Hoppa yfir valmynd
21. maí 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 270/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 21. maí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 270/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19040091

 

Beiðni […] og barna hans um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 12. febrúar 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 14. desember 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir einstaklings er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir nefndur kærandi) og barna hans, […], fd. […], ríkisborgara Afganistan (hér eftir A) og […], fd. […], ríkisborgara Afganistan (hér eftir B), um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu. Úrskurður kærunefndar var birtur kæranda þann 18. febrúar 2019 og þann 25. febrúar 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda og barna hans um frestun réttaráhrifa. Kærunefnd synjaði þeirri beiðni með úrskurði nr. 166/2019, dags. 4. apríl 2019. Þann 15. apríl 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda og barna hans um endurupptöku auk fylgigagna.

Kærandi krefst þess að mál hans og barna hans verði endurupptekið á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem ákvarðanir Útlendingastofnunar hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Í endurupptökubeiðni kæranda og barna hans kemur fram að fjölskyldan óttist um líf sitt verði henni gert að snúa aftur til Grikklands. Kærandi hafi greint frá því að hann hafi orðið fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð vegna stöðu sinnar sem flóttamaður í Grikklandi. Þá vísi kærandi til umsagna sem fylgdu beiðninni og telji að þær sýni fram á með óyggjandi hætti að lífi hans og barna hans verði stefnt í hættu verði þeim gert að snúa aftur til Grikklands. Í þeim komi fram að hjónaskilnaður sé smánarlegur og skammarlegur fyrir viðkomandi aðila og fjölskyldur þeirra. Þess vegna leiti fyrrverandi mágur kæranda hefnda gegn honum í Grikklandi og bendi sú frásögn til þess að líf þeirra séu í mikilli hættu, verði þeim vísað til Grikklands. Um séu að ræða upplýsingar sem ekki hafi legið fyrir í málinu þegar úrskurður kærunefndar og ákvarðanir Útlendingastofnunar í máli kæranda og barna hans hafi verið kveðnir upp.

Kærandi kveður að andlegt heilsufar fjölskyldunnar hafi ekki verið metið með fullnægjandi hætti. Þá bendi kærandi á að börn séu sérstaklega viðkvæmur hópur og að íslenskum stjórnvöldum beri að hafa hagsmuni þeirra að leiðarljósi við alla ákvörðunartöku með vísan til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013.

Kærandi vísar jafnframt til þess að samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 sé ekki heimilt að senda útlending til svæðis þar sem hann hafi ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr. laganna eða vegna svipaðra aðstæðna og greini í flóttamannahugtakinu. Ef beiting 1. mgr. 36. gr. laganna leiði til þess að brotið væri gegn 42. gr. laga um útlendinga, t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda eigi umsækjanda til, skuli taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Kærandi telji að framlögð gögn beri með sér að aðstæður fjölskyldunnar í Grikklandi nái því alvarleikastigi sem áskilið sé í 42. gr. laga um útlendinga.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og að framan greinir byggir beiðni kæranda um endurupptöku á því að lífi kærandi og barna hans sé stefnt í hættu verði þau endursend til Grikklands. Meðal fylgigagna beiðninnar eru umsagnir einstaklinga sem kveða að kærandi og börn hans muni eiga á hættu að verða fyrir ofbeldi af hálfu bróður fyrrverandi eiginkonu hans, verði þeim gert að snúa aftur til Grikklands. Mágurinn fyrrverandi sé í hefndarhug vegna skilnaðar þeirra og telur að kærandi hafi kastað rýrð á fjölskylduna í heimaríki. Í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun vegna umsóknar hans um alþjóðlega vernd, dags. 11. október 2018, kom fram að kærandi hafi kvaðst óttast mág sinn og að hann óttist hefndarglæpi af hendi hans. Viðtalið var meðal þeirra gagna sem kærunefnd lagði til grundvallar við vinnslu máls kæranda og barna hans og lýsti nefndin þeirri afstöðu í úrskurði í málinu að ráða mætti af gögnum um aðstæður í Grikklandi að óttist kærandi og börn hans um öryggi sitt þar í landi gætu þeir leitað til lögreglu eða annarra þar til bærra stjórnvalda sökum þess. Það er mat kærunefndar að þær umsagnir sem kærandi hefur lagt fram með beiðni sinni sýni ekki fram á að ákvörðun íslenskra stjórnvalda í málinu hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik séu verulega breytt frá því úrskurðurinn var kveðinn upp.

Í áðurnefndum úrskurði í máli kærenda og barna hans var það niðurstaða kærunefndar að endursending þeirra til Grikklands fæli ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá áréttar nefndin það mat, sem er lýst í úrskurðinum, að endursending kæranda og fjölskyldu hans til Grikklands komi ekki til með að fela í sér ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð, sbr. 3. mgr. 36. gr. og 42. gr. laga um útlendinga. Í úrskurðinum var vísað til ákvörðunar Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013, þar sem kemur m.a. fram að veruleg skerðing lífsgæða sé ekki nægjanleg til að teljast ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmálans, nema sérstaklega sannfærandi mannúðarástæður mæli gegn endursendingu. Það var mat kærunefndar að slíkar sérstaklega sannfærandi mannúðarástæður væru ekki fyrir hendi í máli kærenda og benda gögn sem fylgdu beiðni um endurupptöku ekki til þess að aðstæður kæranda og barna hans að því er varðar mögulegar ofsóknir sem þau kunni að verða fyrir við flutning til Grikklands hafi breyst verulega að því leyti.

Kærunefnd tekur fram að í gögnum í máli kæranda og barna hans, sem lauk með úrskurði nr. 61/2019, hafi komið fram að kærandi og synir hans hafi farið í viðtal til sálfræðings á vegum Reykjavíkurborgar. Þar hafi komið fram að kærandi væri kvíðinn og að A og B bæru merki um tengslaröskun við móður sína. Það er mat kærunefndar að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að mat kærunefndar á heilsufari kæranda og barna hans hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum að þessu leyti.

Kærunefnd tekur jafnframt fram að í úrskurði nr. 61/2019 var gerð grein fyrir mati nefndarinnar á hagsmunum barnanna A og B, en í úrskurðinum er m.a. vísað til 32. gr. a reglugerðar um útlendinga þar sem fram koma sérviðmið er varða börn og ungmenni. Var það niðurstaða kærunefndar að flutningur fjölskyldunnar til Grikklands samrýmdist hagsmunum barnanna þegar litið væri m.a. til öryggis þeirra, velferðar og félagslegs þroska, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Þá var það einnig mat kærunefndar að gögn málsins bentu til þess að það væri ekki andstætt réttindum A og B að umsóknir þeirra yrðu ekki teknar til efnismeðferðar hér á landi. Það er mat kærunefndar að framangreind fylgigögn með beiðni þessari beri ekki með sér að mat kærunefndar á hagsmunum barnanna í úrskurði nefndarinnar nr. 61/2019 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Að teknu tilliti til gagna málsins, þ.m.t. þeirra gagna sem lögð voru fram með umsókn kæranda um alþjóðlega vernd, er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar nr. 61/2019 hafi verið byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kæranda og barna hans um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda og barna hans er hafnað.

 

The request of the appellant and his children is denied.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Árni Helgason                                                                                  Hilmar Magnússon

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta