Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 2020

Afhending trúnaðarbréfs í Nepal

Sendiherra Íslands á Indlandi, Guðmundur Árni Stefánsson, afhendir forseta Nepal, frú Bidhya Devi Bhandari, trúnaðarbréf sitt. - mynd

Guðmundur Árni Stefánsson sendiherra afhenti þann 13. febrúar sl. Bidhya Devi Bhandari, forseta Nepals, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Nepal með aðsetur í Nýju-Delí á Indlandi. Afhendingin fór fram í höfuðborginni Katmandú við hátíðlega athöfn. Nepal er eitt þriggja umdæmislanda sendiráðsins í Nýju-Delí, hin tvö eru Srí Lanka og Bangladess.

Guðmundur Árni átti gagnlegar viðræður við frú Bhandari forseta þar sem ýmis málefni voru til umræðu. Þar voru í brennidepli loftlagshlýnun og sameiginlegir hagsmunir landanna í þeim efnum, formennska Íslands í Norðurskautsráðsinu og barátta Nepals við að sporna gegn bráðnun jökla í Himalaja-fjöllunum, þriðja pólnum svonefnda. Einnig voru rædd pólitísk samskipti ríkjanna á breiðum grunni. Þá bar knattspyrnu einnig á góma og lýsti forseti Nepal yfir áhuga á að bjóða íslenska landsliðinu að mæta því nepalska í nafni baráttunnar gegn loftslagsvánni.

Þá átti sendiherra einnig fund með utanríkisráðherra Nepals, Pradeep Gyawali. Þar voru loftlagsmálin einnig á dagskrá og lýsti ráðherrann vilja til að auka samstarf þjóðanna á þessum vettvangi. Þá var samstarf í ferðamálum ofarlega á baugi, auk vilja til nánari pólitískra samskipta milli landanna.

Í heimsókninni hitti sendiherrann Kristján Edwards, Íslending sem rekið hefur stórt ferðaskrifstofufyrirtæki í Nepal með á þriðja hundrað starfsmenn um áratuga skeið.


  • Guðmundur Árni Stefánsson sendiherra og forseti Nepal frú Bidhya Devi Bhandari - mynd
  • Frá fundi Guðmundar Árna og forseta Nepal - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta