Kosið á ný í Reykhólahreppi 24. júlí 2010
Hreppsnefnd og kjörstjórn Reykhólahrepps hafa ákveðið að uppkosning skuli fara fram laugardaginn 24. júlí 2010. Borin var fram kæra varðandi framkvæmd sveitarstjórnarkosninganna hinn 31. maí sl. Úrskurðarnefnd sem sýslumaðurinn á Patreksfirði skipaði samkvæmt 93. gr. sveitarstjórnarlaganna komst að þeirri niðurstöðu að slíkur ágalli hefði verið á kynningu kjörstjórnar á kosningunum að ógilda bæri kosninguna, og var hún úrskurðuð ógild hinn 15. júní sl. Fráfarandi hreppsnefnd mun starfa uns nýjar kosningar hafa farið fram.
Kosningin er óbundin, þannig að þeir sem vilja greiða atkvæði á kjörfundi eða utan kjörfundar þurfa að skrifa fullt nafn og heimilisfang aðalmanna. Ennfremur að rita nöfn varamanna og heimilisföng þeirra í þeirri röð, sem þeir kjósa að þeir taki sæti allt að þeirri tölu sem kjósa á. Bent skal á, að það telst ágalli en ógildir ekki kjörseðilinn þótt ekki sé ritaður fullur listi aðalmanna og varamanna. Nálgast má frekari upplýsingar á heimasíðu Reykhólahrepps, www.reykholar.is, en þar kemur m.a. fram að kjósa skal fimm aðalmenn og fimm varamenn í hreppsnefndina.
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar í Reykhólahreppi verður auglýst sérstaklega á ákveðnum dögum á heimasíðu Reykhólahrepps en kosið verður á skrifstofu hreppsins á Reykhólum. Nánari upplýsingar veitir sýslumaðurinn á Patreksfirði í síma 450 2200. Dómsmála- ogmannréttindaráðuneytið hefur óskað eftir því við sýslumannsembætti og utanríkisráðuneytið að kjósendum verði gert kleift að greiða atkvæði utan kjörfundar hjá sýslumannsembættum og erlendis hjá sendiráðum eða ræðismönnum vegna kosninganna.
Úrskurður vegna sveitarstjórnarkosninganna í sveitarfélaginu Reykhólahreppi (pdf-skjal)
Auglýsing sýslumannsins á Patreksfirði um utankjörfundaratkvæðagreiðslu (pdf-skjal)
Auglýsing um uppkosningar (pdf-skjal)