Hoppa yfir valmynd
11. maí 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Matvælaráðuneytið, Forsætisráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Samstarfsvettvangur um European Digital Innovation Hub á Íslandi

Íslensk stjórnvöld vinna nú að undirbúningi á þátttöku Íslands í áætlun Evrópusambandsins um stafræna Evrópu (DIGITAL Europe). Áætlunin varir frá 2021 til 2027 og er gert ráð fyrir að aðild Íslands verði staðfest um mitt árið 2021.

 

Hluti af þeim undirbúningi er að tilnefna hæfa aðila sem geta sótt um að reka Evrópska miðstöð stafrænnar nýsköpunar (European Digital Innovation Hub, EDIH) á Íslandi. Samráðshópur ráðuneyta sem vinnur að undirbúningi á þátttöku Íslands í DIGITAL Europe hefur komist að þeirri niðurstöðu, að höfðu samráði við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, að skynsamlegt sé að hafa eina miðstöð stafrænnar nýsköpunar á Íslandi.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem leiðir samráðshóp ráðuneytanna, auglýsir því eftir íslenskum lögaðilum sem hafa áhuga á að taka þátt að stofna samstarfsvettvang um rekstur EDIH á Íslandi. Markmiðið er að leiða saman þá aðila sem hafa þekkingu og burði til að reka slíka miðstöð þannig að hún uppfylli þær kröfur sem Evrópusambandið gerir.

Samkvæmt tillögu framkvæmdastjórnar ESB er gert ráð fyrir að EDIH bjóði þjónustu á eftirfarandi fjórum sviðum:

  • Umhverfi til prófunar og staðfestingar (test before invest).
  •  Menntun og hæfniuppbygging (training and skills development).
  • Stuðningur við að finna fjármögnun (support to find investment).
  • Netkerfi og vistkerfi til nýsköpunar (networking and ecosystem access).

Lögð er áhersla á að EDIH veiti þjónustu og stuðning við bæði lítil og meðalstór fyrirtæki og opinbera aðila. EDIH á Íslandi verður hluti af evrópsku neti sambærilegra miðstöðva sem verða tilnefndar í öllum þátttökuríkjum DIGITAL Europe áætlunarinnar og er gert ráð fyrir virku samstarfi þeirra á milli. Þannig skiptir máli að sérstaða í færni og þekkingu á Íslandi fái að njóta sín í þessu samstarfi. Að sama skapi geta íslensk fyrirtæki sótt sér djúpa sérfræðiþekkingu hjá einu eða fleiri erlendu EDIH.

Einungis lögaðilar geta átt beina aðild að samstarfinu, en það geta verið opinberar stofnanir og fyrirtæki, hagsmunasamtök og óhagnaðardrifin samvinnufélög. Gert er ráð fyrir að aðilar geri með sér samstarfssamning (consortium agreement) þar sem verkefni, ábyrgð og fjárhagsskuldbindingar eru útfærðar.

Ísland meðal fremstu þjóða í stafrænni þjónutu 

Sýn hins opinbera er að Ísland sé meðal allra fremstu þjóða á sviði stafrænnar þjónustu. Hún er að að stafræn þjónusta sé notuð til þess að skapa öflugt samfélag með aukinni samkeppnishæfni sem leiðir til verðmætasköpunar og myndar grundvöll hagsældar, að þjónustan sé skýr, örugg, einföld og hraðvirk. Ennfremur að almenningur og fyrirtæki komist beint að efninu, hvar og hvenær sem er, sem sparar dýrmætan tíma fólks og áhrif þjónustunnar á náttúruauðlindir minnka.

Áhugasamir sendi yfirlýsingu um áhuga á Einar Gunnar Guðmundsson, [email protected], sérfræðing í stafrænum umbreytingum hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu fyrir 31. maí 2021. Í yfirlýsingunni komi fram:

  • Almenn lýsing á lögaðila og upplýsingar um tengilið.
  •  Að hvaða þáttum í starfi EDIH viðkomandi lögaðili sjái fyrir sér að geta unnið.
  •  Lýsing á því tæknisviði sem áhersla verður lögð á og hugsanlegum ávinningi fyrir íslensk fyrirtæki og/eða opinberar stofnanir.
  • Hvernig viðkomandi aðilar munu styðja við evrópska EDIH-tengslanetið og vera eftirsóknarverðir samstarfsaðilar.
  • Veita upplýsingar um mögulega mótfjármögnun aðila á því tímabili sem áætlað er að sækja um styrk til DIGITAL Europe.
  •  Lýsing á innviðum sem viðkomandi aðilar eiga eða hafa aðgang að og hvernig þeir munu gagnast EDIH, ekki bara á Íslandi.

Samráðshópur ráðuneyta sem vinnur að undirbúningi á þátttöku Íslands í DIGITAL Europe mun taka afstöðu til yfirlýsinga um áhuga á þátttöku og boða til fyrstu samráðsfunda þeirra sem koma til greina sem formlegir aðilar að samstarfsvettvangi um EDIH. Gert er ráð fyrir að undirbúningi ljúki um miðjan júlí/ágúst og að umsóknarfrestur til framkvæmdastjórnar ESB um rekstur EDIH verði fyrir lok september 2021.

Við mat umsókna verður m.a. tekið tillit til mótframlags, innviða viðkomandi, hæfni og burða til að starfrækja verkefnið, tengslanets og sérhæfingar lögaðila sem fellur innan verkefnisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta