Netöryggiskeppni íslenskra ungmenna í Hörpu um helgina
Landskeppni Níunnar, netöryggiskeppni íslenskra ungmenna, fer fram í dag og á morgun á UTmessunni í Hörpu. Markmið keppninnar er að leita að ungu fólki sem hefur áhuga á netöryggismálum og hvetja það til að vinna við þau í framtíðinni. Þau sem standa sig best fá þátttökurétt í evrópsku netöryggiskeppninni 2020 í Vín.
Þetta er fyrsta keppni sinnar tegundar á Íslandi en forkeppni fyrir sjálfa landskeppnina var haldin í október í fyrra. Alls unnu 27 ungmenni sér rétt til þátttöku í landskeppninni. Keppendur glíma við ýmis verkefni sem snúa að netöryggi, svo sem að framkvæma skarpskyggnipróf og árásir á netþjóna svo fátt eitt sé nefnt.
Keppnin er tvískipt, yngri deild er fyrir aldurshópinn 14-20 ára og eldri deild fyrir 21-25 ára. Landskeppnin er undanfari þátttöku í evrópsku netöryggiskeppninni „European Cyber Security Challenge“ (ECSC) sem haldin er árlega. Hún verður næst haldin í Vínarborg, 3.-7. nóvember 2020. Keppnislið Íslands verður valið að landskeppni lokinni en tíu einstaklingar keppa fyrir hverja þjóð í Evrópukeppninni.
Keppnin er haldin að frumkvæði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, en öryggisfyrirtækið Syndis sér um framkvæmd hennar í samstarfi við ráðuneytið og fleiri aðila. Margir gefa framlag til keppninnar með ýmsum hætti og ekki hefði verið gerlegt að halda hana án þessa góða stuðnings. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mun veita viðurkenningar og verðlaun þegar keppni lýkur síðdegis á morgun.
UTmessan er einn stærsti viðburður ársins í tölvugeiranum og hefur verið haldin árlega frá árinu 2011. Á morgun er UTmessan opin almenningi og er öllum frjálst að fylgjast með netöryggiskeppninni.
- Vefsíða Níunnar – netöryggiskeppni íslenskra ungmenna
- Facebook-síða Níunnar
- Evrópska netöryggiskeppnin