leik á þeim breytingum sem Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, ákvað að fara í á yfirstjórn utanríkisráðuneytisins og flutningi á forstöðumönnum sendiskrifa. Sturla Sigurjónsson lét af starfi ráðuneytisstjóra þann 1. september sl. og við tók Martin Eyjólfsson, sem áður var skrifstofustjóri alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu. Stefán Haukur Jóhannesson, núverandi sendiherra í Lundúnum verður sendiherra Íslands í Tókýó 1. janúar í stað Elínar Flygenring, sem kemur til starfa í ráðuneytinu um áramótin.

Sitt hvað hefur verið á dagskrá ráðherra að undanförnu. Í dag flutti ráðherra sameiginlegt ávarp Norðurlandanna á sérstökum fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um málefni Hvíta-Rússlands. Lýsti Guðlaugur fyrir hönd norrænu utanríkisráðherranna miklum áhyggjum af stöðu mannréttinda í Hvíta-Rússlandi í kjölfar nýlegra forsetakosninga sem engan veginn gætu talist hafa verið frjálsar eða óháðar.

„Við getum ekki staðið aðgerðalaus hjá og verið hikandi í gagnrýni okkar, þegar við horfum upp á jafn alvarleg mannréttindabrot og hömlur á sjálfsögðu réttindum fólks og raun ber vitni,“ sagði ráðherrann. 

Á sérstökum fastaráðsfundi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í síðustu viku hvatti Ísland til viðræðna um málefni Hvíta Rússlands. Þar skoruðu íslensk stjórnvöld á Hvíta-Rússland að standa við skuldbindingar um málfrelsi, samkomufrelsi, frelsi fjölmiðla, vernd borgarasamtaka og taka þátt í viðræðum, og láta fanga lausa. Ávarpið má lesa hér.

Áður hafði ástandið í Hvíta-Rússlandi verið til umræðu á sérstökum utanríkisráðherrafundi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja sem haldinn var um miðjan ágústmánuð þar sem samstaða var um að senda yrði stjórnvöldum í Minsk skýr skilaboð um að framganga þeirra í tengslum við forsetakosningarnar þar í landi yrði ekki látin óátalin.

„Það er mikilvægt að við tölum einni röddu í þessu máli enda snýst það um grundvallarmannréttindi. Það er með ólíkindum að slík kúgun og valdníðsla viðgangist í Evrópu nú á dögum enda vorum við á einu máli um að framgöngu ríkisstjórnar Lúkasjenkó forseta væri ekki hægt að láta óátalda,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fundinn. 

Á miðvikudag tók Guðlaugur Þór þátt í fjarmálþingi sem Women Political Leaders og Women20 stóðu fyrir. Fundurinn er sá fyrsti í röð gagnvirkra fjarmálþinga þar sem rætt verður um leiðir til að jafna vægi kynjanna í ákvarðanatöku og stefnumótun í samfélaginu. 

Að því sögðu fer Ísland með formennsku í Evrópuráðinu 2022-2023 en Ragnhildur Arnljótsdóttir er fastafulltrúi Íslands í Strassborg. Evrópuráðinu er ætlað að efla samvinnu aðildarríkjanna 47 með það að markmiði að standa vörð um mannréttindi, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti, efla mannleg gildi og almenn lífsgæði Evrópubúa. Liður í þessu verkefni er starfsemi fastanefndar Íslands í Strassborg en hlutverk hennar næstu misserin verður að undirbúa formennskuna.

Í síðustu viku tók svo utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra þátt í fjarfundi þróunarsamvinnuráðherra Norðurlanda með ráðherrum sjö Afríkuríkja, yfirmönnum sex stofnana Sameinuðu þjóðanna og öðrum samstarfsaðilum. Þar voru efnahagsleg og samfélagsleg áhrif og viðbrögð við kórónu í brennidepli.

Þá fundaði utanríkisráðherra með ráðherra bandaríska flughersins í upphafi síðustu viku þar sem öryggis- og varnarmál á norðurslóðum voru helsta umræðuefni.

Sendiskrifstofur okkar út í heimi hafa haft ýmislegt fyrir stafni síðustu daga og vikur. Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn varð 100 ára 16. ágúst síðastliðinn. Sendiráðið í Kaupmannahöfn er það elsta í íslensku utanríkisþjónustunni og tók til starfa ári eftir að J.E. Bøggild hafði verið skipaður sendiherra Dana á Íslandi. Saga sendiráðsins hefur verið rifjuð upp á afmælisvef ráðuneytisins á árinu. Í nýjasta pistlinum er handritamálið rifjað upp sem er eitt af hinum stóru málum sem utanríkisþjónustan hefur fengist við í gegnum tíðina. Daginn eftir brá starfsólks sendiráðsins á leik er Gay Pride vikan hófst í Kaupmannahöfn. Engin gleðiganga var haldin ár en þess í stað dansaði starfsfólk sendiráðsins við kunnum tónum Daða:

Í sendiráðið Kaupmannahöfn er einnig kominn nýr prestur, Sigfús Kristjánsson, en hans fyrsta embættisverk átti sér stað fyrir um tveimur vikum síðan er hann skírði litla stúlku. 

Á heimasíðu sendiráðs okkar í Moskvu var greint frá því að Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Moskvu, hefði afhent Vladimir G. Titov, fyrsta varautanríkisráðherra Rússlands, afrit af trúnaðarbréfi sínu fyrir skemmstu. Við það tilefni ræddu þeir Árni Þór og Titov um samstarf Íslands og Rússlands á sviði viðskipta, menningar og stjórnmála. Samvinna ríkjanna á sviði norðurslóðamála var sérstaklega rædd en Rússland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu af Íslandi næsta vor. Árni fundaði einnig með Margus Leidre, sendiherra Eistlands, en þeir voru um skeið samtímis sendiherrar í Helsinki. Samstarf ríkjanna á vettvangi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, tvíhliða samstarf, staða mála í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi o.fl. var meðal umræðuefna. Við starfslið sendiráðsins í Moskvu bættist einnig Kristín Halla Kristinsdóttir, sendiráðunautur.

Í Genf hittu þau Anna Lilja Gunnarsdóttir og Þorvarður Atli Þórsson úr fastanefndinni fulltrúa Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar á dögunum. Mikið mæðir á þeirri stofnun vegna COVID-19 þessa dagana en tilefnið var að ræða sérstaklega starf WHO á sviði taugakerfisins en stefnt er á að styrkja enn frekar það starf á næstunni.

Auðunn Atlason, nýr sendiherra Íslands í Finnlandi afhenti Sauli Niinistö, forseta Finnlands, trúnaðarbréf sitt í lok júlímánaðar, og heimsótti um síðustu helgi mót Íslandshesta í Finnlandi. Hestamótin fara fram víðar en í Hatten Þýskalandi fer nú fram svokallað ungmennamót íslenska hestsins. Lesa má kveðju sendiherra Íslands í Berlín, Maríu Erlu Marelsdóttur, hér.

Íslensku húsdýrin eru raunar í hávegum höfð og fela í sér hina ágætustu landkynningu en athygli er vakin á því hjá Iceland Naturally að hægt sé að horfa á „a very special event in Iceland called Réttir“ í beinni útsendingu á Facebook kl. 16 að íslenskum tíma á morgun.
Sendiskrifstofur okkar hafa margar hverjar vakið athygli á þessu uppátæki. Hér að neðan má einmitt sjá Ingibjörgu Davíðsdóttur, sendiherra okkar í Osló, í réttum, að sjálfsögðu.

Í París tók Unnur Orradóttir til starfa sem sendiherra Íslands þann 1. júlí. Hún tekur við af Kristjáni Andra Stefánssyni, sem tekur við stöðu sendiherra Íslands gagnvart Evrópusambandinu í Brussel en hann afhenti, Ursulu von der Leyen forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins trúnaðarbréf sitt í lok júlí. Unnur afhenti sömuleiðis Angel Gurría, framkvæmdastjóra Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), fulltrúabréf sem sendiherra og fastafulltrúi Íslands gagnvart stofnuninni í byrjun júlí, sem og  Audrey Azoulay, aðalframkvæmdastjóra UNESCO, trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands gagnvart UNESCO.

Í Stokkhólmi tók Hannes Heimisson til starfa sem sendiherra en hann  tekur við af Estrid Brekkan, sem tekið hefur við stöðu prótókollsstjóra í stað Hannesar. Karl XVI. Gústaf Svíakonungur staðfesti í vikunni móttöku á trúnaðarbréfi Hannesar eins og greint er frá á heimasíðu sendiráðs okkar í Stokkhólmi í dag.

Þar sem nokkuð langt er síðan síðasti föstudagspóstur birtist verður hér að neðan farið yfir það sem helst var á dagskrá hjá utanríkisþjónustunni í sumar.

Við byrjum á skýrslu Björns Bjarnasonar um þróun norræns samstarfs á sviði utanríkis- og þróunarmála sem gefin var út 6. júlí.

Að tillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, fólu utanríkisráðherrar Danmerkur, Finnlands, Noregs, Svíþjóðar auk Íslands, Birni að skrifa óháða skýrslu þar sem gerðar yrðu tillögur um þróun samstarfs Norðurlandanna á sviði utanríkis- og öryggismála, en tilefnið var sú staðreynd að áratugur er liðinn síðan Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, var falið að skrifa sambærilega skýrslu, en stórum hluta þeirra tillagna hefur verið hrint í framkvæmd. 

Norðurlöndin vinna öll að því að treysta alþjóðlega samvinnu til að verja sameiginleg gildi og hagsmuni. Heimurinn breytist hratt og því tímabært að taka næstu skref á þessari sameiginlegu vegferð og skoða í kjölinn með hvaða hætti megi efla samstarfið enn frekar. Tillögur Björns eru mjög áhugaverðar og ég vonast til þess að þær komist sem flestar til framkvæmda á næstu mánuðum og árum,“ sagði Guðlaugur Þór í tilefni af útgáfunni.

„Þá var óumflýjanlegt að skýrslan tæki mið af þróuninni vegna COVID-19- faraldursins enda ljóst að hann mun hafa áhrif á norrænt og alþjóðlegt samstarf í nútíð og framtíð.“ segir Björn í inngangi skýrslunnar.

COVID-19-tengdar fréttir voru vitanlega áberandi í sumar.  Þann 15. júlí var tekin ákvörðun um að gera ferðamenn frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi undanþegna kröfum um skimun og sóttkví. Því fyrirkomulagi var aftur á móti breytt en frá 19. ágúst hafa allir farþegar sem koma til Íslands þurft að velja á milli þess að fara í tvær sýnatökur með fimm daga sóttkví eða að fara í tveggja vikna sóttkví. 

Þann 17. júlí var greint frá samkomulagi EES/EFTA ríkjanna og Bretlands um sameiginlegt umboð um málefnalista sem vilji er til þess að ná samkomulagi um. Málefnin sem áhersla verður lögð á að ná samkomulagi um eru þessi: fríverslunarsamningar, samhæfing almannatryggingakerfa, loftferðar- og flugöryggismál, lögreglusamstarf, för fólks og búseturéttindi, menntamál, rannsóknir og nýsköpun, og samstarf á sviði einkamála.

Þann 20. júlí lauk svo sumarlotu mannréttindaráðsins þar sem fram fóru mikilvægar umræður m.a. um mannréttindaástandið á Filippseyjum, Sýrlandi og Hvíta-Rússlandi og ályktanir voru samþykktar um m.a. réttindi kvenna og friðsamleg mótmæli. Einna hæst bar þó sameiginleg yfirlýsing Breta fyrir hönd 28 ríkja, þ.m.t. Íslands, um ástandið í Hong Kong þar sem lýst var áhyggjum af nýsamþykktri öryggislöggjöf og áhrifum hennar á mannréttindi í Hong Kong.

Við segjum þetta gott í bili. Og fyrir þá sem enn eru að lesa þá tilkynnist hér með að föstudagspósturinn að viku liðinni verður styttri! 

Með kveðju,

upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta