Hoppa yfir valmynd
21. maí 2021

Búið í haginn fyrir ferðasumar

Sendiráðið í Brussel fylgist náið með því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins. Undanfarið hefur þetta borið hæst:

Stafræn Covid-19 vottorð – samkomulag í höfn

Samkomulag náðist í vikunni um útfærslu á stafrænum Covid-19 vottorðum sem eiga að auðvelda ferðalög mill landa í sumar. Viðræður ráðherraráðsins og Evrópuþingsins voru snarpar en í gær var tilkynnt að samkomulag væri í höfn.

Reglurnar sem nú hefur náðst eining um fela í sér að Covid-19 tengd vottorð verða gefin út á samræmdan hátt innan EES og Sviss þannig að þau séu tekin gild á landamærum. Gert er ráð fyrir að vottorðin verði komin í gagnið 1. júlí næstkomandi. Ísland hefur tekið þátt í viðræðum um nýju reglurnar og ekki síður í tæknilegum undirbúningi. Miðað er við að reglurnar gangi í gildi um leið í ESB og EFTA-ríkjunum.

Reglurnar ná yfir bólusetningarvottorð, vottorð um fyrri sýkingu og PCR-vottorð, allt vottorð sem nú þegar er verið að meta á landamærum Íslands með ærinni fyrirhöfn. Fyrirsjáanlegt er því að samræmd stafræn vottorð með QR kóða muni stórlega einfalda umsýslu á Keflavíkurflugvelli. Vottorðin munu einnig ná til viðurkenndra hraðprófa. Í reglunum er einnig tekið fram að vottorðin megi nota innanlands í samræmi við reglur á hverjum stað. Sum ríki eru þegar byrjuð að gera vottorð um til dæmis bólusetningu að skilyrði fyrir því að taka þátt í fjölmennum samkomum svo dæmi sé tekið.

Ein veigamesta breytingin sem varð á drögum að reglugerð ESB var sú að nú segir að aðildarríkin skuli ekki gera viðbótar sóttvarnakröfur til þeirra sem ferðast til þeirra með vottorð nema þær séu nauðsynlegar og hóflegar. Forræði aðildarríkja á sóttvörnum er því að einhverju leyti rammað inn. Á Íslandi hefur til dæmis verið gerð sú viðbótarkrafa á bólusetta ferðamenn að þeir undirgangist eina sýnatöku á landamærum. Að einhverju marki endurspeglar þessi viðbót þó gildandi réttarástand í aðildarríkjunum, þ.e.a.s. stjórnvöld eru á hverjum tíma bundin af grunnreglum um meðalhóf og málefnaleg sjónarmið.

Evrópuþingið hafði meðal annars lagt áherslu á að vottorðin ættu að vera aðgengileg öllum á ódýran hátt. Í aðfararorð reglugerðar er nú komin inn klausa þar sem aðildarríkin eru hvött til að tryggja framboð Covid-19 tengdra prófa sem almenningur hafi efni á. Framkvæmdastjórn ESB mun einnig verja 100 milljónum evra í að aðstoða aðildarríkin við að gera ódýr próf aðgengileg.  

 

Aðgerðaáætlun í mengunarmálum

Framkvæmdastjórn ESB gaf út í síðustu viku orðsendingu um aðgerðaráætlun er miðar að því að draga úr mengun lofts, vatns og jarðvegs:  (e. EU Action Plan: Towards Zero Pollution for Air, Water and Soil).

Í aðgerðaráætluninni, sem er hluti af Græna sáttmála ESB, er sett fram sýn ESB til ársins 2050 um heim þar sem mengun er svo lítil að hún sé ekki skaðleg heilsu manna og náttúrulegum vistkerfum. Auk þess eru í aðgerðaráætluninni sett fram skref til að ná því markmiði. 

Áætlunin tengir saman allar viðeigandi stefnur ESB til að takast á við og koma í veg fyrir mengun, með sérstaka áherslu á stafrænar lausnir. Endurskoðun á viðeigandi löggjöf ESB mun leiða í ljós hvar þörf verður á nýrri löggjöf og hvar verður einfaldlega þörf á betri framkvæmd.

Aðgerðaráætlunin setur fram lykil aðgerðir til ársins 2030 sem hafa það að markmiði að draga úr mengun sem næst uppruna hennar. Markmiðin eru, miðað við núverandi stöðu:

  • Auka loftgæði til að draga úr ótímabærum dauðsföllum vegna loftmengunar um 55%;
  • Auka vatnsgæði með því að draga úr úrgangi, plastúrgangi í hafi um 50% og örplasti í umhverfi um 30%;
  • Auka gæði jarðvegs með því að draga úr næringartapi og úr notkun skordýraeiturs um 50%;
  • Fækka um 25% þeim vistkerfum innan ESB þar sem loftmengun ógnar líffræðilegri fjölbreytni;
  • Draga úr hlutdeild fólks sem býr við langvarandi röskun tengda umferðarhávaða um 30%, og
  • Draga umtalsvert úr myndun úrgangs og 50% úr myndun heimilisúrgangs.

Í aðgerðaráætluninni er að finna fjölmargar tímasettar aðgerðir til ársins 2024 sem sjá má í viðauka hennar. Sumar varða endurskoðun löggjafar en aðrar kveða á um betri eftirfylgni við það sem komið er og allt þar á milli. Áætlunin er samtengd öðrum áætlunum og markmiðum ESB, m.a. efnaáætlun ESB, markmiði um kolefnishlutleysi, líffræðilegri fjölbreytni og auðlindanýtingu. 

 

Opnað fyrir bólusetta ferðamenn frá 3ju ríkjum

Samkomulag hefur náðst innan Evrópusambandsins um breytingar á tilmælum um ferðatakmarkanir frá þriðju ríkjum vegna Covid-19 nr. 912/2020. Helstu breytingar eru:

1)     Þeir sem eru fullbólusettir með bóluefnum viðurkenndum af Evrópsku lyfjastofnuninni eða með neyðarsamþykki WHO (og 14 dagar eru liðnir frá bólusetningu) eiga að geta ferðast til og innan svæðisins án þess að sæta aðgerðum á borð við skimun og sóttkví. Bólusettir ferðamenn frá þriðju löndum geta því ferðast til svæðisins.

2)     Skilgreining á „grænu“ svæði er breytt, þannig að í stað þess að nýgengi þurfi að vera undir 25, þá þarf það að vera undir 75. Áfram þarf hlutfall jákvæðra prófa að vera undir 4% svo land geti talist „grænt.“ Tilmælin fela í sér að ekki séu í gildi landamæraaðgerðir gagnvart þeim sem koma frá „grænum“ svæðum, hvort sem þeir eru bólusettir eða ekki.

3)     Aukin áhersla er á vöktun ólíkra afbrigða veirunnar og mun Evrópsku sóttvarnastofnuninni (ECDC) meðal annars vera falið að gefa út kort sem sýnir dreifingu afbrigða sem valda sérstökum áhyggjum eða vert þykir að fylgjast með.

 

Skattlagning í þágu loftslagsmála – grýtt leið framundan

Nýlega birtist eftirfarandi yfirskrift í Politico: „Europe’s plan to tax the world into climate ambition”, í lauslegri þýðingu: „Áform ESB í skattamálum til að hvetja alþjóða-samfélagið til aðgerða í loftslagsmálum.Bakgrunnurinn var ræða Frans Timmermans, yfirábyrgðaraðila Græna sáttmálans hjá ESB, á fundi með bandarískri þingnefnd. Þar sagði hann að þetta væri varnarleikur ESB fyrir evrópskar atvinnugreinar gegn kolefnisleka (e. carbon leakage) eða samkeppni frá löndum með slakar loftlagsvarnir. Hér er Timmermans að vísa til áforma um að leggja sérstakan skatt á innfluttar vörur með hátt kolefnisinnhald, en á ensku gengur skatturinn undir nafninu “ Carbon Border Adjustment Mechanism (CBAM)”. Fyrir liggur að þessi áform ESB falla ekki sérlega vel að þeirri loftlagsáætlun sem Biden, forseti Bandaríkjanna, mun kynna alþjóðasamfélaginu innan skamms. Orðrómur er um að talsmenn Hvíta hússins hafi sent ESB þung varnaðarorð þess efnis að þeir síðarnefndu eigi að setja þessi áform sín á ís (e. deep freeze). Kína tekur jafnvel enn dýpra í árinni en Bandaríkin. ESB hefur hins vegar bent á sér til varnar að CBAM sé í raun spegilmynd ETS gagnvart ríkjum fyrir utan bandalagið sem ekki gera þá kröfu til mengandi fyrirtækja að kaupa losunarheimildir. Sú staðreynd skapi ójafna samkeppnistöðu evrópskum fyrirtækjum í óhag sem CBAM sé ætlað að laga. Með greiðslu skattsins séu innflytjendur að kaupa “losunarheimildir” fyrir innfluttar vörur með háu kolefnisinnihaldi eða “certain goods” eins og það er orðað.  Flest bendir því til þess að leiðin framundan í þessu máli fyrir ESB sé nokkuð grýtt.

 

Stafræn skattlagning – viðskiptaþvinganir í uppsiglingu

Bandarísk stjórnvöld hyggjast beita viðskiptaþvingunum í formi tolla
gegn sex  tilteknum ríkjum sem þegar leggja stafrænan skatt (e. digital tax) á stóru tölvufyrirtækin eins og Google og Facebook. Þar af eru fjögur Evrópuríki, þ.e. Austurríki, Bretland, Ítalía og Spánn en einnig Indland og Tyrkland. Sambærilegur skattur í Frakklandi er hins vegar í bið gagnvart Bandaríkjunum. Heyrst hefur að af þessu geti orðið í byrjun júní og þær gildi í sex mánuði. Það er skoðun margra að með þessu séu Bandaríkin að skapa sér meiri tíma í þeim samningaviðræðum sem nú eiga sér stað hjá OECD um stafræn mál, þ. á m. stafræna skattlagningu. Röksemdir bandarískra sérfræðinga eru þær að stafræni skatturinn beinist fyrst og fremst að bandarískum tölvufyrirtækjum og skekki samkeppnisstöðu þeirra. Önnur ríki, m.a. aðildarríki ESB, segja að þau séu einungis að biðja um að fá sanngjarnan hlut af hagnaði stórra alþjóðafyrirtækja, sem starfi þvert á landamæri og hagi starfseminni þannig að skattlagning verði sem lægst. Það verður spennandi að sjá hvernig þessi mál þróast næstu vikurnar, en áform ESB voru þau að aðildarríkin væru búin að lögfesta slíka skattlagningu fyrir 1. júlí nk.

 

Fyrirtækjaskattar - vegvísir

Í vikunni kynnti framkvæmdastjórn ESB áhugaverðan vegvísi (e. roadmap/communication) um framtíðarstefnu í skattlagningu fyrirtækja (e. Business Taxation for the 21st Century).  Þó skattamál falli ekki almennt undir EES samninginn er margt í þessum vegvísi sem er vert að skoða nánar í alþjóðlegu samhengi, enda ýmsir þættir samofnir þeirri vinnu sem Ísland tekur þátt í innan OECD. Þar ber hæst tillögur OECD um endurskoðun fyrirtækjaskatta í alþjóðlegu tilliti, bæði hvað varðar skattlagningarrétt einstakra ríkja en einnig hugmyndir um lágmarksskattlagningu. Bandarísk stjórnvöld hafa þannig lagt til 15% lágmarksskatt. Sú hugmynd tengist raunar umræðunni um stafrænan skattinn sem áður var fjallað um. Í niðurstöðukafla vegvísisins má finna eftirfarandi yfirlýsingu með tilvísun í þá þróun sem orðið hefur nú þegar alþjóðlega, þ. á m. á vettvangi OECD. “At EU level, we must build on this progress and take forward a similarly ambitious business taxation agenda that ensures fair and effective taxation and that supports productive investment and entrepreneurship”. Þessi boðskapur gengur eins og rauður þráður gegnum vegvísinn og ekki ósennilegt að höfði til fleiri ríkja en aðildarríkja ESB.

 

Aðgengi allra að menntun

Mennta- og æskulýðsmálaráðherrar ESB, undir formennsku Portúgal, héldu fund í byrjun vikunnar. Í niðurstöðum fundarins um jafnræði og jafnt aðgengi allra að menntun og þjálfun er vakin athygli á mikilvægi jafnræðis til að allir nái árangri í námi og einnig að búa til nýja hvata til samstarfs á þessu sviði bæði í Evrópu og á landsvísu. Í niðurstöðunum kemur fram að félagslegur og efnahagslegur bakgrunnur sé enn mikilvægasti þátturinn í námsárangri nemenda í Evrópu sem veldur því að verulegur hluti ungs fólks öðlast ekki nauðsynlega grunnfærni eða félagslegan hreyfileika (e. social mobility).

Í niðurstöðunum kemur fram að Covid-19 heimsfaraldurinn hafi valdið miklu álagi á menntakerfi og leitt til víðtækrar notkunar stafrænnar kennslu og náms. Mikilvægt sé að tryggja að heimsfaraldurinn skapi ekki frekara misrétti. Jafnframt er lögð áhersla á að stafræn tækni geti skapað ný tækifæri til að efla menntun og þjálfun án aðgreiningar. Heimsfaraldurinn hefur einnig sýnt fram á nauðsyn þess að huga að líðan og andlegri heilsu nemenda og kennara.

Þá segir að jafnrétti, nám án aðgreiningar og aðgengi allra að menntun sé grundvallarregla í menntun og þjálfun en engu að síður sé það áskorun að ná þessu fram í aðildarríkjum ESB. Í niðurstöðunum er því skorað á framkvæmdastjórnina og aðildarríkin að vinna saman að stefnumótun til þess að draga úr brottfalli, auka hæfni og koma í veg fyrir atvinnuleysi. Aðildarríkin eru hvött til að bjóða upp á námstækifæri fyrir alla, auðvelda aðgengi að hágæða leikskólavistun, taka á kennaraskorti þar sem það á við og auka stuðning við kennara, svo eitthvað sé nefnt. Framkvæmdastjórnin er m.a. hvött til að þróa áfram leiðbeiningar fyrir stefnumótun um þessi málefni fyrir aðildarríkin og setja á fót fleiri sérfræðingahópa til að stuðla að jafnræði í menntun.

Niðurstöðurnar má nálgast hér.

 

Stefnumörkun í málefnum hafsins

Framkvæmdastjórn ESB gaf í vikunni út nýja stefnu í málefnum hafsins og er hún kennd við bláa hagkerfið. Fram kemur að umhverfisvænni umgengni við hafið sé nauðsynlegur þáttur í að ná markmiðum Græna sáttmálans. Fiskveiðar, sjávareldi, ferðaþjónusta tengd hafi og strönd, flutningar á sjó, hafnir og skipasmíðaiðnaðurinn – allir þessir geirar atvinnulífsins verða að draga markvisst úr neikvæðum áhrifum á umhverfi og loftslag.

Helstu atriði í stefnunni eru þessi:

  • Ná þarf markmiði um kolefnishlutleysi með því að þróa endurnýjanlega orkuframleiðslu á hafi, orkuskiptum við sjóflutninga og „grænni“ hafnarstarfsemi. Gert er ráð fyrir að fjórðungur raforkuframleiðslu ESB muni tengjast hafinu árið 2050 – þar sem vindur, sjávarföll og öldur, meðal annars, verða virkjuð.
  • Innleiða þarf hringrásarhagkerfi með breytingum á hönnun veiðarfæra, endurnýtingu skipa og báta, niðurlagningu olíuborpalla og aðgerðum gegn plastiog örplasti í sjó.
  • Vernda ber fjölbreytt lífríki og fjárfesta í náttúrunni. Ef tekst að friða 30% af hafsvæði Evrópusambandsins eins og áður hefur verið boðað í stefnu um fjölbreytt lífríki þá mun það stuðla að endurheimt vistkerfa og fiskstofnar braggast.
  • Búa þarf strendur og strandbyggðir undir breytingar vegna hækkunar yfirborðs sjávar. Horfa þarf til annarra lausna en varnargarða.
  • Matvælaframleiðsla sem nýtir auðlindir hafsins þarf að vera sjálfbær. Von er á tillögum á næsta ári um kröfur til markaðssetningar á sjávarafurðum og upplýsinga til neytenda. Hert eftirlit með fiskveiðum, notkun þörunga og þangs og margháttuð nýsköpun mun stuðla að því að vernda hafsvæði og lífriki þeirra. Þá hefur framkvæmdastjórnin gefið út leiðarvísi um sjálfbært sjávareldi. Þar er bent á kosti slíkrar matvælaframleiðslu umfram landbúnað frá sjónarhóli loftslagsmála.

Ísland og Noregur skoða þátttöku í þekkingarsetri og rannsóknarneti ESB um netöryggismál

Framkvæmdastjórn ESB birti í september 2018 tillögu að reglugerð um að stofna þekkingarsetur um netöryggismál sem tengdist netöryggisstofnunum í aðildarríkjunum. Reglugerðin tengdist utanríkis- og öryggismálum ESB og var ekki merkt sem EES tæk. Ráðherraráðið og Evrópuþingið hafa fjallað um tillöguna og birti ráðherraráðið í desember afstöðu til niðurstöðu samninga stofnana ESB og tillögu um veigamiklar breytingar á tillögunni sem hafa áhrif á hagsmuni Íslands og Noregs gagnvart henni. Framkvæmdastjórnin hefur samþykkt breytingarnar og er vænst að þingið afgreiði þær formlega í vikunni.

Í stuttu máli mun setrið verða staðsett í Búkarest og fjármagnað af sjóðum Digital Europe sem er eyrnamerktur netöryggismálum og af Horizon áætluninni. Ísland og Noregur eru þátttakendur í báðum þessum áætlunum. Reglugerðin gerir ráð fyrir að setrið fjalli um ráðstöfun fjármuna Horizon og Digital Europe til netöryggisverkefna.

Setrið verður stofnað sem lögaðili með takmarkaðan líftíma, þ.e. yfir núverandi sjö ára fjárhagstímabil. Gert er ráð fyrir að hvert og eitt aðildarríki ESB eigi fulltrúa í stjórn setursins. Þá er gert ráð fyrir að a.m.k. ein stofnun í hverju ríki verði í tengslaneti stofnunarinnar að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Að auki reki stofnunin tengslanet við sérfræðinga og fyrirtæki á sviði netöryggismála. Henni er ætlað að auka þekkingu á netöryggi og styrkja það með því að miðla þekkingu, reynslu og lausnum á því sviði.

Reglugerðin er ekki hluti af EES skuldbindingum EES-EFTA ríkjanna. Ísland og Noregur vinna að hagsmunamati á reglugerðinni og skoða hvort farið verður þess á leit að taka hana inn í EES samninginn á grundvelli ákvæða samningsins um samstarfsáætlanir.

 

Heimildir til refsiaðgerða vegna netárása framlengdar

 Í vikunni ákvað ráðherraráð ESB að framlengja um eitt ár heimildir sambandsins til að beita refsiaðgerðum gagnvart einstaklingum eða samtökum sem taka þátt í netárásum og fela í sér utanaðkomandi ógn fyrir sambandið eða aðildarríki þess.

Nú sæta átta einstaklingar og fjögur samtök refsiaðgerðum fyrir margvíslegar netárásir og felast þær aðallega í ferðabanni og kyrrsetningu eigna. Viðkomandi er gefið að sök meðal annars að hafa gert árás á OPCW, eftirlitsstofnun um bann á efnavopnum, og á upplýsingakerfi þýska þingsins.

Samkvæmt reglunum er einnig heimilt er að refsa einstökum ríkjum utan bandalagsins eða alþjóðlegum stofnunum sé það metið nauðsynlegt til þess að ná markmiðum utanríkis- og öryggisstefnu bandalagsins.

 

Viðskiptastefna ESB í deiglunni

Fimmtudaginn 20. maí var haldinn fundur utanríkisviðskiptaráðherra ESB. Ýmislegt var þar til umræðu, s.s. bætt samskipti yfir Atlantshafið, endurbætur á Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO), auk endurskoðunar viðskiptastefnu Evrópusambandsins.

Merkja má nýja vinda í samskiptunum yfir Atlantshafið með nýjum stjórnvöldum í Bandaríkjunum. Ráðherrarnir voru upplýstir um stöðu viðskipta milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna, og skiptust óformlega á skoðunum við viðskiptafulltrúa Bandaríkjanna, Katherine Tai. Þyngst þar vó samtalið um tolla á stál, ál og farþegaflugvélar (Airbus/Boeing). Aukinnar þíðu gætir á þessu sviði og í sameiginlegri yfirlýsingu frá 17. maí sl. lýstu aðilarnir sig reiðubúna að hætta stigmögnun gagnkvæmra tolla og hefja þess í stað uppbyggilegt samtal á þessu sviði.

Á ráðherrafundinum tókst aðildarríkjum ESB ekki að ná saman um niðurstöður um nýja viðskiptastefnu ESB (e. trade policy review), sem lögð var fram af framkvæmdastjórn ESB í febrúar sl.

Drög að nýrri viðskiptastefnu ESB hafa þrjú meginmarkmið:

  1. að styðja við enduruppbyggingu og nauðsynlega umbreytingu efnahags sambandsins með græn og stafræn markmið að leiðarljósi
  2. að hafa áhrif á þróun alþjóðareglna í átt til sjálfbærrar og sanngjarnar alþjóðavæðingar
  3. að auka getu ESB til að framfylgja hagsmunum sínum og réttindum, þ. á m. þegar sambandið þarf að standa á eigin fótum.

Til að ná þessum markmiðum hefur framkvæmdastjórnin sett fram sex forgangsmál:

  • Endurbætur á Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO); ESB sér mikilvægan samstarfsgrundvöll við nýja Bandaríkjastjórn í þessum efnum.
  • Styðja við græna umbreytingu og efla ábyrgar og sjálfbærar virðiskeðjur; sambandið íhugar m.a. að setja skorður gegn vörum sem unnar eru í nauðungarvinnu.
  • Styðja við stafræna umbreytingu og þjónustuviðskipti; ESB kallar m.a. eftir alþjóðlegum reglum og viðmiðum á stafræna sviðinu, m.a. á vettvangi WTO.
  • Styrkja áhrif ESB á þróun alþjóðlegs regluverks; sambandið hyggst auka samráð við líktþenkjandi samstarfsríki á lykilsviðum, m.a. við Bandaríkin um græn og stafræn málefni á vettvangi tvíhliða viðskipta- og tækniráðs.
  • Styrkja samstarf ESB við nágrannaríki og Afríku; hér er m.a. tekið fram að ESB muni styrkja hið nána efnahagslega samstarf innan Evrópska efnahagssvæðisins.
  • Styrkja áherslu ESB á framkvæmd og eftirlit með viðskiptasamningum, og tryggja jöfn samkeppnisskilyrði; hér er m.a. í skoðun að setja upp stefnu um útflutningslán, til að tryggja betri samkeppnisskilyrði við fyrirtæki sem njóta ríkisstyrkja utan sambandsins. Þannig mætti einnig hvetja til grænna fjárfestingaverkefna.

Skoðanaskipti aðildarríkjanna undanfarnar vikur hafa m.a. lotið að því hversu mikil áhrif önnur svið, s.s. áherslur í loftslagsmálum og mannréttindum, eigi að hafa á þróun viðskiptastefnunnar og einstaka viðskiptasamninga sambandsins. Segja má að það verði sífellt erfiðara fyrir sambandið að gera viðskiptasamninga við einstök ríki vegna þess hversu mikið önnur mál blandast í umræðuna.

Þá hefur verið tekist á um hugtakið „open strategic autonomy“. Hugmyndin í hnotskurn er að áskorunum dagsins sé best mætt með meiri alþjóðasamvinnu en ekki minni. Þannig hyggst ESB í senn vera sjálfu sér nægt, en einnig styðja við opin alþjóðleg viðskipti. Í umræðunni má skilja á milli þeirra sem telja verndarhyggju að einhverju marki nauðsynlega og hinna sem vilja aukið viðskiptafrelsi. Norðurlöndin hafa skipað sér í hóp hinna síðarnefndu eða það sem kallað er „Nordic free-trade advocates“. Gera má ráð fyrir áframhaldandi umræðu um þetta á næstunni, enda að einhverju leyti tekist á um grundvallargildi sambandsins. 

Nánari upplýsingar um niðurstöður ráðherrafundarins má finna hér: https://www.consilium.europa.eu/en/meetings/fac/2021/05/20/.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta